Jóna Guðbjörg Torfadóttir∙11. desember 2022
ÁVARP eftir Magneu J. Matthíasdóttur
Ljóð dagsins er að finna í nýjasta Ljóðabréfi Tungls-forlagsins, sem barst inn um lúguna í fyrradag. Það er alltaf tilhlökkunarefni að sjá hvað bréfið hefur að geyma hverju sinni.
Ljóðið er eftir Magneu J. Matthíasdóttur en hún hefur sent frá sér fjölda verka, ljóð, smásögur og skáldsögur, og er mikilvirkur þýðandi.
Ljóðið kallast Ávarp og geymir skemmtilega hugleiðingu um erfiða tíma:
Ávarp
ég ávarpa mína samtíð á þessum erfiðu tímum
og þó ekki
tímarnir eru vissuleg flóknir
en samtíðin ekki mín
og þó
ég ávarpa þessa erfiðu tíma úr minni samtið
og þó ekki
samtíð mín er löngu orðin fortíð
í tímanum og minninu
og þó
ég ávarpa þessa erfiðu samtíð úr minni fortíð
og þó ekki
fortíðin er vissulega á sínum stað
en hefur fátt til málanna að leggja
og þó
ég ávarpa þennan tíma
úr erfiðri fortíð
en hef reyndar fátt að segja
sem nýtist í þessari samtíð
og þó
munið að þvo ykkur um hendurnar