AUÐUR AVA HLÝTUR FRÖNSK BÓKMENNTAVERÐLAUN
Frá Benedikt bókaútgáfu bárust þessar gleðifréttir í gær:
Tilkynnt var á blaðamannafundi í Compostela á Spáni í vikunni að Auður Ava Ólafsdóttir hlyti San Clemente Rosalía verðlaunin fyrir Ungfrú Ísland sem bestu erlendu skáldsöguna. Verðlaunin eru veitt af ungu fólki í framhaldsskólum landsins í samvinnu við stofnunina Rosalía de Castro í Santiago de Compostela sem kennd er við samnefnt skáld. Þá taka nemendur í framhaldsskólum á Englandi, í Frakklandi og Þýskalandi einnig þátt í vali á verðlaunahafa. Verðlaunin sem eru veitt í 26. sinn vekja jafnan mikla athygli og var tilkynnt um þau að viðstöddum fulltrúum ýmissa mennta-og menningarstofnana. Þau eru veitt í þremur flokkum, í flokki kastilískra og galískra höfunda og í flokki erlendra skáldsagna. Ungfrú Ísland komst í sumar í lokaúrtak verðlaunanna ásamt bókum eftir bandaríska Pulitzerverðlaunahafann Colson Whitehead og franska -marókóska höfundinn Leilu Slimani.
Meðal erlendra rithöfunda sem hlotið hafa verðlaunin eru Julian Barnes, Murakami, Kundera og Paul Auster.
Allar skáldsögur Auðar Övu hafa verið þýddar á erlend tungumál og hafa sex þeirra hlotið tilnefningar til virtra erlendra verðlauna, á Ítalíu, Frakklandi, Kanada, Spáni, Bretlandi, Írlandi og á Norðurlöndum. Ungfrú Ísland er nýkomin út á Spáni í þýðingu Fabio Teixidó og er gefin út af Alfaguara. Fyrr á þessu ári var skáldsagan tilnefnd til Dublin Literary Award og árið 2019 hlaut Ungfrú Ísland ein virtustu bókmenntaverðlaun Frakklands, Prix Medicis.
Forsíðumyndin er tekin af heimsíðu fjölmiðilsins France Bleu francebleu.fr