Guðrún Steinþórsdóttir∙27. ágúst 2021
LJÓÐ DAGSINS - Milli mín og heimsins
Árið 2015 sendi Alda Björk Valdimarsdóttir frá sér sína fyrstu ljóðabók, Við sem erum blind og nafnlaus. Bókin skiptist í fimm hluta en í þeim fyrsta, Farvegi táknanna, er að finna ljóðið „Milli mín og heimsins“ sem að þessu sinni er ljóð vikunnar.
Milli mín og heimsins
Ég horfi ávölum augum
á það sem rúmast innan ferhyrningsins.
Samúðarfull græt ég
yfir viðtalsþættinum í sjónvarpinu
og bægi frá spurningum dóttur minnar.
Gráðug leita ég að upplýsingum á netinu
og svara því ekki dyrabjöllunni
og ef ég þarfnast kyrrðar
lít ég út um gluggann
því að náttúran skiptir mig máli.
Ég ramma inn myndir
af ástvinum
hamra þá á vegginn
og bækurnar sem ég les
eru líka hornréttar.
Milli mín og heimsins
eru rúðustrikaðar línur.
Væri ég orðin að ferningi
þyrftum við aldrei að snertast
og á daginn
myndir þú horfa á mig
eins og á málverk í stofunni.