SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir29. apríl 2023

SJÖTUG SKÁLDKONA, SJÖTUG PERSÓNA

Ragnheiður Gestsdóttir er þekkt og margverðlaunuð fyrir barna- og unglingabækur sínar.

Hún hlaut Norrænu barnabókaverðlaunin árið 2005 fyrir Sverðberann. Sama bók hlaut Barnabókaverðlaun Menntaráðs Reykjavíkur árið 2004 en Ragnheiður fékk einnig sömu verðlaun fyrir unglingabókina 40 vikur árið 2001 og Íslensku barnabókaverðlaunin fyrir Leik á borði árið 2000. Þá heiðraði IBBY á Íslandi hana fyrir ritstörf með Vorvindum félagsins árið 2005.

Síðustu ár hefur Ragnheiður vakið athygli fyrir spennusögur ætlaðar fullorðnum lesendum:

  • 2022  Blinda
  • 2021  Farangur
  • 2019  Úr myrkrinu

Ragnheiður hreppti glæpasagnaverðlaunin Blóðdropann fyrir skáldsöguna Farangur. Sagan segir frá ungri konu sem leggur á flótta frá ofbeldisfullum sambýlismanni.

Um þessar mundir kemur ný bók frá Ragnheiði, Steinninn. Þar segir frá Steinunni sem á sjötugsafmæli og býður í veislu af því tilfefni. "Á svona tímamótum er til siðs að líta yfir farinn veg en óvænt afmælisgjöf verður til þess að Steinunn kýs að rífa af sér alla fjötra síns fyrra lífs og fljúga á vit hins óvænta.

Í farteskinu eru minningarnar, allar sögupersónurnar sem hafa gert henni lífið bærilegra og svo auðvitað númerið á bankareikningnum" segir í bókarkynningu.

 

 

Tengt efni