SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jakobína Sigurðardóttir

Jakobína Sigurðardóttir (1918–1994) fæddist og ólst upp í Hælavík á Hornströndum, einni afskekktustu byggð landsins sem nú er farin í eyði. Hún var elst þrettán systkina en ein systra hennar var skáldkonan Fríða Á. Sigurðardóttir.

Jakobína flutti sautján ára gömul alfarin að heiman árið 1935 og foreldrar hennar fluttu burt úr Hælavík tveimur árum síðar. Jakobína flutti til Reykjavíkur og hugðist afla sér menntunar en lítið varð úr þeim áformum því  fá tækifæri voru fyrir efnalitlar konur á þeim tíma. Einnig vann hún um tíma sem kaupakona í Árnessýslu.

Árið 1949 flutti hún norður í Mývatnssveit og hóf búskap í Garði II ásamt manni sínum, Þorgrími Starra Björgvinssyni. Þau eignuðust fjögur börn: Stefaníu (1950–2013), Sigrúnu Huld (f. 1952), Sigríði Kristínu (f. 1956) og Kára (f. 1959). Jakobína bjó í Garði það sem eftir var ævinnar en hún lést 29. janúar 1994.

Eftir Jakobínu liggja  fjórar skáldsögur, þrjú smásagnasöfn, ævintýri, kvæðabók og endurminningabók. Hún hóf feril sinn sem ljóðskáld en kvæði hennar, sem mörg hver voru ádeilukvæði gegn hersetu og erlendum her, birtust í tímaritum á 6. áratugnum og komu út í ljóðabókinni Kvæði árið 1960. Árið áður gaf Jakobína út sína fyrstu sögu, Söguna af Snæbjörtu Eldsdóttur og Ketilríði kotungsdóttur (1959), en þótt þá bók sé að finna í barnadeildum bókasafna er hún í raun pólitísk ádeila í formi ævintýris og að því leyti beint framhald ádeilukvæðanna.

Jakobína vakti fyrst athygli sem sagnahöfundur með smásagnasafninu Púnktur á skökkum stað (1964) og skáldsögunni Dægurvísu (1965). Í kjölfarið fylgdu skáldsögurnar Snaran (1968), Lifandi vatnið – – – (1974) og Í sama klefa (1981) og smásagnasöfnin Sjö vindur gráar (1970) og Vegurinn upp á fjallið (1990). Síðustu bók sína lauk Jakobína við á dánarbeði en það var endurminningabókin Í barndómi (1994).

Jakobína var tvisvar tilnefnd fyrir Íslands hönd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, fyrir Dægurvísu árið 1967 og Lifandi vatnið – – – árið 1976. Hún fékk viðurkenningu úr Rithöfundasjóði Ríkisútvarpsins árið 1969. Árið 1989 ákvað Alþingi enn fremur að setja Jakobínu í heiðurslaunaflokk listamannalauna.

Bækur Jakobínu hafa verið þýddar og gefnar út á dönsku, sænsku og rússnesku.

Texti og mynd af Jakobínu er sótt á vefsíðu um skáldkonuna, sem Ásta Kristín Benediktsdóttir íslenskufræðingur hefur smíðað en á þeirri síðu má t.d. nálgast umfjallanir um verk Jakobínu. Dóttir Jakobínu heldur úti facebooksíðu um skáldkonuna og sendi frá sér ævisögu hennar 2019: Jakobína, saga skálds og konu.


Ritaskrá

  • 1994  Í barndómi
  • 1990  Vegurinn upp á fjallið
  • 1983  Kvæði, aukin og endurbætt
  • 1981  Í sama klefa
  • 1974  Lifandi vatnið
  • 1970  Sjö vindur gráar
  • 1968  Snaran
  • 1965  Dægurvísa
  • 1964  Púnktur á skökkum stað
  • 1960  Kvæði
  • 1959  Sagan af Snæbjörtu Eldsdóttur og Ketilríði Kotungsdóttur 

 

Verðlaun og viðurkenningar

  • 1989  Heiðurslaun listamanna
  • 1969  Viðurkenning Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins

 

Tilnefningar

  • 1976  Til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir Lifandi vatnið
  • 1967  Til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir Dægurvísu

 

Tengt efni