SKRIFAÁSKORUN Í MARS
Skráning er hafin í Skrifaáskorun í mars - rafrænt ritlistarnámskeið sem hefst næstkomandi föstudag, 3. mars.
Sunna Dís Másdóttir hefur staðið fyrir sambærilegum námskeiðum í rúmt ár og hafa nú yfir 600 manns tekið áskoruninni: að skrifa sér til gleði og yndisauka á hverjum degi. Áhuginn á hinu ritaða orði virðist því sprellifandi og við framúrskarandi góða heilsu!
Í Skrifaáskorun í mars fá þátttakendur senda kveikju - hugmynd eða verkefni sem þeir geta nýtt sér til innblásturs í skrifum - á hverjum degi í fjórar vikur. Þeir taka svo frá fimmtán mínútur til skrifa á degi hverjum. Þátttakendur fá sömuleiðis inngang í lokaðan Facebookhóp þar sem þeir geta komist í kynni við annað skrifandi fólk. Ekki er um nein skilaverkefni eða endurgjöf að ræða heldur er markmiðið að fólk búi sér til pláss fyrir skrif og sköpun í daglegri rútínu og komist á góða siglingu í skrifunum.
Nánari upplýsingar má nálgast hér.
Sunna Dís er með M.A.próf í ritlist frá Háskóla Íslands og er sjálfstætt starfandi sem rithöfundur og skáld, gagnrýnandi, þýðandi og ritlistarleiðbeinandi. Hún hefur staðið fyrir ritlistarsmiðjum fyrir bæði börn og fullorðna við góðar undirtektir.
Umsagnir frá þátttakendum í fyrri námskeiðum:
„Mér fannst námskeiðið alveg frábært. Það kveikti á sköpunarkraftinum í dimmasta skammdeginu.“
„Virkaði á hugann eins og startvökvi á gamla díselvél.“
„Frábært námskeið. Ég hlakkaði til á hverjum morgni að opna tölvupóstinn frá þér og takast á við kveikju dagsins.“
Nánari upplýsingar veitir Sunna Dís Másdóttir með tölvupósti: sunnadis@gmail.com eða í síma: 6993936.