SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ritstjórn10. maí 2018

MÆÐGNAMSAMBÖND Í BÓKMENNTUM - Viðtal við Helgu S. Helgadóttur

Helga Helgadóttir

Þriðja bók Helgu S. Helgadóttur rithöfundar  og bóhems um uppvöxt og ævintýri Blævar kemur bráðlega út. Af því tilefni settist Júlía Sveinsdóttir niður með höfundi og ræddi við hana um lífið og listina.

Barnbækurnar um Blæ - þroskasaga úr Vesturbænum Bækur Helgu fjalla um þroskasögu Blævar. Hún er örverpi og segja sögunar frá samskiptum Blævar við foreldra hennar sem eru litríkar persónur. Helga segir bækurnar falla sumpart undir raunsæisbókmenntir þó svo að einstaka draugur og ýmsar sérgáfur komi við sögu.

Dóttir veðurguðsins kom út árið 2015 og Húsið á heimsenda 2016. Sú þriðja, með vinnuheitið Náðargáfa, er á leiðinni. Húsið á Heimsenda hefur verið þýdd á frönsku og er í enskri þýðingu.

Bækurnar eru þroskasaga Blævar, 9 ára stúlku úr Vesturbænum, örverpi foreldra sinna sem eru fyrrverandi sveitaballastjarna og heimspekinemi. Ákaflega vel skrifaðar og svo skemmtilegar að undirrituð gat ekki lagt þær frá sér, fyrr en að lestri loknum.

Helga er með fleiri spennandi verkefni á dagskrá þ.á.m að grufla í sögu kampavíns á Íslandi ásamt fleiri góðum konum (hugmyndin er frá G. Sigríði Ágústsdóttur og Dagbjört Ingu Hafliðadóttur), fyrir bókina Kampakátar kræsingar, lax og freyðivín, fróðleikur með uppskriftum. Hljómar ákaflega vel.

Þrjár systur Dóttir veðurguðsins

“Ég er yngst í röðinni af þremur systrum, ég átti eiginlega að verða strákur og heita Guðjón, en varð Helga. Elsta systir mín Steinunn, er myndlistarmaður og rithöfundur, miðjan Sigurlína, er velskrifandi sjúkraliði og eins og í öllum skemmtilegustu sögunum eru þrjá systur þungamiðjan og 3 er náttúrulega heilög tala. Árið 1969 fórum við fjölskyldan til Kaupamannahafnar þar sem pabbi var við nám í fangelsisfræðum. Ég var sex ára þegar við fluttum heim og við fluttumst á Eyrarbakka þar sem pabbi tók við stöðu forstöðumanns á Litla-Hrauni og undir hans handleiðslu urðu miklar breytingar á aðbúnaði fanga. Hann sá um að þeir kæmust í nám eða launaða vinnu á staðnum og er ég ákaflega stolt af starfi pabba þar.

Uppátækjasöm móðir á Eyrarbakka 

Foreldrar mínir höfðu gengið í söfnuðinn Votta Jehova þegar við bjuggum úti og ég þekkti ekkert annað en það. Mamma passaði alltaf upp á að ég fengi gjafir kring um afmæli og jól og þegar ég hugsa til baka, var ég mjög ung þegar ég var send til systra minna um hátíðirnar. Mamma var heimavinnandi en skrifaði alltaf býsnin öll, ég á mikið af bréfum frá henni sem eru yndisleg en um leið mjög heiðarleg og blátt áfram. Hana langaði alltaf að verða arkítekt en ætli lífið hafi ekki bara orðið eins og hjá mörgum, ala upp börnin og allt sem þeim fylgir. Mamma var uppátækjasöm og eitt sinn er við höfðum verið í útlöndum, keypti hún pennaveski handa öllum í bekknum mínum og fyllti af Mackintoshi , sem var sko ekkert á boðstólum á þeim árum.

Húsið á Heimsenda

Sískrifandi lestrarhestur Ég las mikið sem barn, áður enn gelgjan ægilega tók völdin. Var alæta á bækur og merkti við í bókablaði Æskunnar og skundaði svo með listann á bókasafn Selfoss, en þar var besta lykt í heimi, bókalyktin. Eru Guðirnir Geimfarar, Öddu bækurnar, Beverly Gray, Nancy Drew, Greifinn af Monte Cristó, heimsbókmenntirnar Andrés Önd eru örfáar bækur sem stelpan bar heim úr bókasafninu. Mér finnst gott að hafa tvær bækur um mismunandi efni, á náttborðinu. Mín skoðun er sú að góðar bækur hreinlega stækki heilann. Ég var alltaf að skrifa eitthvað, hélt lengi vel dagbók og hafði mjög gaman af íslenskum stíl og hef enn. Síðan 2007 hef ég haft vasabók í töskunni og hún hefur svo sannarlega komið sér vel við skriftirnar.

Mæðgnasambönd í barnabókum

Ég hef unnið ýmiskonar störf um ævina, byrjaði snemma að plokka garnir úr humar heima á Eyrarbakka, var uppvaskari, sjoppustelpa, læknaritari og launafulltrúi þar til 2010 þegar ég fékk inngöngu í Bifröst. Ég var kampakát með skólavistina, hafði lengi dreymt um að mennta mig meira. Ég endaði á að fara í diplómanám í ferðamálafræði, sem ég kláraði 2012 og fór svo í bókmenntafræði í HÍ. Þetta var algjör draumatími en um leið pínku erfitt að byrja að læra að læra aftur. BA ritgerðin mín í bókmenntafræðinni fjallaði um mæðgnasambönd í barnabókum og ég lagðist í mikinn lestur fyrir þau skrif. (Bækur Astrid Lingren og Guðrúnar Helgadóttur stóðu uppúr).

Samvinna fjölskyldunnar

Ég er lukkunnar pamfíll í einkalífinu, á þrjár stelpur og tvö barnabörn, er vel gift Þresti Leó Gunnarsyni leikara, sjómanni og reykingarmanni (þ.e. fiski) og fékk fjögur yndisleg börn í kaupbæti með honum. En aftur um mæðgnasamböndin, mig langaði að taka hugmyndina lengra, ég á 3 dætur og fyrsta bókin um hana Blæ dóttir veðurguðsins, fæddist. Maðurinn minn og yngsta stelpan okkar skrifuðu bækurnar mikið með mér, enda eru þau ákaflega hugmyndarík, og sumar senur í bókinni eru teknar beint upp úr okkar lífi. Dóttir okkar Þrastar með lesblindu, við köllum hana náðargáfuna, enda er hún mikið hjartans mál. Þeir sem ekki eru með þessa greiningu eiga oft erfitt með að skilja hana og ég hef oft verið óþolinmóð við stelpuna þegar mér finnst eitthvað blasa við en hún nær ekki alveg utanum. Það hefur oft verið streð að láta hana lesa heima, held að við höfum prófað allt. Hún hefur valið sér allskyns lestrarlausnir, verið undir borði, staðið á haus og lesið í baði, svo einhver dæmi séu tekin. Hún hefur náð því að lesa sér til ánægju, þvert á umsagnir kennara á fyrstu skólaárunum og les meðal annars MAD blöð og sögurnar um Kaftein Ofurbók. Lesblindir eru öðruvísi en á mjög skemmtilegan hátt, hún sér heiminn á ólíkan hátt en ég en sá heimur er mjög áhugaverður.

Framtíðarplön Vonandi held ég bara áfram að skrifa og vera hamingjusöm með fólkinu mínu í framtíðinni.