Auður Jónsdóttir
Auður Jónsdóttir er fædd 30. mars 1973.
Auður starfar sem rithöfundur og sjálfstæður blaðamaður og hefur skrifað greinar, pistla og viðtöl fyrir ýmis tímarit og dagblöð.
Smásaga hennar, „Gifting“, birtist í tímaritinu Andblæ haustið 1997 og fleiri smásögur eftir hana hafa birst í blöðum og safnbókum síðan.
Fyrsta skáldsaga Auðar, Stjórnlaus lukka kom út árið 1998 og var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Síðan hefur Auður sent frá sér fleiri skáldsögur, auk bóka fyrir börn og unglinga, meðal annars bókina Skrýtnastur er maður sjálfur (2002) þar sem hún dregur upp mynd af afa sínum, Halldóri Laxness.
Skáldsaga Auðar, Fólkið í kjallaranum, hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2004 en Tryggðarpantur, Stóri skjálfti og Þjáningarfrelsið voru allar tilnefndar til sömu verðlauna. Fyrir skáldsöguna Ósjálfrátt fékk hún Fjöruverðlaunin 2012 og Menningarverðlan DV sama ár. Þá hlaut Auður Fjöruverðlaunin í flokki fræðibóka fyrir Þjáningarfrelsið – Óreiða hugsjóna og hagsmuna í heimi fjölmiðla ásamt meðhöfunum sínum Báru Huld Beck og Steinunni Stefánsdóttur. Auður var valin „hirðskáld“ Borgarleikhússins 2009.
Auður skrifar raunsæisverk sem einkennast af húmor og hlýju þrátt fyrir að viðfangsefnin séu oft alvarleg. Hún skoðar gjarnan hvað það er sem mótar og myndar sjálfsmynd einstaklings með því að beina sjónum að uppvexti hans. Þá kannar hún reglulega mæðgnasambönd í skrifum sínum en oftar en ekki má greina vissa togstreitu í þeim eins og kemur glögglega fram í sögunum Stjórnlaus lukka, Fólkið í kjallaranum, Ósjálfrátt og Stóra skjálfta.
Minnið hefur einnig verið Auði huglægt en meðal annars hefur hún velt fyrir sér hlutverki minnisins, hvers einstaklingur minnist og hvernig og um leið á hvaða hátt skáldskapurinn mótar líf fólks. Slíkar rannsóknir eru einkar miðlægar í sögunum Stóra skjálfta, Ósjálfrátt og Tilfinningabyltingunni en þær tvær síðast nefndu dansa á mörkum skáldskapar og veruleika því þær vísa með óbeinum hætti til lífs og reynslu höfundar.
Sögur Auðar hafa komið út á ýmsum tungumálum en tvær skáldsögur eftir hana hafa verið kvikmyndaðar; annars vegar Tryggðarpantur og hins vegar Stóri skjálfti.
Auður bjó um tíma í Kaupmannahöfn og síðan í Barcelona og Berlín en býr nú í Reykjavík, ásamt syni sínum.
Ritaskrá
- 2023 Högni
- 2021 Allir fuglar fljúga í ljósið
- 2020 107 Reykjavík (ásamt Birna Önnu Björnsdóttur)
- 2019 Tilfinningabyltingin
- 2018 Þjáningarfrelsið. Óreiða hugsjóna og hagsmuna í heimi fjölmiðla (ásamt Báru Huld Beck og Steinunni Stefánsdóttur)
- 2015 Stóri skjálfti
- 2012 Ósjálfrátt
- 2008 Vetrarsól
- 2006 Tryggðarpantur
- 2004 Fólkið í kjallaranum
- 2003 Allt getur gerst
- 2002 Gagga og Ari
- 2002 Skrýtnastur er maður sjálfur
- 2001 Algjört frelsi
- 2001 Feita mamman
- 2000 Annað líf
- 1998 Stjórnlaus lukka
Verðlaun og viðurkenningar
- 2022 Sparibollinn fyrir fegurstu ástarjátninguna í Allir fuglar fljúga í ljósið
- 2018 Fjöruverðlaunin fyrir Þjáningarfrelsið (ásamt Báru Huld Beck og Steinunni Stefánsdóttur)
- 2016 Viðurkenning úr Rithöfundasjóði Ríkisútvarpsins
- 2015 Verðlaun bóksala fyrir Stóra skjálfta
- 2012 Fjöruverðlaunin fyrir Ósjálfrátt
- 2004 Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir Fólkið í kjallaranum
- 2002 Verðlaun bóksala fyrir Skrýtnastur er maður sjálfur
Tilnefningar
- 2015 Til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir Stóra skjálfta
- 2013 Til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir Ósjálfrátt
- 2012 Til Menningarverðlauna DV fyrir Ósjálfrátt
- 2006 Til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir Tryggðarpant
- 2006 Til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir Fólkið í kjallaranum
- 2002 Til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir Skrýtnastur er maður sjálfur
- 1998 Til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir Stjórnlausa lukku
Þýðingar
- 2022 Quake (Megan Alyssa Matich þýddi á ensku)
- 2018 Nagyroham (Patat Bence þýddi á ungversku)
- 2017 Akolb alsfhah (vantar nafn þýð. á arabísku)
- 2016 Wege, die das Leben geht (Kristof Magnusson þýddi á þýsku)
- 2015 Livstørst (Kim Lembek þýddi á dönsku)
- 2015 Tourner la page (Jean-Christophe Salaün þýddi á frönsku)
- 2012 Daarginds (Esther Ottens þýddi á hollensku)
- 2011 Jenseits des Meeres liegt die ganze Welt (Kristof Magnusson þýddi á þýsku)
- 2009 Depositum (Claus Claussen þýddi á dönsku)
- 2007 Folket i källeren (Maria K. Nygård þýddi á sænsku)
- 2006 Dem i kælderen (Susanne Grubb þýddi á dönsku)
Heimasíða
http://jonsdottir.com/is/