SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir15. nóvember 2022

HINSEGIN ÁSTIR - Ný og spennandi barna- og ungmennabók

Elísabet Thoroddsen var að bætast við Skáldatalið en hún var að senda frá sér sitt fyrsta verk. Bókin heitir Allt er svart í myrkrinu, kom út nú á dögunum og er spennusaga fyrir börn og unglinga. Sagan geymir ennfremur umfjöllun um hinsegin ástir sem er mjög gott og þarft innlegg í flóru bókmennta og þá ekki hvað síst þeim sem ætlaðar eru ungmennum og börnum. 

Sagan fjallar um Tinnu, sem er aðalpersóna bókarinnar, en hún verður veðurteppt á sjúkrahúsi úti á landi þar sem hún kynnist Dóru, dóttur yfirlæknisins. Þær finna upp á alls konar að gera á meðan þær bíða eftir að óveðrið gangi yfir. Fúllyndur hjúkrunarfræðingur virðist alltaf vera á hælunum á þeim og drungalegir atburðir fara að gerast þegar þær hætta sér inn á deild spítalans sem er lokuð. Í bland við æsispennandi söguþráð bókarinnar fléttast ástarsaga milli þeirra Dóru og Tinnu.