SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ritstjórn11. júní 2021

UPPSKERUTÍMI

Vorið hefur verið mikill uppskerutími hjá Skáld.is. Í febrúar síðastliðnum hlaut Soffía Auður Birgisdóttir, einn þriggja ritstjórnarmeðlima vefsins 1,5 milljóna króna styrk vegna Skáld.is, sem Háskóli Íslands veitir akademískum starfsmönnum sínum "til að styðja við virka þátttöku í samfélaginu í krafti rannsókna og sérþekkingar" (sjá nánar hér).
 
Í gær tóku þær Soffía Auður, Steinunn Inga Óttarsdóttir og Jóna Guðbjörg Torfadóttir við öðrum veglegum styrk, upp á 1,6 milljónir, úr Menningarsjóði Seðlabankans sem kenndur er við Jóhannes Nordal (sjá nánar hér).
 
Styrkinn mun Skáld.is nota til að ráða starfsmann við vefinn. Verkefni er að uppfæra og bæta skáldatalið og auka við nýjum færslum, hlaða inn eldri greinum um bókmenntir kvenna og öðru efni sem tengjist íslenskum kvennabókmenntum. Einnig að skrifa nýjar greinar og ritdóma.
 
Um þessar mundir er einnig verið að leggja lokahönd á yfirfærslu vefsins í nýtt og öflugra vefkerfi og á haustmánuðum verður því kynntur nýr og uppfærður vefur sem vonandi verður enn öflugri og betri en áður.

Tengt efni