Guðrún Steinþórsdóttir∙26. nóvember 2021
JÓLALEG LJÓÐ

Í tilefni þess að fyrsti í aðventu er nú um helgina er upplagt að endurlesa Jólaljóðin eftir Kristínu Ómarsdóttur. 15 ár eru síðan bókin kom út en hún stendur alltaf fyrir sínu enda nokkuð ljóst að jólalegri ljóð eru vandfundin. Í bókinni má lesa ljóð um jólaköttinn, jólastjörnuna, jólakjólinn og snjókomu svo ekki sé minnst á að eitt ljóð er í laginu eins og jólatré og annað eins og jólabjalla. Bókin hefst á ljóði um jólasnjóinn en það er vel við hæfi að undirbúa sig fyrir aðventuna með því að lesa það.
Jólasnjór
Sumir kalla hann sykur.
Flórsykur jólasveinsins
er hann sigtar mjöllina
úr skýjunum niður á
kökuna.
Þá sjá íbúarnir sporin
að húsinu og sporin
frá húsinu.
Hver kom, hver fór.
Hver hvorki kom né fór.
Gaman að vera fyrst
til að spora út kökuna.