SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Helga Jónsdóttir19. nóvember 2021

LJÓÐ VIKUNNAR - Lát hvarma skýla

Ljóð vikunnar heitir „Lát hvarma skýla“ og er eftir Arnfríði Jónatansdóttur. Ljóðið birtist í bókinni Þröskuldur hússins er þjöl (1958) sem er fyrsta og eina ljóðabók Arnfríðar en hún var endurútgefin af Unu útgáfuhúsi árið 2019. Soffía Auður Birgisdóttir skrifar afar áhugaverðan inngang að þeirri útgáfu þar sem hún fjallar um yrkisefni Arnfríðar og einkenni ljóðanna auk þess sem hún víkur orðum að stöðu skáldkonunnar innan karllægrar bókmenntahefðar og þögninni sem hefur ríkt um ljóðlist hennar. Í lok bókarinnar má einnig lesa skemmtilegt viðtal Þórunnar Hrefnu Sigurðardóttur við Arnfríði frá árinu 2002 þar sem meðal annars er komið inn á stríðsótta sem greina má í bókinni en hann kemur bersýnilega fram í „Lát harma skýla“:
 
 
Lát hvarma skýla
augans hljóðu aðgát,
skugga óttans – barnið
blunda.
 
Syngi gullvín
sveiti viðarins
sólgleði
sáð tára
gullvín.
 
Amma hefur lokið
fiskbreiðslunni,
skjallahvíta fiskinn
þvoði og breiddi
til þerris á stein.
Amma hefur lokið
fiskbreiðslunni.
 
Blunda þú barnið
þeir eru naumast hættir að skjóta.
 
Reykurinn úr byssuhlaupunum
lyppast yfir hæðunum
yfir vötnunum –
eins og útfrymi.
 
Syngi
arður tára
sviði moldar
gleðisól
sof þú, barnið.
 
Amma breiðir snemma
fisk í þerri.