GESTAGANGUR HJÁ SIGURLÍN
Í fyrra kom út bók sem ber heitið Gestagangur, örsögur eftir Sigurlín Hermannsdóttur (f. 1952). Sigurlín er þekkt sem hagyrðingur og skáld og hefur kveðskapur hennar birst víða. Seinni árin hefur hún skrifað örsögur, stuttar sögur um einfalda hluti sem geta orðið flóknir.
Í Gestagangi sem út kom 2022 eru 51 örsaga á 70 blaðsíðum. Það er skemmtilegt og skrýtið að hafa þær ekki 50 talsins!
"Persónur eiga það flestar sameiginlegt að hugsa stíft til fortíðar og eiga erfitt með að höndla nútíðina og þær breytingar sem hún hefur í för með sér" segir á bókarkápu.
Sigurlín gefur bókina út á eigin kostnað og teiknar sjálf kápumynd.
Ekki skortir hugmyndir eða söguefni. Áberandi er fortíðarþrá, lýsingar á heimi sem er horfinn, einsemd og elli og einnig íslensk fyndni. Td saga sem heitir Skilaboð og er ansi góð, ein sem heitir Draumur, og ísmeygilegan húmor er að finna hjá ráðgjafarskrifstofu sem er ekkert óviðkomandi og heitir Efri-Þing!