SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir12. nóvember 2022

TÓL - Ný skáldsaga eftir Kristínu Eiríksdóttur

Út er komin skáldsagan Tól eftir Kristínu Eiriksdóttur og hefur hún þegar fengið fimm stjörnu dóm:

„Það er fagnaðarefni að við skulum eiga listamann af þessum kalíber sem sinnir skáldsagnagerð af þeirri alvöru sem hér er á bók. Tól er merkileg og mikilvæg skáldsaga sem á brýnt erindi til okkar tíma og nú er lesenda að meðtaka þann boðskap eftir hyggjuviti sínu og kærleik. Kristín Eiríksdóttir er einn af okkar stóru höfundum og skilar til okkar dásamlega sönnu og frumlegu verki.“

Páll Baldvin Baldvinsson / Stundin

 

Kristín sendi síðast frá sér ljóðabókina Kærastinn er rjóður árið 2019, sem tilnefnd var til Maístjörnunnar, og fimm ár eru liðin frá síðustu skáldsögu hennar Elín, ýmislegt, sem hlaut bæði Fjöruverðlaunin og Íslensku bókmenntaverðlaunin, svo að beðið hefur verið með eftirvæntingu eftir nýju verki frá henni.

Á vef Forlagsins segir svo frá skáldsögunni Tól:

Kvikmyndagerðarkonan Villa Dúadóttir situr fyrir svörum á heimildamyndahátíð í Stokkhólmi en spurningarnar vefjast fyrir henni. Nákvæmlega hvernig tengdist hún hvalveiðimanninum Dimma, sem myndin hennar fjallar um? Hvers vegna vildi hún segja sögu hans? Er yfirleitt viðeigandi að hún geri það? Og hvað með Amalíu, sem hún klippti út úr myndinni?

Líkt og í fyrri verkum Kristínar Eiríksdóttur virðist allt blasa við en ekkert er sem sýnist. Frásögnin heldur lesandanum föngnum, nærgætin og miskunnarlaus í senn.