Ólöf Sverrisdóttir
Ólöf Sverrisdóttir er fædd árið 1958 og ólst upp í Biskupstungunum.
Ólöf fór í Menntaskólann að Laugarvatni og nam bókmenntafræði við Háskóla Íslands í eitt ár eftir stúdentspróf. Eftir það átti leiklistin hug hennar allan og hún útskrifaðist sem leikkona frá East15 acting school Essex á Englandi. Eftir leiklistarnámið samdi hún barnaleikrit fyrir Furðuleikhúsið og þætti í sjónvarpið fyrir börn en fór síðar í framhaldsnám í leiklist og lauk MA-gráðu frá Exeter University. Lokaverkefni hennar þaðan var einleikurinn, Eldurinn, sem hún skrifaði um Jóhönnu af Örk og sýndi í Tjarnabíói haustið 2003. Þá stundaði hún nám í ritlist við Háskóla Íslands meðfram vinnu og útskrifaðist þaðan vorið 2021.
Ólöf samdi ljóðið „Kona“ sem vakti athygli en það var flutt af Bergþóru Árnadóttur og birt í tímaritinu Veru.
Ólöf sendi frá sér barnabókina Sóla og sólin árið 2014 en hún gerði jafnframt leikgerð eftir bókinni sem leikin var á Barnamenningarhátíð. Ólöf hefur auk þess samið þætti fyrir Stundina okkar þar sem hún fer sjálf með hlutverk Sólu og segir sögur.
Ólöf á fimm smásögur í smásagnasafninu Möndulhalli og leikþættir hennar, Dansandi skuggar og Strengir hafa verið fluttir í útvarpsleikhúsinu og í Listaháskólanum.
Ólöf hóf störf hjá Borgarbókasafninu 2007 þar sem hún starfar sem sögukona og verkefnastjóri.
Ritaskrá
- 2022 Hvítar fjaðrir
- 2020 Möndulhalli (ásamt fleiri höfundum)
- 2014 Sóla og sólin