SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir28. nóvember 2022

ÞJÓÐSAGNASKRÍMSLI Í HEIMI FRAMTÍÐAR

Eva Rún Þorgeirsdóttir hefur sent frá sér nýja skáldsögu Skrímslin vakna. Bókin er spennusaga fyrir börn sem gerist í framtíðinni, nánar tiltekið árið 2222, og er fyrri bók af tveimur sem fjallar um þau Kötu og vin hennar Jarkó og hulinn heim náttúruskrímslanna.

Teiknarinn Logi Jes Kristjánsson teiknar fjölmargar myndir í bókina.

Í kynningu útgefanda segir:

Sagan gerist á Íslandi þar sem aðal sögupersónan Kata býr með grimmum stjúpföður sínum, honum Grími, og húshjálpinni Bröndu. Kata er búin að fá nóg af ósanngirni Gríms og er ákveðin í að strjúka að heiman, þrátt fyrir að þurfa að fara burt frá Bröndu sem hefur reynst henni vel. Við undirbúning flóttans rekst hún á furðulega veru, sem reynist vera skrímsli sem aðeins eru til frásagnir af í gömlum þjóðsögum - og þá breytast öll hennar plön. Skyndilega er hún lent í hættulegri atburðarás og kynnist undarlegum heimi sem hún vissi ekki að væri til.

 

Skrímslin vakna er spennusaga en undirtónn bókarinnar er málefni sem varðar nútíð og framtíð - umhverfismál og vangaveltur um það hvernig framtíð okkar lítur út. Í þessum framtíðarheimi hefur verið komið á fullkomnu hringrásarhagkerfi og til dæmis verið sett bann á framleiðslu nýrra hluta - því allt á að endurnýta. Þjóðsagnaskrímslin spila stóran og mikilvægan þátt í því að heila heim framtíðar sem er enn að takast á við afleiðingar neyslusamfélagsins.

Eva Rún Þorgeirsdóttir hefur undanfarinn áratug skrifað efni fyrir börn í formi bóka og sjónvarpsefnis. Skáld.is býður hana velkomna í Skáldatalið.