SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir16. febrúar 2022

AUÐUR JÓNSDÓTTIR HLAUT SPARIBOLLANN

Á degi elskenda, 14. febrúar, voru bókmenntaverðlaunin Sparibollinn veitt og hlaut þau að þessu sinni Auður Jónsdóttir fyrir skáldsöguna Allir fuglar fljúga í ljósið.
 
 
Sparibollinn er veittur fyrir fegurstu ástarjátninguna í bókmenntum nýliðins ár. Hugtakið ástarjátning er þó skilið mjög víðum skilningi þegar að þessum verðlaunum kemur, eða eins og segir í frétt frá þeim sem að verðlaununum standa:
 
Lýsingin má standa stök eða vera hluti af stærra verki. Hún má ná til andlegrar ástar og líkamlegrar. Ástar milli karla, kvenna, barna, dýra, ættingja, vina, skipa, flugvéla, fólksflutningabifreiða og svo framvegis.
 
Auk Auðar Jónsdóttur voru eftirfarandi verk tilnefnd í ár: Efndir eftir Þórhildi Ólafsdóttur, Fríríkið eftir Fanneyju Hrund Hilmarsdóttur, Næturborgir eftir Jakup Stachowiak og Stol eftir Björn Halldórsson.
 
Þetta er í þriðja sinn sem þessi skemmtilegu bókmenntaverðlaun eru veitt en í fyrra var það Eiríkur Örn Norðdal sem hlaut þau fyrir skáldsöguna Brúin yfir Tangagötu og í hittifyrra fóru verðlaunin til Rögnu Sigurðardóttur fyrir smásagnasafnið Vetrargulrætur.
 
Skáld.is óskar Auði Jónsdóttur til hamingju með Sparibollann og vonar að kaffið úr honum bragðist vel.