STÆKKANDI SKÁLDATAL: ÓLAFÍA ÁRNADÓTTIR
Í Skáldatalinu hér á Skáld.is eru núna færslur um 439 skáldkonur og margar fleiri færslur eru þegar í vinnslu og bíða birtingar. Þá hefur ritstjórn tekið saman lista yfir miklu fleiri konur sem eftir á að vinna færslur um, en það getur verið ærin vinna að finna upplýsingar um konur sem gefið hafa út frumsamdar bækur sem fáir, ef nokkur, kannast við í dag. Svo bætast að sjálfsögðu við nýir höfundar á hverju ári. Eina skilyrðið sem kona þarf að uppfylla til að komast í Skáldatalið er að hafa gefið út að minnsta kosti eina bók. Skáld.is ítrekar að allar ábendingar um skáldkonur sem vantar í Skáldatalið eru vel þegnar og einnig er vel þegið ef slíkum ábendingum fylgja upplýsingar um æviágrip viðkomandi kvenna og fleira sem varðar skáldskap þeirra og verk.
Nýlega bættist Ólafía Árnadóttir í Skáldatalið en hún var fædd í Bergskoti á Vatnsleysuströnd 9. júní 1899 og lést í Reykjavík 16. september 1982. Tvær ljóðabækur komu út eftir Ólafíu, Séð til sólar (1959) og Í birtu dagana (1977) en einnig birtust eftir hana ljóð og kvæði í tímaritum og blöðum.
Kveðskapur Ólafíu er margbreytilegur í formi og ljóst að hún hefur haft góð tök á margvíslegum bragarháttum. Þá má sjá að hún hefur lifað tímana tvenna og reynt miklar umbreytingar á íslensku samfélagi. Um það yrkir hún til dæmis í kvæðinu Allt breyttist sem samanstendur af mörgum erindum í ferskeyttu formi. Þar yrkir hún til að mynda um það þegar bíllinn tók við af hestinum sem helsta farartæki mannsins. Ólafía hefur greinilega mikið dálæti á hestum og mörg erindanna eru líkt og óður til reiðskjótanna góðu. Þótt hún neiti því ekki að bifreiðin auðveldaði fólki lífið á ýmsan hátt var þó ýmislegt annað sem glataðist:
Bíllinn hrósið bezta á,braut þó góðri háður.En vinskap aldrei veita má,sem vekringurinn áður._
Bíll þó flytji frár um grundfrækinn hal og svannaávallt saknar íslenzk lundekta góðhestanna.
Nánar má lesa um Ólafíu hér og við þökkum sonardóttur hennar og alnöfnu kærlega fyrir upplýsingarnar.