SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Guðrún Steinþórsdóttir22. október 2021

FYRSTA ÍSLENSKA ÆTTJARÐARKVÆÐIÐ ER EFTIR KONU

Í stórmerkilegri grein eftir Helgu Kress, "Fyrir dyrum fóstru", ræðir hún meðal annars um vísu Helgu Bárðardóttur úr Bárðar sögu Snæfellsáss og hvernig karlkyns fræðimenn hafa afbakað og mistúlkað vísuna í áranna rás.
 
Grein Helgu, sem ber undirtitilinn: Textafræðingar og konan í textanum út frá vísu Helgu Bárðardóttur í Bárðar sögu Snæfellsáss, birtist fyrst í Tímariti Háskólans 1989 en síðar í greinasafni Helgu, sem ber sama titil: Fyrir dyrum fóstru. Konur og kynferði í íslenskum fornbókmenntum og kom út hjá Rannsóknarstofu í kvennafræðum við Háskóla Íslands árið 1996.
 
Vísa Helgu Bárðardóttur er svona:
 
Sæl væra eg
ef sjá mætti
Búrfell og Bala
báða Lóndranga
Aðalþegnshóla
og Öndvertnes,
Heiðarkollu
og Hreggnasa,
Dritvík og Möl
fyrir dyrum fóstru. 
 
Vísan er önnur tveggja vísna sem eignaðar eru Helgu Bárðardóttur í sögunni. Um þær segir Helga Kress: "Báðar eru á einföldu og auðskildu máli, lausar við málskrúð og flóknar kenningar" (75). Vísuna hér að ofan yrkir Helga Bárðardóttir þegar hún er í útlegð á Grænlandi og segir Helga Kress að vísan sé "fyrsta íslenska heimþrárkvæðið, og um leið ættjarðarkvæðið" (100).
 
Á síðu Helgu Kress á vefnum hi.academia.edu er opinn aðgangur að stórum hluta fræðiskrifa hennar og mælir Skáld.is sterklega með því efni sem þar er að finna.
 
Smelltu á myndina til að lesa greinina "Fyrir dyrum fóstru".
 

Tengt efni