SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir18. janúar 2021

ALLTAF ER EINHVER SEM GRÆTUR - Ljóð eftir Jakobínu

Hljóðlátt hvísl um hugann fer,
hræðir ungu blómin mín,
þegar sólin sælast skín,
sækir að mér daga og nætur.
Þegar jörð og himinn hlær,
hvíslar einhver dapur blær:
Alltaf er einhver sem grætur.
 
Hvenær þagnar þetta hvísl,
þetta ömurleikamál?
Er það máski einhver sál,
sem alein vakir dimmar nætur
og vill minna mig á það,
að margur guð til einskis bað
og alltaf er einhver sem grætur?
 
Viðkvæmt eins og hörpuljóð
huldunnar í klettaborg
hvíslar dagsins dulda sorg
um draum sem hvergi festir rætur.
Himinninn er hreinn og blár.
Hrynja samt um gluggann tár,
því alltaf er einhver sem grætur.
 
 
Kvæði 1960

 

Tengt efni