SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Arnfríður Jónatansdóttir

Arnfríður (Kristín) Jónatansdóttir var fædd 19. ágúst 1923 á Akureyri en ólst upp í Reykjavík frá sex ára aldri.

Hún fékkst við nýjungar í ljóðagerð á sama tíma og hin svokölluðu „atómskáld“ og gaf út ljóðabókina Þröskuldur hússins er þjöl árið 1958, á hápunkti formbyltingarinnar í íslenskri ljóðagerð. Það nægði þó ekki til að hún væri talin með í hópi atómskáldanna og nafni hennar bregður aldrei fyrir í umræðu um formbyltingarskáldin. Ljóð hennar bera þó sömu einkenni og ljóð karlkyns formbyltingarskálda, svo sem lausbeislað form, samþjöppun í máli og frjálsleg og óheft tengsl myndmáls.

Arnfríður var á unglingsaldri þegar hún fór að fást við skáldskap og 22ja ára birti hún ljóðið „Barn vildi byggja“ í tímaritinu Emblu (1945). Nokkur ljóða hennar birtust í bókinni Ljóð ungra skálda sem Magnús Ásgeirsson tók saman 1954 og þótti mikil viðurkenning í því fólgin að komast í þá bók. Ljóð og smásaga eftir Arnfríði birtust í Pennaslóðum, riti kvenna, sem kom út árið 1959. Stök ljóð eftir hana birtust í sérritum kvenna á borð við 19. júní og Veru.

Það síðasta sem birtist eftir Arnfríði eru brot úr dagbók sem hún hélt þegar hún var 13-14 ára og dvaldi á berklahæli í Hveragerði á árunum 1937-38. Björn Th. Björnsson bjó dagbókarbrotin til birtingar í Tímariti Máls og menningar, 1. hefti 1990. Birni áskotnuðust dagbókarslitrin, nafnlaus, þegar hann sá um útvarpsþætti á vegum Sambands íslenskra berklasjúklinga og lengi vel vissi hann ekki hver væri höfundur þeirra. Hann segir að sig hafi „jafnan undrazt“ þegar hann leit í þessi skrif: „stundum dottið í hug Gorkí, stundum Nexö, stundum telpan Anna Frank. Svo ósvikið er það sem þar stendur“ (bls. 49).

Hin fáu birtu verk Arnfríðar sýna ótvírætt að hún var frumlegt skáld með hæfileika til nýsköpunar á bókmenntasviðinu. Það fór þó þannig að hún hætti að skrifa og í fróðlegu viðtali sem birtist við hana í tímaritinu Veru árið 2002 nefnir hún að þröng kjör og skyldur hafi ráðið þar mestu. Arnfríður sá um veika móður sína árum saman og bjuggu þær í braggahverfi í Reykjavík. Þá má geta sér til um að dræmar viðtökur við skáldskap hennar hafi einnig átt sinn þátt í því að hún hætti að iðka skáldskap.

Síðustu æviár sín dvaldi Arnfríður á dvalarheimilinu Kumbaravogi á Stokkseyri. Hún lést 12. desember 2006.

Heimildir

Soffía Auður Birgisdóttir. „Brúarsmiður – Atómskáld – Módernisti.“ Ljóðaárbók 1989. Ritstj. Berglind Gunnarsdóttir, Jóhann Hjálmarsson og Kjartan Árnason. Reykjavík: Almenna bókafélagið.

Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir. „Ég gat ekki bæði unnið og skrifað.“ Viðtal við Arnfríði Jónatansdóttur. Vera, 3. tbl. 2002, bls. 38-44.


Ritaskrá

  • 1958  Þröskuldur hússins er þjöl
  • 2019  Þröskuldur hússins er þjöl - endurútgáfa með formála og viðtali við Arnfríði.

Tengt efni