SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir11. september 2022

STÚLKA ÁN PILTS - Helga Kress

Hér fyrir neðan má lesa afar fróðlega grein eftir Helgu Kress um Júlíönu Jónsdóttur skáldkonu. Greinin birtist í Breiðfirðingi, 10. árg. 2022, og aftur hér með góðfúslegu leyfi höfundar.
 
 
Stúlka án pilts
Um líf og ljóð skáldkonunnar Júlíönu Jónsdóttur,
þeirrar fyrstu sem gaf út ljóðabók á Íslandi*
 
I
Árið 1876 er merkisár í sögu íslenskra bókmennta, þótt ekki sé þess getið sem slíks í opinberum bókmenntasögum, en þá kom út á prenti fyrsta skáldrit eftir íslenska konu, ljóðabókin Stúlka eftir Júlíönu Jónsdóttur sem á titilblaði kennir sig við Akureyjar á Breiðafirði.
 
Júlíana er þó ekki Breiðfirðingur að uppruna. Hún er fædd 27. mars árið 1838 á Búrfelli í Hálsasveit í Borgarfirði. Móðirin var „ógift stúlka“, Guðrún Samsonardóttir (1818­1865) á Búrfelli, sem samkvæmt prestsþjónustubók lýsir föðurinn Jón Sigurðsson (1800­-1859), „ógiftan húsmann á … í Húnavatnssýslu.“[1] Fyrstu ár ævinnar ólst Júlíana upp hjá móðurafa sínum, Samson Jónssyni (1795­1851), og konu hans, Þorbjörgu Þorsteinsdóttur (1800-­1877), á Rauðsgili í Reykholtsdal. Í manntalinu 1845 er Júlíana skráð 8 ára „fósturbarn“ á Rauðsgili í Reykholtssókn, og í manntalinu 1850 er hún þar 12 ára „tökubarn“. Eftir að afi hennar, Samson, drukknaði í Hvítá árið 1851 fluttust þær Þorbjörg ásamt syni hennar, Eyjólfi Jóhannessyni (1824-­1911), konu hans og tveimur börnum, að Bæ í Bæjarsveit, og þar fermdist Júlíana fjórtán ára gömul. Nýfermd var hún send að heiman til að vinna fyrir sér, fyrst til móður sinnar og manns hennar á Selvöllum á Snæfellsnesi þar sem hún dvaldist um skeið en undi sér ekki. Eftir nokkra hrakninga er hún í manntalinu 1855 skráð ógift vinnukona á Saurum í Staðastaðarsókn, Snæfellssýslu, 19 ára að aldri, og er þar gerð tveimur árum eldri en hún var. Átján ára fluttist hún á heimili móðursystur sinnar að Kollsá í Hrútafirði og er þar talin til vinnufólks næstu fjögur árin.[2] Árið 1860 var hún ráðin vinnukona á stórbýli séra Friðriks Eggerz (1802-­1894) í Akureyjum á Breiðafirði, miklu menningarheimili, og þar er hún í samtals tólf ár. Í manntalinu 1860 (fyrir Skarðssókn) er hún þar skráð ógift vinnukona, 23 ára, og í Akureyjum er hún í manntalinu 1870, ógift vinnukona, 32 ára.
 
II
Fáar samtímaheimildir eru til um Júlíönu frá þessu tímabili ævi hennar, aðrar en þær sem lesa má út úr ljóðum hennar, sem flest eru að einhverju leyti sjálfsævisöguleg. Þó nefnir séra Friðrik hana tvisvar í sinni stórfróðlegu ævisögu, Úr fylgsnum fyrri aldar, sem gefin var út að honum löngu látnum á árunum 1950 og 1952. Í fyrra skiptið tengist Júlíana bústýruraunum hans eftir lát eiginkonunnar Arndísar Pétursdóttur í maí 1864 og í desember á sama ári bústýrunnar Sigríðar, konu ráðsmannsins Bjarna Þórðarsonar, síðar bónda á Reykhólum. Séra Friðrik, sem segir frá sjálfum sér í þriðju persónu, ritar:
 
Friðrik vissi nú ekki, hvar hann skyldi fá sér bústýru. Hann sá hvergi þau hjón svo hentug, að kona mannsins gæti verið það, svo vel færi. Að öðru leyti vildi hann ekki heldur fyrir orðs sakir taka nokkurn þann lausan og liðugan kvenmann, sem hann ekki gæti um leið verið vel þekktur fyrir að eiga.[3]
Um þetta leyti voru fimm vinnukonur í Akureyjum og af þeim virðist Júlíana helst hafa komið til greina sem bústýra, og þó ekki. Að þessu ýjar séra Friðrik í furðulegri frásögn þar sem hann vitnar um sjálfan sig í sýslumanninn Lárus Blöndal „sem gat því nærri hvað langt það væri frá lund Friðriks að búa með Júlíönu.“[4] Hún verði þó að vera áfram til að gæta þeirra barna sem voru á heimilinu. Allt er þetta þó málum blandið þar sem tímasetningar eru nokkuð á reiki í frásögn prestsins. Snemma vors 1865 gerir séra Friðrik sér ferð norður í land til að biðja sér bústýru sem hæfir hans standi, prestsekkjunnar Ragnheiðar Jónsdóttur (1821­-1907) í Víðidalstungu. Um sama leyti fer Júlíana burt úr Akureyjum að Skarði á Skarðströnd og dvelst þar í tvö ár.[5] Þegar hún snýr aftur í Akureyjar er þar komin bústýran Ragnheiður með yngri börn sín tvö, og verður þeim vel til vina. Með þessu var bústýruraunum séra Friðriks þó ekki lokið, því að Ragnheiður reyndist honum erfið, ekki síst í fjármálum, sem voru honum einkar hugleikin, og af hjónabandi varð ekki.
 
Í síðara skiptið sem nafni Júlíönu bregður fyrir í frásögn séra Friðriks er þegar hún hjúkrar fársjúkum manni í Akureyjum veturinn og sumarið 1874, en svo veikur er hann að það „urðu alltaf 2 kvenmenn, Gunnhildur Guðmundsdóttir og skáldmærin Júlíana, að stunda hann.“ Var allt reynt til að létta veiki hans en ekkert dugði. Var hann þá fluttur „í rúmi“ til lækninga út í Stykkishólm „og fylgdu honum nefndir 2 kvenmenn til þjónustu.”[6] Hann fékk verustað í húsi Guðrúnar Sveinbjörnsdóttur þar sem þær Gunnhildur og Júlíana stunduðu hann þar til hann lést eftir nokkurra mánaða kvalafulla legu. Ekki er sagt hvar þær fengu verustað eða hvað af þeim varð, en þetta sumar, þjóðhátíðarárið 1874, flyst skáldmærin Júlíana, 36 ára gömul, alfarin úr Akureyjum, með drög að ljóðabók í farteskinu.
 
III
Lúðvík Kristjánsson, sem fyrstur skrifaði um Júlíönu í grein sem birtist í Breiðfirðingi 1943, og hann síðar endurskoðaði í Vestrænu 1981, lætur að því liggja að Júlíana hafi farið úr Akureyjum vegna vonbrigða í ástum, sem hún hafi síðan aldrei jafnað sig á. Undir þetta tekur Magnús Gíslason í grein um Júlíönu í Nýju kvennablaði 1946, og síðast Guðrún P. Helgadóttir í riti sínu um Júlíönu, Brautryðjandinn, frá 1997 og gerir mikið úr. Um þetta fjallar hún í kaflanum „Tryggðarof “ sem þannig hefst:
 
Júlíana er ung stúlka í Akureyjum og mætir þar á vissan hátt örlögum sínum. Þar eignast hún vonbiðil sem brást henni og hún virðist syrgja alla ævi.[7]
 
Þá bendir hún á að Júlíana nefnir hvergi nafn mannsins, örlagavaldsins, og það gera þeir ekki heldur, Lúðvík Kristjánsson og Magnús Gíslason, í greinum sínum. Það gerir hins vegar Guðrún P. Helgadóttir og ritar:
 
Magnús Magnússon kom til Akureyja 1869 sem vinnumaður og virðist hafa valdið straumhvörfum í lífi Júlíönu. Hann var fæddur 7. febrúar 1847 og er um níu árum yngri en Júlíana. Með þeim tókust heitar ástir, og Júlíana virðist skoða hann sem vonbiðil sinn, en margt fer öðruvísi en ætlað er.[8]
 
Samkvæmt þessu er Júlíana ekki beint ung stúlka í Akureyjum þegar hún mætir örlögum sínum, komin á fertugsaldur og meintur vonbiðill rúmlega tvítugur. Enda fór það svo að hann fellir hug til nítján ára stúlku sem kom í Akureyjar stuttu á eftir honum og saman fara þau þaðan burt 1873, ári á undan Júlíönu.[9] Það er því varla þeirra vegna sem Júlíana helst ekki við í Akureyjum.
 
„Svo virðist sem Júlíana komist ekki yfir tryggðarofið,“ endurtekur Guðrún P. Helgadóttir undir lok kaflans, eftir að hafa vitnað í ýmis kvæði hennar um vonbrigði, ástarsvik og tryggðarof. Júlíana var alla ævi ógift, segir Guðrún, og virðist ekki hafa bundist neinum manni í sambúð. „Vera má að hún hafi syrgt þennan elskhuga sinn alla ævi“, kemur svo enn til áréttingar.[10] Svo mikilvægt er það að skáldkonan hafi átt sér unnusta, og að hann hafi skapað henni örlög. Þó hugleiðir Guðrún það eins og í bakþanka að metnaður Júlíönu, frelsisþráin og skáldskapurinn kunni að hafa einhverju um ráðið.
 
IV
Á þessum tíma var Stykkishólmur miðstöð menningar á Vesturlandi og þangað sækir Júlíana. Ýmislegt bendir þó til að hún hafi þegar í Akureyjum ætlað sér lengra, það er til Vesturheims, en þangað fór hálfbróðir hennar, Jón Jónsson, síðar Hrútfjörð, frá Stað í Hrútafirði, ásamt konu sinni og þremur ungum börnum snemmsumars árið 1873 með skipinu Peru frá Reykjavík.[11] Milli þeirra systkina og fjölskyldu hans var gott samband, og má geta sér þess til að Júlíana hafi hugsað sér að verða þeim samferða en af því hafi af einhverjum ástæðum ekki orðið.[12]
 
Í Stykkishólmi dvaldist Júlíana í tæp tíu ár og vann fyrir sér með ýmsum störfum, svo sem hjúkrun, barnagæslu, saumaskap, vefnaði og þvottum, auk þess sem hún tók virkan þátt í menningarlífi staðarins, m.a. leiklistarstarfsemi.[13] Þá skipti hún oft um húsnæði, átti m.a. heima í Kristjánshúsi, Schiöthshúsi, Guðbrandarbæ og Guðrúnar Tómasdótturbæ.[14] Í manntalinu 1880 er hún í Guðbrandarbæ, 42 ára húskona, og „lifir á handafla“. Það vekur athygli að hún er þar merkt ekkja (E), sem ekki stenst en er virðulegri staða en að vera ógift vinnukona.[15]
 
Helstu menningarfrömuðir í Stykkishólmi á þessum tíma voru þeir feðgar Árni og Ólafur Thorlacíus, ásamt konu hans Önnu, en Ólafur var mjög jafnaldra Júlíönu, fæddur 1837. Var Júlíana í góðu sambandi við þau, og er talið að Árni hafi styrkt útgáfu ljóðabókarinnar Stúlku sem hún annars gaf út á eigin kostnað og var prentuð á Akureyri 1876. Skömmu síðar samdi hún leikritið Víg Kjartans Ólafssonar, með undirtitlinum „Sorgarleikur í einum þætti“, fyrsta leikrit sem sett hefur verið á svið eftir íslenska konu, en það var í Stykkishólmi veturinn 1878­-79, og lék Júlíana sjálf aðalhlutverkið, Guðrúnu Ósvífursdóttur.
 
Í grein um leiklistarstarfsemi í Stykkishólmi á síðari hluta 19. aldar víkur Jóhann Rafnsson að þeim Júlíönu og Ólafi Thorlacíus og ritar:
 
Ólafur Thorlacíus var einn aðaldrifkrafturinn í leikstarfsemi hér um áratugaskeið, ásamt konu sinni. Árið 1877 stendur hann á fertugu. Án efa hefur hann þá verið farinn að sinna þessum áhugamálum sínum, og það fyrir alllöngu. Hann samdi leikþætti og þýddi, eftir þörfum, og var sjálfur leikari.
Á þessum árum var hér búsettur góður liðsmaður, skáldið Júlíana Jónsdóttir, sem kenndi sig við Akureyjar í Gilsfirði. Hún samdi leikþætti og lék sjálf, meðal annars Guðrúnu Ósvífursdóttur í einum leikþátta sinna.[16]
 
Hér gerir Jóhann Rafnsson ráð fyrir að hún hafi samið fleiri leikþætti, en ekki hafa fundist heimildir fyrir því. Í annarri grein um svipað efni segir Stefán Jónsson frá sýningu á „Útilegumönnunum“ eftir Matthías Jochumsson í Stykkishólmi veturinn 1880­-1881: „Ólafur Thorlacíus lék Lárensíus sýslumann. Grasa­Guddu lék kona, sem Júlíana hét og var kölluð Júlíana skáldkona. Var hún gáfuð og vel hagorð.“[17] Þá segir hann að gamalt fólk minnist með gleði á „kómedíuspilin“, eins og leikritin munu þá oftast hafa verið nefnd, og meðal þeirra leikrita, „er leikin voru þessi árin voru Víg Kjartans og Vopnahléið, en mest var þó leikið af Holbergsstykkjunum.“
 
V
Leikrit Júlíönu, Víg Kjartans Ólafssonar, er ekki einungis það fyrsta sem sett er á svið eftir íslenska konu, heldur einnig fyrsta skáldritið sem sækir efni í Íslendingasögu.[18] Leikritið var til skamms tíma aðeins til í einu handriti á Landsbókasafni Íslands, í uppskrift Ólafs Thorlacíus, merkt Lbs 1784 4to, talið skrifað um aldamótin 1900.[19] Réttri öld síðar var það gefið út með ýtarlegum inngangi um upphaf leikritunar íslenskra kvenna.[20] Handritið er í hefti með sex leikritum eftir Ólaf Thorlacíus, og er leikrit Júlíönu sett fremst með svohljóðandi fyrirsögn: „Víg Kjartans Ólafssonar. Sorgarleikr í 1 þætti samantekinn af Júlíönu Jónsdóttir skáldkonu. Viðburður úr Laxdæla sögu.“[21] Er orðið „skáldkona“ með smærra letri og hefur því verið bætt við á spássíu síðar.

Það er ekki tilviljun að fyrsta leikgerð Íslendingasögu sækir sér efni í Laxdæla sögu. Sagan gerist við Breiðafjörð og í henni er kona aðalpersóna. Þótt leikritið beri nafn Kjartans Ólafssonar fjallar það fyrst og fremst um Guðrúnu Ósvífursdóttur, einu kvenpersónu verksins. Þetta er stuttur einþáttungur, sorgarleikur, í 15 atriðum, og fer hann fram á Laugum í Sælingsdal á einum degi í apríl 1002. Bygging leikritsins miðast við Guðrúnu og fer í hring, það endar eins og það byrjar, á sömu sviðsmynd með Guðrúnu einni. Er þetta önnur bygging en sjá má í leikritum Ólafs Thorlacíus sem er línurétt, þræðir atburðarásina frá upphafi til enda. Í leikriti Júlíönu er Guðrún látin vera mjög meðvituð um kynferði sitt sem kona og gengur hvað það varðar lengra en sagan sem það byggir á. Heimurinn sem Guðrún lifir í er líka algjör karlaheimur. Hún er eina systirin í hópi fimm bræðra, og eina konan í leikritinu á móti ellefu körlum. Sökum þess að hún er kona, eins og hún hugleiðir sjálf, sæmir henni ekki að bera vopn. Hún tekur því til tungumálsins og þess valds sem í því býr. Í einræðum sem sýna hennar innra líf, hugsanir og tilfinningar, hleður hún sig upp fyrir hvötina, dramað sjálft, þar sem hún brýnir bræður sína og Bolla við karlmennsku þeirra til að drepa Kjartan. Hvötin er upphátt tal, oft beint upp úr texta sögunnar, og andstæða einræðnanna sem einkennast af flæði, óskipulegum setningum, upphrópunum, andvörpum, hikum, þögnum og þankastrikum sem sýnd eru með punktalínum í handritinu.
 
Í leikritinu eru skörp skil milli kvennaheims og karlaheims, og því er Guðrún ekki viðstödd hápunkt þess, vígið sjálft. En það er samt hún sem veldur því og tekst þar með að ná Kjartani til sín. Að vísu aðeins sem náfölum og alblóðugum draug, andstæðu þeirrar glæstu hetju sem hún sá fyrir sér í einræðunum. Þessi hvörf í leikritinu eiga sér enga fyrirmynd í sögunni og eru hugarsmíð Júlíönu sem bregður að öðru leyti ekki út af atburðarásinni. Í leikritinu hittast elskendurnir aldrei í lifandi lífi og það er ekki fyrr en Kjartan er dauður að hann birtist Guðrúnu sem svipur með „opið hjartasár“ og játar henni ást sína. Hún sér að allt er á misskilningi byggt og harmar hennar verða meiri en áður. Hún iðrast sinna köldu ráða og bíður mannanna dóma. Þannig er leikritið á vissan hátt apólógía, varnarrit, fyrir Guðrúnu sem átti sök á vígi einnar dáðustu karlhetju Íslendingasagna.
 
VI
Titillinn Stúlka á ljóðabók Júlíönu er mjög sérstakur og er bókin sú fyrsta í langri röð ljóðabóka sem heitir eitthvað annað en Ljóðmæli eða Kvæði. Með Stúlku er Júlíana augljóslega að vísa til nafnsins Piltur og stúlka á skáldsögu Jóns Thoroddsen sem kom fyrst út í Kaupmannahöfn 1850 og í annarri útgáfu 1867. Sagan var mjög vinsæl og mikið lesin, ekki síst við Breiðafjörð þaðan sem höfundur var ættaður, fæddur á Reykhólum 1818 og sýslumaður Barðstrendinga 1854­1862. Þá var það almælt að séra Friðrik Eggerz, húsbóndi Júlíönu í Akureyjum, hafi verið fyrirmyndin að séra Sigvalda í skáldsögu Jóns, Manni og konu, sem kom út að höfundi látnum árið 1876, sama ár og ljóðabók Júlíönu.[22]
 
Stúlka Júlíönu þarf ekki á pilti að halda, hún er án pilts, er sjálfstæð, stendur ein. Það er ákveðið kvennasjónarhorn í þessu, jafnvel uppreisn, vinnukonan gegn sýslumanninum. Þá má einnig líta á Stúlku sem svar við kvenkenndum nöfnum, eins og Snót á vinsælu ljóðasafni þeirra Jóns Thoroddsen og Gísla Magnússonar frá árinu 1850, en það birtist í annarri og aukinni útgáfu 1865.[23] Orðið „snót“ er skáldlegt heiti fyrir konu, tekið úr Skáldskaparmálum Snorra-Eddu, þar sem segir að „snótir“ heiti þær „er orðnæfrar eru“, þ.e. djarfmæltar, málsnjallar.[24] Þá má hér einnig nefna kvennaheitin Svava á ljóðasafni þeirra Benedikts Gröndal, Steingríms Thorsteinsson og Gísla Brynjúlfssonar frá 1860, og Svanhvít á ljóðaþýðingum Matthíasar Jochumssonar og Steingríms Thorsteinsson frá 1877, að ógleymdri Eddu sjálfri sem merkir formóðir, eða langamma. Með titlinum „Stúlka“ teflir Júlíana hversdagsleikanum, konunni sjálfri, gegn skáldlegri upphafningu karlanna, og minnir á að konur séu bara venjulegar konur, og meira að segja vinnukonur en ekki skáldlegar myndir eða snótir. Orðið „stúlka“ var algengt orð um vinnukonur, auk þess sem það var notað um ógiftar konur í sömu merkingu og ungfrú eða fröken, og það jafnvel sem titill, eins og meðal annars má sjá á umslögum utan um bréf.[25] Þessi tegund af íróníu, eða umsnúningi, þar sem Júlíana eins og kankast á við karlahefðina einkennir mörg ljóðin í Stúlku.
 
Ein frægasta stúlkan í íslenskum skáldskap er þó sú í sonnettu Jónasar Hallgrímssonar, „Ég bið að heilsa“, sem skáldið í fjarlægðinni biður fljúgandi fuglinn að skila kveðju til:
 
         Heilsaðu einkum, ef að fyrir ber
engil með húfu og rauðan skúf, í peysu;
þröstur minn góður, það er stúlkan mín.[26]
 
Og hver vill ekki vera stúlkan í kvæðinu hans Jónasar, uppáklædd í íslenskum búningi? Með Stúlku Júlíönu er engu líkara en hún gefi sig fram og svari kveðjunni.
Sem einkunnarorð bókarinnar hefur Júlíana sett stutt kvæði nafnlaust sem sýnir áhugaverð tengsl við persónugervingu bókarinnar sem stúlku:
 
         Lítil mær heilsar
löndum sínum,
ung og ófróð,
en ekki feimin;
leitar gestrisni
góðra manna
föðurlaust barn
frá fátækri móður.
 
Þetta erindi má lesa á marga vegu. Það getur einfaldlega verið sjálfsævisöguleg lýsing, en Júlíana var barn einstæðrar og fátækrar móður. Mærin getur einnig verið táknmynd skáldkonu sem er munaðarlaus í karllegri hefð og aðeins með fátæka kvennahefð að baki. Hún getur einnig verið dóttirin sem skáldkonan fæðir og sendir frá sér, eða stúlkan í sonnettu Jónasar. En fyrst og fremst er hún persónugerving bókarinnar sjálfrar, bókin er kona, stúlka, sem kveður sér hljóðs, talar, yrkir, og biður auðmjúklega um góðar móttökur á stað þar sem hún á ekki heima.
 
Þessi einkunnarorð Stúlku sýna að Júlíana hefur ekki litið á það sem vandalaust að gefa út bók og hún óttast að henni verði hafnað. Það reyndist líka rétt. Útkoma Stúlku var algjörlega sniðgengin. Atburðarins var hvergi getið í blöðum og um bókina birtist enginn ritdómur.
 
VII
Þremur árum á eftir Stúlku Júlíönu Jónsdóttur kom út önnur fyrsta ljóðabókin eftir íslenska konu, Nokkur ljóðmæli, eftir Guðbjörgu Árnadóttur (1825­-1911) á Ytrafelli á Fellsströnd.[27] Ásamt Guðrúnu Þórðardóttur (1817­-1896) frá Valshamri við Gilsfjörð, fyrstu íslensku konunnar sem sá eftir sig ljóð á prenti,[28] má segja að þær skapi hefð við Breiðafjörð, því að á eftir koma Herdís (1858­-1939) og Ólína (1858­-1935) Andrésdætur sem fæddar eru í Flatey á Breiðafirði og Theodora Thoroddsen (1863­-1954) frá Kvennabrekku í Dölum.
 
Ljóð Guðrúnar Þórðardóttur eru erfiljóð, viðurkennd skáldskapargrein fyrir konur, ekki síst ef þau eru lof um fræga menn. Það fyrsta, „Sigurður skáld Breiðfjörð“, birtist í Norðra 20. desember 1860, að honum löngu látnum. Það er ekki nafn við, en vísað til þess í neðanmálsgrein, undirritaðri af Jóni Borgfirðingi: „Ljóðmæli þessi eru orkt af konunni Guðrúnu Þórðardóttur, á Gróustöðum við Gilsfjörð, og hefi jeg leyft mér að setja þau í Norðra.“ Undir þetta ritar „J.Borgfirðingur“. Athyglisvert er að hann tekur sérstaklega fram kyn skáldsins, án þess þó að kalla hana skáldkonu, svo athyglisvert hefur honum þótt þetta. Jón Borgfirðingur hefur sennilega verið með fleiri ljóð eftir Guðrúnu undir höndum því aðeins nokkrum dögum síðar birtist erfiljóðið „Anna Einarsdóttir“ í Norðra 31. desember 1860, og þá undir fullu nafni, Guðrún Þórðardóttir. Í svigasetningu er vísað skýringarlaust í Þjóðólf, 12. ár, bls. 123 (sem er 25. júlí 1860). Í dálkinum um mannslát er þar sagt frá Önnu Einarsdóttur, sem lést 7. febrúar það ár, 26 ára að aldri, konu „merkismannsins Eggerts Jónssonar á Kleifum við Gilsfjörð“, og fjögurra barna móður. „Hún var (að vitni sóknarprestsins) kona vel að sér til munns og handa, og vel gáfuð, stjórnsöm búkona, háttprúð, guðhrædd og ástsæl.“ Trú hefðinni karlkennir Guðrún sig sem ljóðmælanda í þessu ljóði: „Stöndum vjer hljóðir og störum með harmi / stormviðri dauðans fjekk lífinu eytt.“ Um leið gefur hún ungu konunni rödd, þar sem hún í ljóði huggar eiginmann sinn með endurfundum þeirra á himnum: „Þegar að linnir líkamans kvölum / og leiðin er enduð, sem harminn þjer bjó; / jeg fagna þjer vinur í frelsarans sölum / á friðarins landi í heilagri ró.“ Á himnum er sú látna orðin að skáldi, eða öllu heldur fær hún að vera skáld, og það í góðum félagsskap: „Þú ljóðar og syngur nú sigurvers guði / á sælunnar landi um eilífa tíð; / hjá heilögum englum í hæsta fögnuði / hljómar þín röddin hjá útvöldum lýð.“
 
Þriðja erfiljóðið eftir Guðrúnu, „Jón Ormsson“ , birtist í Norðanfara 1. mars 1863, undirritað G. Þórðardóttir. Það hefur ekki þarfnast skýringar í sviga, en Jón Ormsson var tengdafaðir Önnu Einarsdóttur, bóndi á Kleifum í Gilsfirði og þekktur í sinni sveit, þar sem hann gegndi trúnaðarstörfum: „Tuttugu árin, tvö og fjögur betur, / trúlega gegndi sveitarstjórnar bezt, / enginn vitur ámælt honum getur, / eða fundið þar á nokkurn brest.“ Þótt þetta sé þriðja kvæðið sem birtist eftir Guðrúnu á prenti, og hún hafi þegar hlotið nokkra viðurkenningu, heldur hún áfram að karlkenna sig sem ljóðmælanda:: „Enn vjer stöndum eptir hugar hljóðir, / íturmennið frá oss horfið er.“
Á þessum tíma gengu kvæði milli manna í ljóðabréfum og öðrum handritum, og hafa mörg þeirra að geyma ljóð eftir konur. Ber þar hæst kvæðasafn sem ber nafnið „Kvennaljóðmæli“ með kvæðum eftir 18 skáldkonur frá 18. og 19. öld.[29] Þær Guðrún Þórðardóttir og Júlíana Jónsdóttir hafa því þekkt vel hvor til annarrar, fyrir utan nálægðina við Breiðafjörð. Hvorugar efast þær um að þær séu skáld. Í „Snældustólsrímu“ kallar Guðrún sjálfa sig „söngvanorn“ og snýr rímnahefðinni á hvolf með því að gera svo kvenlegt verkfæri sem snældustól að hetjunni í sínu kvæði.[30]
 
Athyglisvert er ljóðabréf sem Júlíana yrkir „Undir nafni G.E.d.“ með undir fyrirsögninni „til Guðr. Þórðard. (skáldkonu)“, og hefur skáldkonutitillinn í sviga. Eins og tíðkaðist víðar í ljóðabréfum leysir hún úr skammstöfuninni í lok bréfsins með góðum óskum, kveðjuorðum og undirritun sendanda: „Eyði meinum æ frá þér /auðnu hreinar gnóttir! / greipar steina grund svo tér, / Guðrún Einarsdóttir.“[31] Þannig yrkir Júlíana oft undir nafni annars. Hér er það kona sem yrkir fyrir konu til konu, sannkölluð kvennaljóð, um leyndarmál og hulda harma. Bréfið er undir rímnahætti, heil 11 erindi. Það er dýrt kveðið, undir hringhendum hætti, með kvenkenningum sem rímnaskáldinu hæfir. Skáldkonan er ekki bara „söngvanorn“ með augljósri vísun í „Snældustólsrímu“, heldur einnig „lindin seta orma“, „glóða hrannar þilja“, „gróttu korna lína“, „veiga hlíð“, „dokkin sifjar tára“, „fingra steina fold“ og „klæðalína“, sem með sínu ljóðasafni jafnast á við þjóðskáldin, sem þannig eru mælikvarðinn:
 
Hróður sannan lands af lýð
ljóða vannst með safni,
glóða hrannar þiljan þýð,
þjóðskáldanna jafni! [32]
 
Árið 1883 fluttist Guðrún Þórðardóttir, 66 ára, með bónda sínum og búaliði til Vesturheims.[33] Áður hafði hún gengið frá ljóðasafni sínu sem hún hafði fengið nágranna sinn til að skrifa fyrir sig, enda ekki skrifandi sjálf, eins og hún kvartar undan í mansöng í einni af rímum sínum: „illa læs og óskrifandi / á ég furðu bágt.“[34] Á titilsíðu stendur, eins og um
útgefna bók sé að ræða:
 
         Ljóðmæli eptir Guðrúnu Þórðardóttur Valshamri
Skrifað hefur Mguðlögsson
Árið 1879
 
Þetta safn gæti bent til þess að Guðrún hafi verið að hugsa um að gefa ljóð sín út á prenti, eins og þær Júlíana og Guðbjörg, en hætt við, ef til vill af fjárhagsástæðum. Hinar skáldkonurnar voru báðar ógiftar, unnu fyrir kaupi og gátu ráðstafað því sjálfar. Öðru máli gegndi um Guðrúnu sem var gift og því ófjárráða.
 
VIII
Þegar Júlíana ræðst í að gefa út Stúlku árið 1876 höfðu þegar komið út um þrjátíu ljóðabækur eftir karlskáld, sú fyrsta, Tullins kvæði eftir Jón Þorláksson á Bægisá árið 1774. Fyrir lok nítjándu aldar áttu síðan eftir að koma út fjórar ljóðabækur eftir konur, Nokkur ljóðmæli eftir Guðbjörgu Árnadóttur 1879, Ljóðmæli eftir Ágústínu Eyjúlfsdóttur, að henni látinni, 1883, Nokkur smákvæði eftir Ólöfu Sigurðardóttur frá Hlöðum 1888 og Draumur Guðrúnar Brandsdóttur eftir Margréti Sveinsdóttur, auk fimm sögulegra skáldsagna eftir Torfhildi Þorsteinsdóttur Hólm.
 
Þessi innrás kvenna á svið bókmenntanna virðist hafa komið ritdómurum og öðrum bókmenntasöguriturum í nokkurn bobba. Þeir sem ekki þegja um þær taka það ýmist til bragðs að fjalla um einn „fulltrúa“ úr hópi þeirra eða taka fleiri konur saman í hnapp, og fjalla um þær sem aukaatriði eða undantekningu. Fyrsti ritdómur um skáldrit eftir íslenska konu birtist í Skuld 6. mars 1882. Er hann um Nokkur ljóðmæli Guðbjargar Árnadóttur eftir Finn Jónsson, þá stúdent í Kaupmannahöfn, og hefst hann svo, á niðurstöðunni:
 
Um ljóðmæli Guðbj. Árnad. hef jeg ekki mikið að segja; þau eru meinlaus og gera hvorki til nje frá, og hefði því gjarnan mátt vera óprentuð.“[35]
 
Með þessum orðum vísar hann bókinni frá, sem og framtaki skáldkonunnar sem gaf hana út á eigin kostnað. Á sama ári kom út fyrsta skáldsaga Torfhildar Hólm, Brynjólfur Sveinsson biskup, með undirtitlinum Skáldsaga frá 17. öld. Er hún ekki aðeins fyrsta skáldsagan sem prentuð er eftir íslenska konu, heldur einnig fyrsta sögulega skáldsagan í íslenskum bókmenntum yfirleitt. Í ritdómi, undirrituðum J. J. (sem reynist vera Jónas Jónasson, síðar á Hrafnagili) í Þjóðólfi 24. júlí 1882, segir svo með yfirliti yfir það sem konur höfðu áður haft fram að færa og sem er ýmist ekkert eða þeim til lítils ágætis:
 
Það er heldur nýtt fyrir oss Íslendinga, að konur hér á landi gjörist rithöfundar; þær hafa jafnan haldið sér frá slíku, og er hér jafnvel drottnandi sú skoðun, að það sé konum ósæmilegt að fást við ritstörf, og heyri ei til þeirra verksviðs. Menn halda þær eigi að gera grauta, sauma spjarir og gera sitthvað annað innanbæjar og svo eigi annað. Vér eigum reyndar tvö dálítil ljóðasöfn eptir konur, en þau eru þeim til lítils ágætis, og hafa ekkert frumlegt eða fagurt í sér fólgið. Einkum er „Stúlka“ Júlíönu Jónsdóttur ekkert síður en kvenleg sums staðar, en „ljóðmæli“ Guðbjargar Árnadóttur eru svo sem ekki neitt.
 
Hvað hann á við með orðinu „kvenleg“ um bók Júlíönu er ekki gott að sjá, en jákvætt er það ekki. Eftir ýtarlega en afar neikvæða umfjöllun um brautryðjandaverk Torfhildar á sviði skáldsagnaritunar, þar sem hann meðal annars sakar hana um vanþekkingu, lýkur hann máli sínu og dregur saman í niðurstöðu:
 
Jæja, þó eg sé nú búinn að finna mikið að sögu þessari, og rífa margt niður í henni, sýnir hún þó að kvenfólkið á Íslandi getur líka verið með í bókmentunum, ef það reynir og hefir mentun til, en hún þarf að vera betri en þessar hafa haft til að bera, er reynt hafa.[36]
 
Árið 1891 kom út í Kaupmannahöfn Sýnisbók íslenskra bókmennta á 19. öld, eftir Boga Th. Melsteð.[37] Af 37 höfundum sem eiga efni í bókinni er ein kona, Torfhildur Hólm. Í inngangi gerir Bogi grein fyrir þessu: „Kvennfólk vort hefur eigi tekið mikinn þátt í bókmenntum vorum, sem varla er von, en af því nokkrar þeirra hafa látið ljóðmæli og skáldrit frá sjer fara, vildi jeg taka eitthvað eptir einhverja þeirra.“ Hann veltir fyrir sér Guðnýju Jónsdóttur frá Klömbrum sem hafi ort fagurt kvæði í Fjölni „sem vel hefði mátt taka“, en þar sem það sé það eina sem prentað hafi verið eftir hana, hann dregur í efa kvæðið í Norðurfara, telur hann ekki ástæðu til að gera „undantekningu“ (frá hverju?) með hana. „Frú Torfhildur Hólm“, segir hann, „hefur ritað kvenna mest, og er hún að því leyti sjálfkjörin til þess að mæta á bókmenntaþingi fyrir hönd kvennanna.“ Þótt skáldsaga Torfhildar beri frægt nafn Brynjólfs biskups fjallar hún meir um konurnar í lífi hans, einkum dótturina Ragnheiði og örlög hennar, enda tekst Boga ekki, að eigin sögn, að finna „stuttan kafla“ sem hann væri ánægður með.[38] Kaflinn sem hann þó finnur er tveggja blaðsíðna frásögn af messugjörð í Skálholti.[39]
 
Skömmu síðar, eða 1897, kom út í Leipzig bókmenntasagan Isländische Dichter der Neuzeit eftir austurríska fræðimanninn J.C. Poestion. Fjallar hann þar um 24 íslensk skáld og birtir eftir þau valin ljóð í þýskri þýðingu, og eru þetta allt karlar. Aftast í inngangi er yfirlit yfir bókmenntasögu kvenna sem hann útskýrir sem réttlætismál. Þetta segist hann leyfa sér þar sem hann viti ekki til að neitt hafi verið skrifað um þær áður. Hann hefur kynnt sér þetta vel því að hann nefnir þær flestar, meira að segja Guðrúnu Þórðardóttur, vegna lofkvæðis hennar um Sigurð Breiðfjörð. Að hans mati er ljóðabók Júlíönu Jónsdóttur aðeins áhugaverð fyrir þær sakir að hún sé fyrsta bókin sem kemur út eftir íslenska konu, en að öðru leyti beri ljóðin vitni um litla hæfileika skáldsins.[40]
 
IX
Júlíana Jónsdóttir elst upp á tímabili rómantísku stefnunnar í íslenskum bókmenntum. Helstu skáld þeirrar stefnu á 19. öld voru Jónas Hallgrímsson, Bjarni Thorarensen og Jón Thoroddsen, allt lærðir menn sem höfðu dvalist langdvölum í Kaupmannahöfn. Ljóðabækur þeirra Jónasar og Bjarna komu út árið 1847, en auk þess birtust ljóð þeirra og Jóns Thoroddsen í tímaritum og ljóðasafninu Snót. Júlíana er mjög upptekin af þessum skáldum og þeirri bókmenntahefð sem þeir tilheyra. Hún vitnar beint og óbeint til þeirra í ljóðum sínum og stundum er eins og hún sé að ræða við þá, kona andspænis karlahefð. Sú mikla áhersla á kynferði sem kemur fram í titlinum Stúlka og einkunnarorðum bókarinnar gengur sem rauður þráður um hana alla. Þetta er sérstaklega athyglisvert þar sem sjálfsímynd rómantísku skáldanna á Íslandi tengdist mjög þjóðerni. Þau voru fyrst og fremst íslenskir karlmenn að berjast fyrir menningu og sjálfstæði þjóðar sinnar. Sjálfsímynd Júlíönu tengist hins vegar því að hún er kona, fremur en Íslendingur, að leita sér að stað í jafnt samfélagi karla sem skáldlegri hefð þeirra. Í ljóðum hennar birtist þetta gjarnan í erfiðum ferðalögum, áfangastöðum sem ekki nást, eða jafnvel kyrrsetningu.
 
Fyrsta kvæðið og eitt það metnaðarfyllsta í Stúlku er „Ólguhafið“ sem kallast á við „Formannsvísur“ Jónasar Hallgrímssonar. Eins og þuluskáldin, skáldkonurnar, gera síðar tekur Júlíana línur í ljóði hans og gerir að viðkvæði í ljóði sínu, ögrandi spurningu, sem hún lætur reyndar ósvarað: „Hafaldan háa, / hvað viltu mér?“ Bæði lýsa ljóðin siglingu á sjó. Hjá Jónasi gengur ferðin vel og eftir góða veiði stýrir skipstjórinn í land. Kona hans fylgist með af ströndinni og tekur á móti honum. Skipstjórinn er ljóðmælandi og er um borð í skipinu. Hjá Júlíönu er ljóðmælandi utan þess sem gerist í ljóðinu, og er augljóslega kona. Hún er áhorfandi að siglingunni, eins og konan á ströndinni í ljóði Jónasar, og hún er hrædd: „Þegar sé ég sjófaranda, / sýnist mér í hættu standa / lífið hans og vera í vanda.“[41] Smám saman hverfist ljóðið í allegoríu, eða dæmisögu, og sjóferðin í tákn ævinnar. Þar er ljóðmælandinn, konan, kominn um borð.
 
Sjórinn hjá Júlíönu er mikill og ólgandi, en skipið veikt, og ljóðmælandi ræður vart við að stýra því, enda „karlmennsku með smáa“. Það er þess vegna sem skipið rekst stjórnlaust um í ólguhafinu, samfélaginu, og ljóðmælandi/konan kemst aldrei að jarðnesku landi eins og sjófarandinn í kvæði Jónasar, en stefnir í himininn, dauðann, þann eina stað sem er vís.
 
Fleiri ljóð í Stúlku kallast á við Jónas. Má þar nefna „Sláttuvísur“ sem gætu verið kvenlegt tilbrigði við „Sláttuvísu“ Jónasar. Í vísu hans eru það karl sem slær: „Fellur vel á velli / verkið karli sterkum“, og kona sem á eftir honum rakar, „höndin ljósrar drósar“, og það er eitthvað spennandi á milli þeirra. Ljárinn glymur og það er gaman! Um leið er slættinum lýst sem aftöku, karlmannlegu verki:
 
Arfi lýtur orfi,
allar rósir falla,
stutta lífið styttir
sterkur karl í verki.
 
Í „Sláttuvísum“ Júlíönu er sláttumaðurinn kona og hún er ein. Hún er jafnframt ljóðmælandi og ljóðið lýsir innri reynslu, er hugsun:
 
Hugsandi ég horfi á
hvað ég er að vinna,
saklaus hegg ég sundur strá;
síst er vægð að finna.
 
Ó, hvað nauðug læt ég ljá
lífi þeirra granda;
varnarlaus ei flúið fá,
falla þar sem standa.
 
Verkið vinnur hún nauðug og það er ekki gaman. Hún samsamar sig stráunum sem hún þó í hlutverki sláttumanns verður að fella. Þau geta „ekkert flúið“, og hún hugsar, með vísun í „Dauðans óvissa tíma“, um annan og voldugri sláttumann: „hvenær dauðinn kuldastrá / komi mitt að sækja.[42]
 
Eins og fleiri ljóð Júlíönu einkennast „Sláttuvísur“ af myndmáli smæðarinnar, samsömun við það sem er lítið og varnarlaust, oftast tengt myndum úr nálægri og áþreifanlegri náttúru, eins og grösum, blómum. Þetta kemur vel fram í stökunni „Haustið“ þar sem kvengerð liljan verður að hníga fyrir ofureflinu:
 
         Styttast dagar, dimmar skruggur ganga,
dalaliljan fagurt missir skraut;
höfuð beygir, hæglát fölan vanga
hallast lætur kalt í móðurskaut.[43]
 
Júlíana yrkir mikið um konur og til kvenna. Í þeim ljóðum er ljóðmælandi kvenkyns, oft ófrjáls og innilokuð, og alltaf ein. Í vinnukvæðinu „Við dúnhreinsun“, lýsir hún sér beinlínis sem fangelsaðri:
 
Dimmt er í dýflissu
dúns og svælu;
sit ég einmana,
súrnar í augum;
ramur reykur
rauna minna
þrýstir að brjósti
en þreytist öndin.
 
Undir raula
rámir strengir
harmatölur
hljóðlauss muna. [...]
         [44]
 
Ljóðið er tregróf, „harmatölur“ sem spretta úr þögn, en einnig „rámir strengir“, ekki nógu gott, og hún segir það engum. Eina athvarfið sem hún á er drottinn, og hann ákallar hún í lokin, eftir sem áður innilokuð í svælunni.
 
Þannig fjalla mörg ljóð Júlíönu um hulinn harm, um það að segja ekki frá, en gera það samt. Þannig verða þau ljóð um ljóð. Gott dæmi er stakan „Ólund“:
 
         Hugarþrenging hjartað ber;
harmar löngum beygja;
en hvað gengur móti mér
mun ég öngum segja.
 
Með þessu gerir hún sig jafnframt spennandi, mann langar að vita leyndarmálið. Um leið er eins og hún hún geri lítið úr því, þetta sé bara ólund. Þannig er stakan á vissan hátt um það að mega ekki kvarta og ekki heldur yrkja.
 
X
Í ljóðum Júlíönu skiptast á tregróf og skop, og kemur skopið best fram í notkun hennar á grótesku myndmáli, líkamsmyndmáli. Með því tekst henni oft að afbyggja karlmennskuhugmyndir samfélagsins og karlmannlega orðræðu, gera grín að þessu. Þannig eru nokkur kvæða hennar útúrsnúningur á hefðbundnum ástarkvæðum. Þau yrkir hún gjarnan í orðastað gamalla og hrumra karla sem eltast við ungar stúlkur og lofa þeim öllu fögru í krafti samfélagslegra yfirburða. Allt kemur fyrir ekki, og stúlkurnar hryggbrjóta þá og hlæja að þeim. Í „Langloka“, sem ort er „undir nafni karls til stúlku“, býður hann henni lokrekkju og hest.[45] Í bónorðsbréfinu „Gamli biðillinn“ ákallar hann væntanlega unnustu: „Ó, göfga gullhlaða dís“, þótt sjálfur sé hann „sem fauskur fúinn“.[46] Í „Hryggbrotið“ skelfur biðillinn sem „fúin birkibrengla“, og er hafnað. „Hún sem ég feginn vildi lokka, / engan mér sýndi ástarþokka“. „Svifu þá hret um skorpnar kinnar,“ og hann hótar henni öllu illu.[47] Í „Harmagrátur biðils“ tekst Júlíana á við „Söknuð“ Jónasar Hallgrímssonar, „Man ég þig mey“, ekki alveg vel heppnað, þótt vísunin sé nokkuð ljós:
 
         Nú er úr hjartanu horfin öll kæti,
harmanna ískaldur gustur mig slær;
Ei gat ég hlotið það heims eftirlæti
hjá þér að búa, sem varst mér svo kær.
En því ég heiti, að muna þig, meyja!
Mynd þína geymi ég brjóstinu í, s
ár þó að gjöri mig söknuður beygja
og sortni í augunum raunanna ský.[48]
 
Í „Spaugvísur við stúlku“ er hún „hrundin gulls með hárið fagurgyllta“, og til hennar hugsa og á hana mæna margir piltar. Síðan segir hvernig hún eigi að bregðast við þessu áreiti, er gefið ráð:
 
         En hrundin gulls með hárið fagurgyllta!
Þú hugsar ekki neitt um þessa pilta;
þú brýtur í þeim bakið,
og biður þá lifa vel,
og aumingjarnir æja
með angrað hugarþel.[49]
 
Þarna hefur hún valdið, hún getur hafnað, hryggbrotið, hlegið.
 
Í gamankvæðunum er mikið um samskipti kynjanna, þar sem karlar fara ýmist halloka eða eru kveðnir í kútinn, og fylgja útskýringar þeim sumum. Þannig hefur „Piltaskrækur“ undirfyrirsögnina „Piltar voru að stríða stúlkum með ‘Píkuskræk’ eftir J.Þ.s.“ Guðrún P. Helgadóttir les rétt úr skammstöfuninni, Jón Þórðarson, en kannast ekki við skáldið og telur að hér sé um misskilning að ræða, Júlíana eigi við kvæði eftir Eggert Ólafsson.[50] Það er hins vegar ekki rétt. Kvæðið sem Júlíana vísar til er eftir Jón Þórðarson frá Einfætingsgili (1818-­1868), bróður skáldkonunnar Guðrúnar Þórðardóttur, þekkt skáld í sinni sveit. Hann hafði eins og systirin fengið birt eftir sig kvæði í blaði, og það á undan henni, það fyrsta „Fjallmeyjan“, um bæjarfellið heima, í Þjóðólfi 5. nóvember 1852.[51] Eins og systirin lét hann eftir sig ljóðasafn, tilbúið til prentunar, sem þó ekki varð af.[52] Í því er bæði að finna ljóðabréfin „Til Guðrúnar Þórðardóttir, skáldsystir J.Þ.“ og „Til Júlíönu Jónsdóttir skáldmeyjar 1865“, heil 27 erindi undir rímnahætti. Hún er þar ávörpuð „kæra hróðrar mey“. Í 25. erindi biður hann hana að brenna bréfið: „Hugsast varla hróður minn. / Hann er allur þarna. / Skjótt lát, snjalla skáldmærin! / skjalið falla á bálofninn.“ Þeim virðist því hafa verið vel til vina, og jafnvel kveðist á, eins og „Piltaskrækur“ bendir til, en frumkvæðið sem Júlíana vísar til er hvergi að finna í handrituðu ljóðasafni hans, ekki metið þar birtingarhæft. „Piltaskrækur“ er fimm erindi sem öll hefjast á eymdarópi piltanna, það fyrsta:
 
         Æ, æ, æ!
Vantar nú vín í bæ.
Helst þar til þá hressing fæ,
hrópa ég aumt og segi æ.
Æ, æ, æ!
vantar nú vín í bæ! [53]
 
Vísurnar eru til söngs og hátturinn sá sami og á drykkju-­ og stúdentavísunni, „A, a, a, valete studia“, sem m.a. birtist í Íslensku stúdentasöngbókinni 1819 og hefur verið þekkt við Breiðafjörð. Vísur Júlíönu eru því skopstæling á skopstælingu karlskáldsins sem hefur snúið stúdentavísunni upp á konur. Í vísum Júlíönu eru karlarnir svo fullir að þeir „ramba, slaga og rekast á,“ þar til þeir detta í hlandfor, ata sig út, geta ekki staðið upp, og kalla á konur sér til hjálpar.
 
Eins og fleiri skáldkonur síðar yrkir Júlíana um sig látna, og það í fleiri en einu kvæði sem eru eins og kveðin úr gröf. Í „Erfiljóð kveðin í kuldatíð“ gengur hún um kirkjugarð þar sem heimilisfólkið á Kollsá er grafið. Allir dóu úr kulda og fær hver sitt erindi sem letrað er á legstein þeirra. Áletranirnar eru gróteskar, þær eru skop. Einn er sagður hafa misst tærnar, annar dáið úr niðurgangi, og þar kemur að hún gengur að eigin gröf:
 
Hér liggur jómfrú Júlíana,
jörðuð und háum bautastein.
Sé ég að fáir syrgja hana,
samt munu hennar rotna bein.
Myrkfælin, köld og matheil var,
myndaði vísur leirburðar.[54}
 
Hún er hér í mörgum hlutverkum: dáin, liggjandi lárétt í jörðu, sú sem gengur upprétt um garðinn og les áletranirnar, og skáldið sem yrkir þær. Á steininum er hún jómfrú og hún er skáld, en skáldskapur hennar er leirburður. Það eru þau eftirmæli sem hún gefur sjálfri sér, eins og frá sjónarhorni hefðarinnar, þjóðskáldanna. Þá er stakan „Vofan“ einnig kveðin úr gröf:
 
Ljúktu upp fyrir linda spöng,
löngu sem er orðin köld;
Hingað fundið hef ég göng,
hittir þú mig seint í kvöld.[55]
 
Þetta er hefndarfantasía, óhugnaður, þjóðsagnaminni, konan sem gengur aftur og hefnir sín. „Linda spöngin“, skáldlegt heiti fyrir stúlku, er dauð og talar úr gröf. Hún er ógnandi og viðmælandinn er bráð. Hún hefur sjálf fundið leið, og hann er varnarlaus. Stakan kallast skemmtilega á við meyna litlu, í upphafserindi bókarinnar, sem biður um gestrisni góðra manna, að lokið verði upp fyrir sér. Hvað mun gerast er ekki sagt, en það er óhjákvæmilegt, yfirvofandi.
 
XI
Samanborið við íslensk karlskáld rómantíkurinnar sem bjuggu í útlöndum og þráðu að komast heim þráir Júlíana að komast burt, og samanborið við þau orti hún sama og engin ættjarðarkvæði. Í Stúlku eru aðeins tvö, óhefðbundin bæði, þar sem hún beinlínis mótmælir hefðinni.
 
Í „Ísland“ skopstælir hún „Íslands minni“ eftir Bjarna Thorarensen, en það var lengi þjóðsöngur Íslendinga. Kvæði Bjarna er óður til fjallkonunnar frá sonum hennar í Danmörku. Það hefst á ákalli:
 
Eldgamla Ísafold,
ástkæra fósturmold,
fjallkonan fríð.
 
Þessari lýsingu á landinu mótmælir Júlíana í upphafi síns kvæðis og ávítar landið sem er fráhrindandi og kalt:
 
Eldgamla Ísafold,
ófrjósöm er þín mold,
blásin og ber.[56]
 
Þar „næðir af norðanvind, / nágola um snjóvgan tind,“ og ástin á landinu er blind. Ljóðmælandi Bjarna talar í fyrstu persónu og er vandlega staðsettur erlendis. Ljóðmælandi Júlíönu er hins vegar á engum sérstökum stað og talar í þriðju persónu. Júlíana nær ekki að vinna úr skopstælingunni. Það er eins og hún kunni ekki við þetta, og kvæðið endar sem lofsöngur til lands og sona, tvíræður þó.
 
„Kveðja til Íslands“ er þjóðhátíðarkvæði, ort 1874, og hefst með því að Júlíana er að fara burt: „Far vel, gamla feðra grund, / fer ég nú af skauti þínu.“ Ljóðmælandi er á leið til Vesturheims, og hún er ein, „studd með vinar engum armi, / ísköldum af þínum barmi.“[57] Skipið bíður fagurbúið og hún sér sig í anda ganga um borð. Eins og hefðin býður er landið persónugert sem móðir, en hún er köld, og hún er í ánauð, og það er þess vegna sem dóttirin verður „að flýja“, takast á við erfitt ferðalag. Það síðasta sem hún sér af landinu er móðirin sem veifar „mjallahvítu trafi“ og sendir henni svalan anda í kveðjuskyni.
 
Júlíana komst ekki með þessu skipi og varð að bíða lengi eftir fari. „Þreyi ég enn á ættarjörð, / eg sem þó gjarnan vildi flýja,“ segir hún um þetta í ljóðinu „Ég sit kyrr“.[58] Þar er hún að því komin að gefast upp. Þá er móðirin, landið, eina hæli hennar, og hún óskar sér dauða: „Verm þú mig stundum við þinn barm, / og vef mig síðast skikkjulafi.“ Þannig sér hún sjálfa sig í gröfinni, umvafða faldi móðurinnar. Það grætur hana enginn, og „verð ég þá gleymd – og búin saga.“
 
XII
En sagan var ekki búin. Júlíana komst til Vesturheims, og það alfarin. En það var ekki fyrr en löngu síðar og eftir nokkurra ára dvöl í Reykjavík, þá orðin 49 ára. Til Reykjavíkur er hún komin frá Stykkishólmi árið 1884. Samkvæmt skýrslu niðurjöfnunarnefndar bæjargjalda í Reykjavík fyrir það ár býr hún við Hlíðarhúsastíg og borgar tvær krónur í útsvar.[59] Síðar sama ár kemur hún upp í „Sóknarmannatali í Reykjavíkursókn“ við húsvitjun í desember 1884, og er þá til heimilis á nýreistum „Spítalanum“, vinnukona 46 ára.[60] Svo til engar heimildir eru til um dvöl Júlíönu í Reykjavík, og ekkert ljóða hennar bera þess merki að hún hafi verið þar. Nýlega kom í leitirnar bréf sem hún skrifaði Schierbeck landlækni, dagsett í Reykjavík, 11. janúar 1886, en skrifað á spítalanum. Í bréfinu biður hún hann um aðstoð við að fá greidd laun fyrir vinnu „hjer í hinu nýja sjúkrahúsi“ þar sem hún hefur annast sjúklinga í hátt á annað ár, en ekki fengið laun í heila níu mánuði. Fyrir veturinn á undan hafi hún fengið 40 krónur. Bréfið er vel og formlega skrifað. Segist hún hafa verið ráðin af dr. Jónassen og fyrir hans tilmæli til að vera „aðstoðarkona sjúklinga“ og stundi nú þrjá til fimm sjúklinga á hverjum degi, auk þjónustu við læknaskólann. Sjálf hafi hún lagt sér til rúm, rúmfatnað, skó og allan klæðnað. „Þetta útheimtir allt peninga,“ skrifar hún, „en hvaðan koma þeir peningar, ef engin fást launin?“[61]
 
Greiðslan sem Júlíana segist hafa fengið fyrir veturinn á undan, 40 krónur, er afar lág, langt undir ómagastyrk. En þess ber þó að gæta að í spítalanum fékk hún ókeypis húsnæði, sennilega í einni af kytrunum undir þaki. Ekki er vitað hvernig landlæknir afgreiddi bréfið, en einhvern veginn tókst Júlíönu að afla sér peninga fyrir fargjaldi vestur, sem á þessum tíma var um 200 krónur.
 
Samkvæmt Vesturfaraskrá fer hún árið 1887 með gufuskipinu Camoens frá Reykjavík til Winnipeg í Kanada.[62] Þaðan virðist hún fara til hálfbróður síns Jóns í Eyford, Dakóta og dvelja þar í nokkur ár. Til þess bendir greiðsla fyrir áskrift sem hún sendir blaðinu Lögbergi frá Eyford, Dakóta, árið 1891.[63] Næst kemur hún upp í manntali (census) fyrir Seattle 1893, og hefur þá breytt nafni sínu: Julia Johnson, leigjandi við 55 Harrison Street, starf hjúkrunarkona, hjúskaparstaða W (Widow), 55 ára, hvít, læs og skrifandi, talar ensku.[64] Af þessu manntali hverfur hún 1903, og finnst ekki á skrá eftir það. Vitað er að hún byggði sér bjálkakofa í Íslendinganýlendu þar sem heitir Manchester, við Interbay, nálægt Seattle, og nefndi hann Skálavík. Í grein sinni um Júlíönu í Nýju kvennablaði 1946 segir Magnús Gíslason að við Kyrrahafsströnd hafi hún lent í örbirgð og veikindum, verið flutt á fátækrahæli um tíma og hafi þá „verið eyðilagt flest er hún átti í handritum eftir sig, brennt eða kastað út.“[65] Því miður getur hann ekki heimilda. Síðasta ár ævinnar bjó Júlíana á heimili íslenskra hjóna, Önnu og Árna Magnússonar í landamærabænum Blaine, og þar lést hún 12. júní 1917, 79 ára að aldri.[66]
 
XIII
Árið 1916 kom út í Winnipeg önnur ljóðabók Júlíönu, Hagalagðar, fjörutíu árum á eftir Stúlku, og kostaði hún útgáfuna sjálf, fyrsta skáldrit sem kemur út eftir íslenska konu vestanhafs. Bókina kennir hún við hagalagða, verðlitla ull, tíning sem reytist af kindum á víðavangi og börn tína. Þennan afsökunartón er ekki að finna í Stúlku sem í upphafserindi krafðist inngöngu í bókmenntahefðina. Hagalagða sendir Júlíana frá sér með hálfum huga, eins og fram kemur í stöku, sem hún hefur sett aftast í bókina:
 
         Lýk ég verki, læt hér duga
ljóðatíning þennan minn,
sendi nú með hálfum huga
Hagalagða á markaðinn.[67]
 
Um bókina birtust tveir ritdómar, í Lögbergi, 31. ágúst 1916, og Heimskringlu, 7. september 1916. Þeir eru jákvæðir en fullir vorkunnsemi með gömlu, fátæku konunni vestur á Kyrrahafsströnd. Eru ljóð hennar alþýðleg, heilbrigð og holl, og eru lesendur beðnir að kaupa bókina. Um það er vísað til þjóðerniskenndar þeirra og góðmennsku.
Í Hagalögðum er ekki að finna þann frumleika sem oft einkennir Stúlku. Kvæðin eru flest tækifærisljóð og hefðbundin að formi. Þau lýsa einsemd og vonbrigðum og gefa skýra mynd af þeim örlögum sem skáldkonan mætti í Vesturheimi. Þau eru öll sjálfsævisöguleg þar sem Júlíana telur niður ævi sína í hverju afmælisljóðinu á fætur öðru. „Sjötíu og sjö hef ég árin / siglt yfir tímanna dröfn,“ segir hún í ljóðinu „27 mars 1915“.[68] Lífið er sigling eins og í „Ólguhafinu“ áður, en hún er hætt að reyna að stjórna. Nú er það „hann“ sem það gerir og „stefnir mér bráðum í höfn“. Þá yrkir hún enn til vinkvenna sinna eins og áður, en einkum þó til ljóðadísarinnar, sem hjálpar henni „að hlæja, / þá hjarta í leyni grét,“ eins og segir í „Litla ljóðadísin mín“, og lýsir ótta um að verða yfirgefin, geta ekki lengur ort:
 
Ó, ertu farin frá mér,
mín forna ljóðadís
þó undi ég alltaf hjá þér
nær örlaga sló mig hrís;
þú hjálpaðir mér að hlæja,
þá hjarta í leyni grét
og sorgum burt að bægja,
þitt bros mig huggast lét.[69]
 
Ljóðadísin er vinkona hennar og trúnaðarvinur, þar sem ljóðadís karlskáldanna er unnusta þeirra. Hún er lítil, eins og mærin litla í upphafserindi Stúlku fjörutíu árum fyrr, og skáldið því lítið eftir því.
 
Af ljóðunum í Hagalögðum má ráða að Júlíana hafi oft verið fengin til að flytja ljóð á samkomum Íslendinga, þótt henni finnist hún varla vera til þess hæf. Um það yrkir hún „Á ræðupalli“ þar sem hún spyr sjálfa sig hvernig hún eigi að koma fyrir, og svarar sér sjálf:
 
Mér kennið ráð,
þess krefur þörf,
er kem ég fyrir heiminn;
á ég að vera upplitsdjörf?
eða á ég að sýnast feimin?
Sjálf ég hlýt að svara mér
frá sálar minnar djúpi:
eg kem til dyra eins og er
í engum dularhjúpi.[70]
 
Annað ber nafnið „Stutt athugasemd“, og er um hana að flytja kvæðið „Til Íslands“, á Íslendingafundi og er það birt á undan athugasemdinni:
 
Þegar á fundi þetta kvæði þylja hlaut ég,
athygli þá ýmsra naut ég.
 
Eg var feimin, illa klædd og aldurhnigin,
en þar var margur maður tiginn.
 
Einn þá leit ég augum háðskum að mér gjóta,
hélt eg mig hann mundi skjóta
 
Kærði eg mig kollótta og kvæðið þuldi,
harminn minn í hljóði duldi.[71]
 
Það eru til fáar myndir af Júlíönu, það hafa ekki fundist nema fimm, mismunandi góðar. Best er ljósmynd sem tekin var af henni þar sem hún situr við borð fyrir utan kofann sinn í Skálavík og er að skrifa. Þá mynd sendi hún útgefanda Hagalagða og þar er hún birt. Engin mynd var í Stúlku, enda mjög dýrt á þeim tíma að birta mynd í bók, en þótti prýða. Með myndinni í Hagalögðum fylgdi stakan, „Með mynd“. Er hún birt á öðrum stað bókinni með skýringunni „til Ó.S. Thorgeirssonar“:
 
Nú er orðin grett og grá
gamla Júlíana,
þreytuleg með þunga brá,
þarna sérðu hana.[72]
 
Aðra mynd hafði hún löngu áður og mun yngri sent vinkonu sinni, Kristínu Jónsdóttur, dóttur Ragnheiðar bústýru í Akureyjum, ekki er vitað hvaðan. Aftan á hana hefur hún með eigin hendi skrifað ljóð, sem hún síðar birti í Hagalögðum, undir heitinu „Þegar ég sá mynd af sjálfri mér“. Hún lýsir sjálfri sér á myndinni og leggur út af:
 
Alvarleg starir myndin mín,
minnir á hverfullt allt,
úr augum enginn varmi skín,
en ömurlegt, hart og kalt.
 
Og þessi fölva og bleika brún,
blásin er köldum storm,
kringum vangann er rauna rún,
rituð með gremjuform.[73]
 
Þannig skrifar hún líkama sinn í ljóð, andlitið er pappír sem ritað er á, raunarún. Þarna er hún tvær konur, sú á myndinni sem ort er um, og sú sem um hana yrkir, og þær horfast í augu. Um alla bókina andar sterkri heimþrá til Íslands, þangað sem hún átti ekki afturkvæmt, og er það öfugt við ljóðin í Stúlku sem lýsa þrá eftir að komast burt, útþráin hefur hverfst í heimþrá. Hún beinist þó ekki að þjóðinni og samfélaginu, heldur að landinu, náttúrunni, tungumálinu og vinunum. Í „Dauf jól“, með undirtitlinum, eða öllu heldur útskýringunni: „Ég lá veik“, liggur Júlíana veik í rúminu og talar við sál sína, sem hún persónugerir sem sitt annað sjálf. Hún frelsar hana úr „dimmum fangaklefa“ líkamans og biður hana að fljúga með kveðju til Íslands: „Reyndu á flugi frelsi þitt, / fljúgðu í arma vina þinna.“[74] Eftir það á sálin að fljúga til himna, en aðeins koma þar við, því að hún á að fljúga áfram til Íslands: „(en ekki hingað – þetta mundu),“ kemur í svigasetningu.
 
Hinn endanlegi áfangastaður er Ísland, þar vill hún frekar vera en á himnum. Svigasetningin er athyglisverð. Þetta er óopinber setning, leyndarmál milli hennar og sálarinnar, sem ekki má heyrast, segja upphátt, þar sem það kynni að skiljast sem vanþakklæti og höfnun á nýja landinu. Þannig kemst Júlíana heim í huganum, skáldskapnum, og einnig til vinanna sem eru fjarri, og eru þessar flugmyndir hugans eitt megineinkenni á ljóðum hennar, þær komast það sem hún kemst ekki sjálf.
 
Í „Erfiljóðum kveðnum í kuldatíð“ sem birtust í Stúlku 1876 rís minnisvarði yfir skáldið Júlíönu á leiði hennar í kirkjugarði á Íslandi. Þar liggur hún undir háum bautasteini. Í stökunni „Eitt orð til Íslands“ í Hagalögðum 1916 yrkir hún einnig um væntanlega gröf sína, en segir nú:
 
Fái skýli hrörlegt hold,
holds þá dvína stundir,
þrái ég hvílu minni mold,
moldum þínum undir.[75]
 
Henni varð ekki að þessari þrá og leiði hennar í kirkjugarðinum í Blaine var til skamms tíma ómerkt. Það fannst þó á skrám, þar sem nafn hennar er reyndar ekki Júlíana Jónsdóttir, heldur karlgert sem Julian Johnson.[76}
 
 
Eftirmáli
Vorið 1995 gerði ég mér ferð á slóðir Júlíönu við Kyrrahafsströnd. Ég hafði auglýst eftir heimildum um hana í vestur­íslensku blöðunum og nokkrir gáfu sig fram. Mesta aðstoð fékk ég hjá Theodore R. Beck (1926­-2017), búsettum í Seattle, af íslenskum ættum.[77] Hann sýndi málinu mikið áhuga, aflaði fyrir mig heimilda í manntali og öðrum skrám og kom mér í samband við rúmlega áttræða konu, Agnesi Ericson, fædda 1910, sem átti einnig heima í Seattle, þjónustuíbúð fyrir aldraða. Agnes var dóttir bestu vinkonu Júlíönu, Ingibjargar Bjarnadóttur (1878­ 1966), þegar þær áttu báðar heima í þorpinu Manchester, suðvestur af Seattle.[78] Hafði Júlíana passað Agnesi þegar hún var barn og mundi Agnes eftir því að hún hafði sungið fyrir hana Bí, bí og blaka. Saman fórum við Agnes, ásamt Ted Beck, í ferð um bernskuslóðir hennar í Manchester, og sýndi hún okkur staðinn þar sem bjálkakofi Júlíönu hafði staðið. Sagði Agnes mér að Júlíana hefði arfleitt mömmu hennar að biblíunni sinni, en það virðist hafa verið það eina sem Júlíana lét eftir sig. Biblíuna hafði hún gefið Heritagesafninu í Seattle, en þar fannst hún ekki þegar að var leitað. En það sem meira var: Agnes hafði varðveitt fjögur bréf sem Júlíana hafði skrifað mömmu hennar frá Blaine síðasta árið sem hún lifði. Eru bréfin dagsett 6. desember, 19. desember, 26. desember 1916 og 13. janúar 1917. Agnes skildi ekki íslensku og gat því ekki lesið bréfin. Þegar ég tregðaðist til að taka við þeim, sagði Agnes að enginn myndi skilja þau eftir sinn dag og myndi þeim bara verða hent. Ég bauðst til að þýða þau fyrir hana á ensku þegar ég væri komin heim. En áður en að því kom lést Agnes, nokkrum vikum eftir að ég hafði kvatt hana og hún gefið mér bréfin.
 
Fyrir utan bréfið til landlæknis og áritun á mynd eru þessi bréf það eina sem til er í eiginhandarriti Júlíönu. Þau eru góð heimild um síðustu mánuðina sem hún lifði. Þau eru fjörlega skrifuð og lýsa fallegu sambandi þeirra vinkvennanna. Þær tala stundum á ákveðnu dulmáli sem þær hafa sín á milli um fólk og skrítna atburði, þetta eru trúnaðarmál. Í þeim eru nokkur ljóð sem Júlíana yrkir til vinkonu sinnar og oft byrjar hún bréf á ljóði. Hér gríp ég niður í bréf, dagsett 26. desember 1916, þar sem Júlíana lýsir síðustu jólum sínum:
 
Ég hef haft ágætis jól, mörg bréf og sendingar og jólagjafir frá Önnu. Hún gaf mér indælis ullarrekkjuvoðir og 2 koddaver. Árni hárgreiðu og Ósk nærpils. Svo var regluleg jólaveisla. Við sungum (ekki ég), spiluðum, og aftur var sungið og spilað til kl. 1 jólanóttina, og eins í gærkvöldi. Gestir voru: Ella sem kom með þér að heiman og nábúakona hér Rannveig Hermína, hún er systurdóttir Bjargar móður Sigga bróður þíns, hún býr nú ein í næsta húsi með fallegum efnilegum syni sem er 13 ára og heitir Skarphéðinn. Maðurinn hljóp frá henni í fyrravetur. Hún var nú lífið og sálin í jólagleðinni, hún er svo kát og fjörug og lætur ekkert á sig bíta, og syngur yndislega, bæði drykkjuvísur og fleira og leikur það um leið.
 
Síðasta bréfið byrjar Júlíana á stöku: „Blessuð sértu ævi alla, / Ingibjörgin mín, / heyrir þú ei ég hrópa og kalla / við húsið inn til þín.“ Hún er veik og biður elsku bestu Imbu að gleyma sér ekki. „Æ, ég get ekki meir“. Og hún kveður með orðunum: „Eg er þín og alltaf þín Júlla.“ Á lausan miða, blað sem fylgir þessu bréfi, og er rifið úr almanaki, hefur hún skrifað, síðast orða:
 
Elsku vina mín.
Þú mátt ekki halda að mér líði illa. Ef slíkt kemur fyrir er það og verður sjálfri mér að kenna. Mér leiðist meðan ég er lasin. Hér er svo sólarlaust. Skrifaðu bráðum þinni Júllu.
 
Við opnun Þjóðarbókhlöðu 1. desember 1995 afhenti ég Landsbókasafni Íslands, Kvennasögusafni, bréf Júlíönu til ævarandi eignar og varðveislu, og er þar er vel um þau búið í öskju undir safnmarkinu KSS 147. Með þeim er Júlíana á táknrænan hátt komin heim.
 
 
 
Aftanmálsgreinar
 
* Greinin er byggð á fjölmörgum fyrirlestrum sem ég hef haldið um efnið, m.a. á Júlíönuhátíð í Stykkishólmi 2. mars 2013, í Snorrastofu í Reykholti 23. febrúar 2016 og Konubókastofu á Eyrarbakka 31. mars 2019; á SASS­þingi, Salt Lake City, 5. maí 1989, University of Manitoba, Winnipeg, 6. mars 1995 og University of Victoria, Victoria, 9. mars 1995. Sjá einnig Stúlka. Ljóð eftir íslenskar konur, einkum bls. 13­ 17, 54­56 og 107­114.
1. Prestsþjónustubók Reykholts 1816-­1846. Þar má einnig sjá að skírnarvottar voru ljósmóðirin Ragnheiður Vigfúsdóttir og hreppsstjórinn Kolbeinn Árnason á Hofsstöðum. Athyglisverð er eyðan í færslu prestsins, punktarnir þrír, í stað heimilisfangs næstum fertugs föðurins, sem móðirin unga hefur annaðhvort ekki viljað gefa upp eða ekki vitað.
2. Um flókin ættartengsl og uppvaxtarár Júlíönu má lesa nánar í ágætu heimildariti Guðrúnar P. Helgadóttur, Brautryðjandinn. Júlíana Jónsdóttir skáldkona, einkum bls. 11-­22.
3. Friðrik Eggerz, Úr fylgsnum fyrri aldar II, 347­8.
4. Friðrik Eggerz, 392.
5. Guðrún P. Helgadóttir veltir fyrir sér ástæðunni fyrir brotthvarfi Júlíönu úr Akureyjum. Telur hún hugsanlegt að Júlíana, sem var stórhuga og metnaðargjörn, „hefði treyst sér til að taka við bústýrustörfum í Akureyjum, en fundist fram hjá sér gengið.“ Guðrún P. Helgadóttir, 34.
6. Friðrik Eggerz, 393.
7. Guðrún P. Helgadóttir, 43.
8. Guðrún P. Helgadóttir, 44.
9. Guðrún P. Helgadóttir, 44.
10. Guðrún P. Helgadóttir, 47.
11. Jón Jónsson Hrútfjörð, titlaður húsmaður, 37 ára, fór til Vesturheims árið 1873 frá Stað í Staðarhreppi, Húnavatnssýslu, ásamt konu sinni Karólínu Magnúsdóttur, 32 ára, og þremur börnum, Magnúsi sjö ára, Júlíönu fjögurra ára og Jóni tveggja ára, með skipinu Peru frá Reykjavík 24. júní 1873. Settust þau fyrst að í Milwaukee en síðan í Norður­Dakóta. Sbr. Vesturfaraskrá, 211; einnig Indriði Einarsson, „Skýrslur um fólksflutninga til Vesturheims 1873­-1880, 1-­4.
12. Lúðvík Kristjánsson telur að henni hafi ekki tekist að fá lánaðan farareyri. „Stúlka og höfundur hennar,“ 213. Með Peru frá Reykjavík 24. júní 1873 fóru alls 47 Íslendingar, 22 karlar og 25 konur, þar af sjö börn á aldrinum 0­10 ára. Á þessu ári fóru alls 228 Íslendingar til Vesturheims í fjórum skipaferðum, þremur frá Reykjavík, einni frá Akureyri. Kostaði farið með aukakostnaði (fötum og farangri) sem nam 233 íslenskum krónum á mann. Indriði Einarsson, „Skýrslur um fólksflutninga,“ 1­-4.
13. Um ágæta lýsingu á menningarlífinu í Stykkishólmi á síðari hluta 19. aldar og þátt Júlíönu Jónsdóttur í því, sjá Ásgeir Ásgeirsson, Miðstöð Vesturlands. Saga Stykkishólms II, einkum kaflann „Mannlíf og félagsmenning,“ 393-­436.
14. Guðrún P. Helgadóttir, 59.
15. Guðbrandarbær var timburhús, byggt 1874, endurbyggt 1909, nú við Höfðagötu 3. Sbr. Ragnheiður Gló Gylfadóttir, „Deiliskráning á Þinghúshöfða í Stykkishólmi,“ 13.
16. Jóhann Rafnsson, „Leiklistarstarfsemi í Hólminum,“ 12.
17. Stefán Jónsson, „Um leiklistarstarfsemi í Stykkishólmi,“ 7.
18.Elsta leikrit sem varðveist hefur eftir íslenska konu er „Gleðilegur afmælisdagur“ eftir Sigríði Bogadóttur (1818-­1903), biskupsfrú, ættaða úr Breiðafirði, talið frá 1873. Þetta er samtímaleikrit sem m.a. fjallar um drykkjuskap karla í Reykjavík og illa meðferð á konum. Það var lengi talið glatað og hefur ekki verið sett á svið. Sjá Helga Kress, „Það er ekki ljósunum að því lýst,“ Skírnir, vor 2015.
19. Nýlega kom annað handrit í leitirnar, samhljóða þessu og með sömu skrift. Er það í innbundinni stílabók úr safni Indriða Einarssonar í Þjóðleikhúsinu og hefur fengið safnmarkið Lbs 2018/20. Innan á kápu stendur skrifað með blýanti, undirritað af JJac, þ.e. Jóni Jakobssyni landsbókaverði: „Keypt 17/7 1917 af frú Önnu Thorlacíus í Stykkishólmi ásamt 4 smáhandritapésum. JJac.“ Þar má einnig sjá að árið 1897 hefur það verið í eigu „Amtsins almenna bókasafns i í Stikkishólmi“. Ég þakka Erni Hrafnkelssyni fyrir að benda mér á þetta.
20. Júlíana Jónsdóttir. Víg Kjartans Ólafssonar. Sorgarleikur í einum þætti. Helga Kress bjó til prentunar og ritar inngang.
21, Ári eldra er þó leikrit Ólafs Thorlacíus, „Starkaður gamli og Ingjaldr konungr“, um viðburð úr fornaldarsögu, ársett 1876 og leikið í Stykkishólmi veturinn 1876­77. Júlíana velur hins vegar Íslendingasögu þar sem kona er aðalpersóna. Síðari leikrit Ólafs eru að fyrirmynd Júlíönu um viðburði úr Íslendingasögum þar sem hann tekur fyrir hvern kappann á fætur öðrum með fyrirsögnum eins og „Víg Gísla Súrssonar“, „Víg Þráins Sigfússonar“ og „Víg Höskuldar Þráinssonar“.
22. Steingrímur J. Þorsteinsson, Jón Thoroddsen og skáldsögur hans II, 363 o.áfr.
23. Um kvenmyndina í ljóðum Jóns Thoroddsen, sjá Helga Kress, „Blómmóðir besta“ í Breiðfirðingi 2020.
24. Edda Snorra Sturlusonar, 260.
25. Í auglýsingu um óútgengin bréf frá póststofunni í Reykjavík, sem birtist í Ísafold 4. apríl 1891, er áritunin á einu þeirra: „Stúlkan Guðbjörg Einarsdóttir, Skildinganesi Rvk.“ Í skáldsögu Guðmundar Daníelssonar, Mannspilin og ásinn frá 1948, veltir ein karlpersónan fyrir sér utanáskrift á bréfi og les upphátt: „‘Stúlkan Valgerður Guðmundsdóttir’ [...] ‘Stúlkan Valgerður’, hafði hann upp eftir sér hugsandi [...] Þetta var óvenjulegur titill nú á dögum.“ Guðmundur Daníelsson, 224. Þá segir Málfríður Einarsdóttir um „stúlkur“ á bæ þar sem hún þekkti til: „hétu fyrst griðkonur, eða ambáttir, síðan vinnukonur, síðan píur og seinast stúlkur. Upp úr því hurfu þær.“ Málfríður Einarsdóttir, Úr sálarkirnunni, 158.
26. Kvæðið birtist fyrst í Fjölni 1844; síðan í Ljóðmælum Jónasar 1847.
27. Um Guðbjörgu Árnadóttur, sjá grein mína „Föðurlandið besta“, m.a. í Breiðfirðingi 1994.
28. Áður höfðu birst á prenti tvö ljóð eftir Guðnýju Jónsdóttur (1804­-1836) frá Klömbrum, bæði að henni látinni, „Endurminningin er svo glögg“ í Fjölni 1837, og „Sit ég og syrgi“ í Norðurfara 1848.
29. Eru kvennaljóðmælin hluti af stærra kvæðasafni, teknu saman á síðari hluta 19. aldar. Eru þau höfð þar aftast og til þeirra vitnað í efnisyfirliti með orðunum „svo og kvennaljóð – aftan við.“ Lbs 162-­167 8vo.
30. Um Guðrúnu Þórðardóttur og heimildir varðandi hana, sjá grein mína „Ein á fjallatindum“; einnig „Kona og skáld,“ 55­-57.
31. Stúlka, 59-­60. Stafsetning í tilvitnunum til ljóða Júlíönu hér og síðar er færð til nútímahorfs. Í öðrum tilvitnunum höfð stafrétt.
32. Stúlka, 59­-60
33. Skv. Vesturfaraskrá, 186, fara alls 10 manns af bænum Valshamri með skipinu Osborne frá Borðeyri 1883: Guðrún Þórðardóttir, 66 ára, bóndinn Brynjólfur Jónsson, 69 ára, sonur þeirra Þórður Brynjólfsson, bóndi 37 ára, Valgerður Jónsdóttir, 35 ára, kona hans, fjögur börn, 9 ára, 8, ára, 5 ára og 0 ára, vinnukona 21 árs, Sigríður Einarsdóttir, og vikapiltur, Veturliði Jónsson, 21 árs.
34. Helga Kress, „Kona og skáld,“ 56.
35. Finnur Jónsson, „Bókmentir,“ Skuld, 6. mars 1882, 18; sjá einnig, Helga Kress, „Kona og skáld,“ 42­-44.
36. J[ónas] J[ónasson], „Nýjar bækur,“ 64­-65.
37. Árið 1884 hafði komið út í Reykjavík Stutt rithöfundatal á Íslandi 1400-1884, skráð af Jóni Borgfirðingi, og eru þær þar báðar nefndar Júlíana Jónsdóttir, með Stúlku (bls. 119), og Torfhildur Þorsteinsdóttir Hólm, með Brynjólf Sveinsson biskup og smásögur í vesturíslenskum tímaritum (bls. 122).
38. Bogi Th. Melsteð, XII.
39. Bogi Th. Melsteð, 297-­300.
40. Hann ritar: „Die erste isländische Dichterin, welche sich mit einer selbständigen Publikation an das Licht der Öffentlichkeit wagte, war Júlíana Jónsdóttir (geb. 1838). Ihre Gedichtsammlung „Stúlka“, d. h. Mädchen (Akureyri, 1876) war allerdings nur dieses Umstandes wegen interessant, denn die Gedichte selbst bekundeten nur geringes Talent.“ Poestion, 43
41. Stúlka, 1­4.
42. Stúlka, 35.
43. Stúlka, 10.
44. Stúlka, 10-­11.
45. Stúlka, 78.
46. Stúlka, 81-­82.
47. Stúlka, 83-­84.
48. Stúlka, 82­-83.
49. Stúlka, 77.
50. Guðrún P. Helgadóttir, 71.
51. Um Jón Þórðarson frá Einfætingsgili má lesa í ágætum þætti eftir Finn Jónsson á Kjörseyri, í bók hans Þjóðhættir og ævisögur frá 19. öld. „Jón var forn í skapi,“ segir þar, „og illmáll, ef honum mislíkaði við menn og var þá níðskældinn,“ 263.
52. Ljóðasafn Jóns Þórðarsonar frá Einfætingsgili er vönduð innbundin stílabók, með eiginhandarskrift, alls 372 blaðsíður. Lbs 755 8vo. Í formála, sem skrifaður er aftast, og augljóslega á síðasta æviári skáldsins er merkileg stefnuyfirlýsing: „Kvæði þessi eru ekki eins og menn, yfirhöfuð, gætu búist við að manni, sem lifir á síðari hluta 19. aldar, og sem þó tekur eptir smekk og háttalagi aldarinnar. Það er ekki heldur að búast við að ómenntaðir alþýðumenn, sem alltaf hljóta að vinna fyrir sér og sínum, og eru við búhokur, hafi þann heimspekilega blæ á kvæðum sínum, þó vel séu hagmæltir, sem nú virðist vera á kveðskap menntaðra manna, og það máske um of.“ Í samræmi við þetta yrkir hann svo í einni af stökunni undir „Ljóðadýrðin um miðja 19. öld“: „Hvað er gagn í heimspekinni? / Hún er enginn huggari / hjarta voru í neyðinni.“
53. Stúlka, 89-­90.
54. Stúlka, 116-­118.
55. Stúlka, 110.
56. Stúlka, 8­9.
57. Stúlka, 4­7.
58. Stúlka, 7­8.
59. Sbr. Niðurjöfnun bæjargjalda fyrir árið 1884, 21. Borgarskjalasafn Reykjavíkur. Þetta er einkar forvitnilegt skjal. Algengt var að konur borguðu tvær krónur í bæjargjald, þ.e.a.s. ef þær voru fjárráða og borguðu eitthvað, og það gerði Guðbjörg Jónsdóttir, saumakona, einnig við Hlíðarhúsastíg, og hafa þær Júlíana haft lágmarkstekjur. Til viðmiðunar borgaði Gestur Pálsson, ritstjóri, kr. 15, Friðrik Egggerz, emeritprestur, kr. 35, Schierbeck, landlæknir, kr. 150, Pétur Pétursson, biskup, kr. 410, og nafni hans lögreglumaður, kr. 8. Segir þetta mikið um stéttskiptingu og stöðu kvenna í Reykjavík á þessu ári.
60. Sbr. Sóknarmannatal 1881­-1885, 300. ÞÍ Kirknasafn. Seltjarnarnesþing. Spítalinn var nýreist Sjúkrahús Reykjavíkur, við Spítalastíg, það sem síðar varð Farsóttarhúsið og enn er til.
61. ÞÍ Skjalasafn landlæknis. C. 5. Bréf, 1876­-1894.
62. Í Vesturfaraskrá, 356, er hún skráð í „Viðbæti“. En þar voru þeir vesturfarar skráðir „sem ekki hafa verið borin kennsl á með vissu og óvíst er, hvar síðast áttu heima á Íslandi.“ Svo ókunnug og landlaus var hún.
63. Sbr. smáklausu í Lögbergi 17. júní 1891, bls. 8, þar sem segir að Júlíana Jónsdóttir, Eyford, Dakóta, hafi greitt upp í áskrift blaðsins, 3. árgang, hálfan dollar. Ársáskrift var 2 dollarar svo að eitthvað hefur hún átt erfitt með að borga þetta.
64. Sbr. 1900 Census Seattle, Washington, U.S.A. Vol. 8. E.D. 114. Sheet 15. Ég þakka Íslandsvininum Theodore R. Beck, prófessor í Seattle, fyrir að hafa sent mér ljósrit af þessu, sbr. bréf til mín frá 21. mars 1995.
65. Magnús Gíslason, 4.
66. Sbr. dánartilkynningu í The Blaine Journal, 15. júní 1917. Þar segir að „Julianna Jonsdottir“, 79 ára, til heimilis hjá Árna Magnússyni, hafi dáið á þriðjudag og jarðarförin farið fram á miðvikudag klukkan 3. Hún hafi verið ógift, fædd á Íslandi, en búið í Ameríku í 30 ár, þar af eitt ár í Blaine og mörg í Seattle. Eftir hana lifi bróðir í Manitoba.
67. Hagalagðar, 85.
68. Hagalagðar, 36.
69. Hagalagðar, 12-­13.
70. Hagalagðar, 67.
71. Hagalagðar, 54. Hér hefur prentarinn karlgert skáldið með því að prenta „kollóttan“ í stað „kollótta“ sem hlýtur að hafa staðið í handriti. Er það hér leiðrétt.
72. Hagalagðar, 35.
73. Hagalagðar, 74-­75.
74. Hagalagðar, 10-­11.
75. Hagalagðar, 35.
76. Sbr. kort af kirkjugarðinum í Blaine, sent mér með bréfi frá Theodore R. Beck, dagsettu 7. apríl 1995, svar við fyrirspurn hans frá skrifstofu kirkjugarðsins, ódagsettu, en undirritað Cheryl Smith. Er leiðið á svæði 3, í grafreit 40, númer 14. Þar hefur nýlega verið settur legsteinn, ef til vill fyrir tilmæli Theodore R. Beck, sem er þó óvíst, þar sem nafnið er rangt skráð Julianna Johnson og ekkert sem bendir til að hún hafi verið íslensk skáldkona. Mynd af legsteininum kom óvænt upp við leit á vefsíðunni findagrave.com, sett þar af Blue Ghost, hvað sem það nú er, og má sjá hann þar, skreyttan plastblómí í tilelfni myndatökunnar. Engu er líkara en að hér séu einhver samtök að verki sem taka að sér að setja legsteina á gleymd leiði.
77. Móðir hans var Guðmunda Elín Þórarinsdóttir, ættuð úr Kelduhverfi. Hún fór til Vesturheims 15 ára, árið 1914, til skyldfólks í Dakóta. Vesturfaraskrá, 336. Hún giftist síðan dönskum manni, en lést ung frá tveggja ára syninum. Hann var mikill Íslandsvinur, kom oft til Íslands og gaf m.a. Háskóla Íslands bókasafn sitt.
78. Ingibjörg Bjarnadóttir, gift Goucher, fór til Vesturheims tvítug að aldri árið 1898, frá Ási í Áshreppi. Vesturfaraskrá, 98.
 
 
Myndatextar
 
Forsíða að leikriti Júlíönu, Vígi Kjartans Ólafssonar, rithönd Ólafs Thorlacíus. Lbs 1784 4 to. Takið eftir skáldkonunni sem bætt hefur verið við á spássíu. [Sjá V]
Kvennaljóðmæli, forsíða og efnisyfirlit heftis með ljóðum eftir konur, bundið aftast við stærra kvæðasafn frá síðari hluta 19. aldar. Lbs 167 8vo. [Sjá VII]
Þessa mynd sendi Júlíana vinkonu sinni, Kristínu Jónsdóttur, ekki er vitað hvenær eða hvaðan. Á bakhlið hefur hún skrifað ljóðið „Þegar ég sá mynd af sjálfri mér“, sem hún síðar birti í Hagalögðum. [Sjá IX]
Þessa mynd sendi Júlíana útgefanda sínum í Winnipeg til birtingar í Hagalögðum og fylgdi henni stakan „Með mynd“, þar sem hún lýsir sjálfri sér. [Sjá XIII]
Upphaf bréfs sem Júlíana skrifaði vinkonunni Imbu frá Blaine á jólunum 1916. [Sjá Eftirmála]
 
 
Heimildaskrá
 
Óprentaðar heimildir
KSS 147, askja 1. Lbs­Hbs/Kvennasögusafn. Júlíana Jónsdóttir. Bréf, 1916­17.
Lbs 162 ­ 167 8vo. Kvæðasafn. Kvennaljóðmæli.
Lbs 755 8vo. Jón Þórðarson. Ljóðmæli.
Lbs 2018/20. Hefti með leikritunum Víg Kjartans Ólafssonar eftir Júlíönu Jónsdóttur og Gunnlaugr og Rafn eftir Ólaf Thorlacius. Safn Indriða Einarssonar.
ÞÍ Kirknasafn. Prestsþjónustubók Reykholts 1816­1846. Reykholt BA/6.
ÞÍ Kirknasafn. Seltjarnarnesþing. Sóknarmannatal 1881­1885.
ÞÍ Skjalasafn landlæknis. C. 5. Bréf, 1876­1894.
 
Vefheimildir
Borgarskjalasafn Reykjavíkur, borgarskjalasafn.is
Manntalsvefur Þjóðskjalasafns Íslands, manntal.is
Sigríður Bogadóttir, Gleðilegur afmælisdagur. Leikrit í þremur þáttum (1873). Reykjavík: Gróa á Leiti, 2015. Rafræn útgáfa: https://www.academia. edu/13104283/Gledilegur afmaelisdagur
 
Prentaðar heimildir
Ásgeir Ásgeirsson. Miðstöð Vesturlands. Saga Stykkishólms. II. Stykkishólmi: Stykkishólmur, 1997.
Bogi Th. Melsteð. Sýnisbók íslenskra bókmennta á 19. öld. Kaupmanna höfn: Gyldendal, 1891.
Edda Snorra Sturlusonar. Finnur Jónsson bjó til prentunar. Reykjavík: Sigurður Kristjánsson, 1907.
Finnur Jónsson. „Bókmentir.“ Skuld, 6. mars 1882.
Finnur Jónsson. Þjóðhættir og ævisögur frá 19. öld. Minnisblöð Finns á Kjörseyri. Akureyri: Bókaútgáfa Pálma H. Jónssonar, 1945.
Fjölnir. Ársrit handa Íslendingum. Gefið út af nokkrum Íslendingum. Sjöunda ár. 1844.
Friðrik Eggerz. Úr fylgsnum fyrri aldar. Ævisaga Friðriks prests Eggerz. II. Jón Guðnason sá um útgáfuna. Reykjavík: Iðunn, 1952.
Guðmundur Daníelsson. Mannspilin og ásinn. Reykjavík: Helgafell, 1948.
Guðrún P. Helgadóttir. Brautryðjandinn. Júlíana Jónsdóttir skáldkona. Akranesi: Hörpuútgáfan, 1997.
Guðrún Þórðardóttir. „Anna Einarsdóttir.“ Norðri, 31. desember 1860.
Guðrún Þórðardóttir. „Jón Ormsson.“ Norðanfari, 1. mars 1863.
Guðrún Þórðardóttir. „Sigurður Breiðfjörð.“ Norðri, 20. desember 1860.
Helga Kress. „Blómmóðir besta: Konan í lífi og ljóði Jóns Thoroddsen.“ Breiðfirðingur 2020.
Helga Kress. „Ein á fjallatindum. Skáldkonan Guðrún Þórðardóttir frá Vals[1]hamri.“ Í Helga Kress. Óþarfar unnustur og aðrar greinar um íslenskar bókmenntir. Reykjavík: Bókmennta­ og listfræðastofnun Háskóla Íslands, 2009. [Upphaflega í Þræðir spunnir Vilborgu Dagbjartsdóttur í tilefni 18. júlí 2000. Ritstj. Helga Kress og Ingibjörg Haraldsdóttir. Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2001.]
Helga Kress. „Föðurlandið besta. Um ljóðmæli Guðbjargar Árnadóttur frá Ytrafelli í Dalasýslu.“ Í Helga Kress. Speglanir. Konur í íslenskri bókmenntahefð og bókmenntasögu. Reykjavík: Háskóli Íslands, 2000. [Upphaflega í Fjölmóðarvíl til fagnaðar Einari G. Péturssyni 25. júlí 1991. Ritstj. Magnús Hauksson og Gísli Sigurðsson. Reykjavík: Mettusjóður, 1991. Endurpr. [ásamt Einari G. Péturssyni]. „Skáldsystkin í Dölum. Guð björg Árnadóttir og Bjarni Árnason.“ Breiðfirðingur 1994.]
Helga Kress. „‘Sökum þess ég er kona.’“ Víg Kjartans Ólafssonar og upphaf leikritunar íslenskra kvenna.“ Júlíana Jónsdóttir. Víg Kjartans Ólafssonar. Sorgarleikur í einum þætti. Helga Kress bjó til prentunar og ritar inngang. Hafnarfirði: Söguspekingastifti, 2001. Einnig í Helga Kress. Óþarfar unnustur og aðrar greinar um íslenskar bókmenntir (2009).
Helga Kress. „‘Það er ekki ljósunum að því lýst.’ Um leikrit Sigríðar Bogadóttur, Gleðilegur afmælisdagur, fyrsta Reykjavíkurleikritið og elsta leikrit sem varðveist hefur eftir íslenska konu.“ Skírnir, vor 2015.
Indriði Einarsson. „Skýrslur um fólksflutninga frá Íslandi til Vesturheims 1873­1880.“ Stjórnartíðindi fyrir Ísland árið 1884. C-­deildin. Reykjavík 1884.
Jóhann Rafnsson. „Leiklistarstarfsemi í Hólminum fyrir aldamót.“ Leikfélagið Grímnir Stykkishólmi 15 ára, 1968-1982. Stykkishólmi 1982.
Jón Borgfirðingur. Stutt rithöfundatal á Íslandi 1400-1882. Reykjavík: Ísafoldar prentsmiðja, 1884.
J[ónas] J[ónasson. „Nýjar bækur.“ Þjóðólfur 24. júlí 1882.
Júlíana Jónsdóttir. Stúlka. Ljóðmæli eftir Júlíönu Jónsdóttur í Akureyjum. Akureyri: [höfundur], 1876.
Júlíana Jónsdóttir. Hagalagðar. Winnipeg: [höfundur], 1916.
Júlíana Jónsdóttir. Víg Kjartans Ólafssonar. Sorgarleikur í einum þætti. Helga Kress bjó til prentunar og ritar inngang. Hafnarfirði: Söguspekinga stifti, 2001.
Lúðvík Kristjánsson. „Júlíana í Akureyjum.“ Breiðfirðingur 1943.
Lúðvík Kristjánsson. „Stúlka og höfundur hennar.“ Vestræna. Ritgerðir gefnar út í tilefni sjötugsafmælis höfundar 2. september 1981. Ritstj. Bergsteinn Jónsson og Einar Laxness. Reykjavík: Sögufélag, 1981.
Magnús Gíslason. „Skáldkonan Júlíana Jónsdóttir.“ Nýtt kvennablað 7/1946.
Málfríður Einarsdóttir. Úr sálarkirnunni. Reykjavík: Ljóðhús, 1978.
Poestion, J.C. Isländische Dichter der Neuzeit. Leipzig: Meyer, 1897.
Ragnheiður Gló Gylfadóttir. „Deiliskráning á Þinghúshöfða í Stykkishólmi.“ Reykjavík: Fornleifastofnun Íslands, 2010.
Stefán Jónsson. „Um leiklistarstarfsemi í Stykkishólmi.“ Leikhúsmál 4/1941.
Steingrímur J. Þorsteinsson. Jón Thoroddsen og skáldsögur hans. II. Reykjavík: Helgafell, 1943.
Stúlka. Ljóð eftir íslenskar konur. Helga Kress valdi efnið og bjó til prentunar. Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, 1997. 2. útg. 2001.
Vesturfaraskrá 1870-1914. Ritstjóri Júníus H. Kristinsson. Reykjavík: Sagn[1]fræðistofnun Háskóla Íslands, 1983.
 

Tengt efni