AUÐUR AVA ÓLAFSDÓTTIR hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2018
Auður Ava Ólafsdóttir hlaut bókmenntaverðlaunum Norðurlandaráðs 2018. Tók hún við verðlaununum úr hendi Mette-Marit, krónprinsessu Noregs, fyrir skáldsöguna Ör á verðlaunahátíð í Óperunni í Ósló. Skáldsagan Ör hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2017. Samkvæmt fréttum Norden.org hlýtur Auður Ava verðlaunin fyrir verk sem einkennist af útsmognum húmor og leiftrandi fjörugu tungumáli en spyr jafnframt áleitinna spurninga um lífið og dauðann.
Í rökstuðningi dómnefndar segir:
Í Ör kynnumst við miðaldra karlmanni sem ferðast til stríðshrjáðs Evrópulands í þeim tilgangi að fyrirfara sér, með verkfærakassa í farteskinu. Meðan á ferðinni stendur rennur upp fyrir honum að allir eiga sér verkfærakassa og geta valið hvernig þeir beita verkfærunum. Ör er lítil bók með stórt hjarta. Hún er full af útsmognum húmor og leiftrandi fjörugu tungumáli og spyr jafnframt áleitinna spurninga um lífið og dauðann, um einstaklinginn gegn heildinni, um forréttindi fólks, réttindi þess og skyldur í heiminum. Ekki síst þá skyldu að leyfa mennskunni að storka myrkrinu.
Ör er fimmta skáldsaga Auðar Övu Ólafsdóttur, en hún hefur einnig sent frá sér ljóðabók og samið leikrit. Einnig hefur Auður Ava samið texta fyrir hljómsveitna Milky Whale. Auður Ava er fædd í Reykjavík árið 1958 og lagði stund á listfræði og listasögu. Hefur hún kennt í Háskóla Íslands og Leiklistarskóla Íslands og einnig veitt Listasafni H.Í. forstöðu ásamt því að setja upp myndlistarsýningar og fjalla um myndlist og listasögu í blöðum og tímaritum.
Í umfjöllun Norden.org kemur fram að fyrsta bók Auðar Övu hafi komið út árið 1998 en sú næsta sex árum síðar og hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar. Þriðja bók hennar, Afleggjarinn, hefur verið þýdd á mörg tungumál og hlaut Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, Menningarverðlaun DV, frönsku verðlaunin Prix du page og kanadísku verðlaunin Prix des libraires du Québec. Sú bók var einnig tilnefnd til Norðurlandaráðsverðlauna árið 2009 undir nafninu Stiklingen.
Við tilnefninguna á Ör var umsögnin á Norden.org eftirfarandi:
Jónas Ebeneser er býsna nálægt því að vera staðalmynd um venjulegan mann, hvítur, gagnkynhneigður karlmaður á miðjum aldri, fráskilinn faðir, handlaginn og dagfarsprúður, en sú hugmynd öðlast strax meiri dýpt í upphafi skáldsögunnar Ör þegar hann segir okkur frá örunum sjö á líkama sínum á tattústofunni. Arnarvængir myndu ekki ná að hylja þau öll og Jónas kýs að láta flúra á sig vatnalilju yfir hjartanu en á því sitja ör sem sjást ekki með berum augum.
Jónas Ebeneser hefur glatað allri lífslöngun og hugsar um það eitt að stytta sér aldur, þó þannig að dóttir hans komi ekki að honum látnum, og sér sig því tilneyddan að halda út í heim. Áfangastaðurinn er stríðshrjáð land, alsett sýnilegum og ósýnilegum örum eins og hann sjálfur og hann tekur með sér borvélina ef ske kynni að hann þyrfti að festa upp krók til að hengja sig á. En enginn veit sína ævina fyrr en öll er.
Ör lætur ekki mikið yfir sér við fyrstu sýn en bókin er listavel skrifuð og fjallar um djúpar og áleitnar spurningar sem leita á okkur flest. Stíllinn er leikandi léttur, persónur vel mótaðar og mannlegar og Auður Ava hefur fullt vald á efniviðnum, blandar saman húmor og tilvistarlegum hugleiðingum þannig að unun er að lesa.
Hún skrifar um stöðu kvenna, stríð og flótta, einmanaleika og uppgjöf en umfram allt um mennskuna, um harm einstaklinga sem ekki er hægt að mæla eða minnka með samanburði við aðrar sorgir, aðeins sefa. Við erum öll flóttamenn á þessari jörð, alsett örum, en ef við réttum hvert öðru hjálparhönd og sýnum hvert öðru virðingu og tillitssemi tekst okkur ef til vill að sefa okkar eigin harm. Stærstu mistök sem okkur geta orðið á er að gleyma að við komum hvert öðru við og að eðli manna er hið sama, hvar í heiminum sem við lítum fyrst dagsins ljós.
„Ég er að skrifa gegn myrkrinu í heiminum, ég held ég geri það í öllum bókunum mínum en langmest í þessari,“ sagði Auður Ava í viðtali við íslenska fréttablaðið DV þegar bókin kom út síðla árs 2016. „Ég er kannski svolítið eins og litla stelpan með eldspýtuna – í eintölu. Hver bók er þá eldspýta til höfuðs myrkrinu í heiminum.“ Og myrkrið í heiminum verður heldur minna við lestur þessarar sérlega vönduðu skáldsögu.
Ása Jóhanns