SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Auður Ava Ólafsdóttir

 

Auður Ava Ólafsdóttir fæddist í Reykjavík árið 1958. Hún er menntuð í listfræði og starfaði sem lektor í listfræði við Háskóla Íslands um árabil. Hún hefur einnig kennt listfræði og listasögu við Leiklistarskóla Íslands og var um tíma forstöðumaður Listasafns Háskóla Íslands. Auður hefur sett upp myndlistarsýningar og fjallað um myndlist og listasögulegt efni í ýmsum fjölmiðlum.

Fyrsta skáldverk Auðar var skáldsagan Upphækkuð jörð sem kom út hjá Máli og menningu árið 1998. Önnur skáldsaga, Rigning í nóvember, kom síðan út hjá Sölku árið 2004 og sú þriðja, Afleggjarinn, hjá sama forlagi 2007. Síðan þá má segja að ferill Auðar Öva á sviði skáldskapar hafi verið ævintýri líkastur. Bækur hennar hafa verið þýddar á fjölda tungumála og er hún sérstaklega vinsæll höfundur í Frakklandi og þess má geta að sjálf er hún frönskumælandi eftir framhaldsnám þar í landi.

Auður Ava sendi frá sér sína fyrstu ljóðabók, Sálminn um glimmer, árið 2010 og einnig hefur hún skrifað leikverk, Svartur hundur prestsins, sem sett var á svið í Þjóðleikhúsinu vorið 2012.

Auður Ava hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir bækur sínar. Rigning í nóvember hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar 2004,  Afleggjarinn er margverðlaunuð bók, meðal annars hlaut hún Menningarverðlaun DV 2008, Fjöruverðlaunin sama ár og tilnefningu til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2009. Skáldsagan vakti mikla athygli í Frakklandi þegar hún kom þar út í þýðingu Catherine Eyjólfsson með titlinum Rosa Candida árið 2010 og var franska þýðingin verðlaunuð í Quebec í Kanada vorið 2011 og víðar. Íslensku bókmenntaverðlaunin hlaut Auður Ava fyrir skáldsöguna Ör 2016 og Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir sömu bók 2018.

 


Ritaskrá

 • 2020 Dýralíf
 • 2018 Ungfrú Ísland
 • 2016 Ör
 • 2012 Undantekningin – de arte poetica
 • 2010 Sálmurinn um glimmer
 • 2007 Afleggjarinn
 • 2004 Rigning í nóvember
 • 1998 Upphækkuð jörð

Auður Ava hefur einnig skrifað sviðsverkið Svartur hundur prestsins.

Verðlaun og viðurkenningar

 

 • 2018  Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir Ör
 • 2016  Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir Ör
 • 2011  Prix des libraires du Québec fyrir Rosa Candida
 • 2010  Prix de Page (Frakkland) fyrir Rosa Candida
 • 2008  Menningarverðlaun DV í bókmenntum fyrir Afleggjarann
 • 2008  Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, fyrir Afleggjarann
 • 2004  Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir Rigningu í nóvember

 

Tilnefningar

 

 • 2020  Til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir Dýralíf
 • 2018  Til Ítölsku verðlaunanna Premio Strega fyrir Ör
 • 2016  Til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir Ör
 • 2012  Til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir Undantekninguna (de arte poetica)
 • 2012  Til Grímuverðlaunanna sem Leikskáld ársins fyri Svarta hund prestsins
 • 2010  Til Lire Magazine (Frakkland) fyrir Rosa Candida
 • 2010  Til Prix du Roman FNAC (Frakkland) fyrir Rosa Candida
 • 2010  Til Prix Fémina (Frakkland) fyrir Rosa Candida
 • 2009  Til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir Afleggjarann
 • 2005  Til Menningarverðlauna DV í bókmenntum fyrir Rigningu í nóvember