SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Guðrún Steinþórsdóttir 9. september 2021

KAPPHLAUP UM NÓTT

Ásta Sigurðardóttir er einkum þekkt fyrir kynngimagnaðar smásögur en hún málaði einnig myndir, skar út dúkristur og orti ljóð. Í sögum sínum fjallaði Ásta gjarnan um lítilmagnann en hún var óhrædd við að ræða opinskátt ýmis samfélagsmein sem voru iðulega vandlega falin í hennar tíð. Ekki síst beindi hún sjónum að kynjamisrétti, fátækt, fordómum, mannúðarleysi og ofbeldi gegn konum og börnum. Ásta hefur verið viðfangsefni margra upp á síðkastið en til dæmis má nefna að um síðustu áramót sá Vera Sölvadóttir um tvo útvarpsþætti þar sem hún fjallaði um skáldkonuna, skrif hennar og lífshlaup og í síðustu viku var frumsýnt leikritið Ásta eftir Ólaf Egil Egilsson sem byggir á ævi og skáldskap listakonunnar. Þá er auk þess væntanlegt greinasafn um líf Ástu og list. Ásta er höfundur ljóðs vikunnar sem að þessu sinni er „Kapphlaup um nótt“.
 
Kapphlaup um nótt (improviserað)
 
Ég hljóp um nóttu asfalt ísarnblátt
um ördauð stræti, rennvot gljáð og hál,
– ég hljóp, ég þaut um óttans ofsamátt,
og ógndjúp þögnin hafði fengið mál.
 
Ég hljóp ég þaut í kapp við rökkurs rögn
riðandi fætur hvatti skelfing beitt.
Ég rak upp hljóð í heimsins dýpstu þögn
– eitt hverfult bergmál, – svo var ekki neitt.

Tengt efni