SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Guðrún Steinþórsdóttir14. júlí 2021

Þórdís er afmælisbarn dagsins

 
 
 
 
Skáldkonan skemmtilega Þórdís Gísladóttir á afmæli í dag. Þórdís skrifar jöfnum höndum fyrir börn og fullorðna og hefur einnig samið námsefni og skrifað unglingabækur í samstarfi við Hildi Knútsdóttur. Þá er hún afar öflugur þýðandi en meðal annars hefur hún þýtt bækur um múmínálfana eftir Tove Jansson. Þórdís yrkir gjarnan um hversdagslífið og tilveru mannsins á óvæntan og snjallan máta en í ljóðum hennar er húmorinn sjaldnast langt undan. Hér að neðan má lesa ljóð úr þremur ljóðabókum Þórdísar.
 
 
Vor
Vökunóttum hef ég eytt í vangaveltur um
hvað prinsinn hafðist að í heila öld
á meðan Þyrnirós svaf.
 
Og ég hef legið andvaka með hugann við fólk sem á sér óvenjuleg leyndarmál og sjúkdóma við öllum lyfjum.
 
Dögum saman voru fimmtíu gráir skuggar í kringum augu mín.
 
Þau lukust upp í morgun, mig langaði að loka þeim aftur þar til svartþröstur söng, óboðin sól smaug á milli gluggatjalda og rándýrshjarta í seilingarfjarlægð.
 
 
 
Algengar ranghugmyndir
 
Að börn þurfi að lesa sömu bækur og foreldrarnir lásu sem börn
Að það segi eitthvað um manneskju ef hún notar Excel
Að þeir sem læka þig á Facebook líki vel við þig Að æskilegur klæðnaður sé mikilvægur
Að útlendingar þurfi að aðlagast
Að ævisögur segi sannleikann
Að ljóð eigi að vera knöpp
Að landamæri séu lögmál
 
 
 
I
 
Hún trúir á stjörnuspár, gagnsemi fæðubótarefna, virkni blómadropa, Guð og tilgang lífsins. Hún er frekar efins um tilvist álfa, en telur þó alls ekki útilokað að þeit geti verið til. Lífið eftir dauðann er hún líka sannfærð um og hún er myrkfælin og óttast afturgöngur. En hún hefur litla trú á sjálfri sér.
 
 
 
Innilegar hamingjuóskir fær Þórdís í tilefni dagsins!
 
 
 

Tengt efni