SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Helga Jónsdóttir29. október 2020

Ég er ekki viss um

Ólöf Sverrisdóttir hefur nú bæst við Skáldatalið og á hún jafnframt ljóð vikunnar á Skáld.is sem ber titilinn „Ég er ekki viss um“. Ólöf er lærð leikkona og hefur auk þess lokið námi í ritlist við Háskóla Íslands. Hún er eflaust þekktust fyrir persónu sína Sólu úr barnabókinni Sóla og sólin (2014), sem lifnar við á skjánum í Stundinni okkar og í sögubíl Borgarbókasafnsins, Æringja. Ólöf skrifar þó ekki einungis fyrir börn heldur hefur hún sent frá sér ljóð, leikrit og smásögur fyrir fullorðna en hún á til að mynda nokkrar sögur í smásagnasafninu Möndulhalla sem kom út árið 2020.
 
Við bjóðum Ólöfu hjartanlega velkomna í Skáldatalið!
 
 
Ég er ekki viss um
 
að sannleikurinn klæði mig.
Kannski klæjar mig
líka undan honum.
Verð of áberandi
eða ekki nógu áberandi.
Kannski er hann líka of víður
eða of þröngur.
Kannski best
að fara bara
í gamla kjólinn
Hann er eitthvað svo mátulegur.

 

Tengt efni