LIGGUR BEINT VIÐ AÐ LEITA TIL FORMÆÐRANNA
Skáldkona þessa fallega sunnudags er engin önnur er Oddný Sen. Hún hefur komið víða við og skrifað bæði skáldskap, fræði og ævisögur.
Oddný er einkar fjölhæf. Hún er kvikmyndafræðingur, rithöfundur og kennari. Hún starfar sem deildarforseti Kjarna í Kvikmyndaskóla Íslands og hefur verið verkefnastjóri kvikmyndafræðslu grunnskóla og framhaldsskóla í Bíó Paradís frá árinu 2010. Hún starfar jafnframt sem þýðandi, vinnur við verkefnið Verðlaunahátíð ungra áhorfenda hjá Kvikmyndamiðstöð Íslands og kennir kvikmyndafræði við Myndlistarskóla Reykjavíkur.
Ein þekktasta bók Oddnýjar er Kínverskir skuggar (1997) sem er örlagasaga nöfnu og formóður, Oddnýjar Erlendsdóttur frá Breiðabólsstöðum á Álftanesi, sem átti viðburðaríkari og sérstæðari ævi en flestar íslenskar samtíðarkonur hennar. Árið 1909 hélt hún út í heim, tvítug að aldri, og dvaldi fjarri ættjörðinni í nær þrjá áratugi; fyrst í Skotlandi og síðan hinum megin á hnettinum, í Kína, föðurlandi mannsins sem hún giftist. Dregin er upp persónuleg mynd af þessari aldamótastúlku af Álftanesinu sem örlögin báru yfir höf og lönd.
Aðra bók skrifaði Oddný um aðra formóður, Sigríði Jóhannesdóttur Hansen, sem var uppi á 19. öld, Vængjuð spor (2003).
„Þetta er ástar- og örlagasaga og í henni blandast saman fátækt og ríkidæmi,“ segir Oddný í viðtali í Fréttablaðinu, en Sigríður var alin upp á efnaheimili í Hafnarfirði á árunum 1844-1860, giftist ríkum manni á Akranesi, eignaðist fjögur börn með honum og missti tvö þeirra. Síðar gerðist hún saumakona í Reykjavík í kringum 1868 og bjó við mikla fátækt og skort þar til hún fékk starf sem saumakona á heimili fyrsta kaupmannsins á Akranesi, Þorsteins Guðmundssonar. Ekki vænkaðist hagur Sigríðar við það.Hún eignaðist barn með Þorsteini sem var rangfeðrað og var vinnumaður látinn gangast við barninu. Hún lést svo úr sulti 39 ára gömul eftir að hafa alið tvíbura á Akranesi.“
„Mér finnst alltaf gaman að skrásetja og safna heimildum um fólk úr fortíðinni, til þess að það fólk gleymist ekki. Þá liggur beint við að leita til formæðranna. Þetta eru allt konur sem varpa ljósi á ákveðinn tíma sem ég vil ekki að gleymist“ segir Oddný að lokum í viðtalinu.