SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir 1. maí 2023

„BÓLGNAR, HNÝTTAR, BLÁAR HENDUR“ - Þórunn gamla eftir Margréti Jónsdóttur

Á alþjóðlegum degi verkafólks fer vel á að birta eitt af þekktari ljóðum skáldkonunnar Margrétar Jónsdóttur, um Þórunni gömlu þvottakonu.

Ljóðið birtist í annarri ljóðabók Margrétar, Laufvindar blása, sem kom út árið 1940. Það dregur upp mjög eftirminnilega mynd af skýrri stéttaskiptingu og þeirri misskiptingu sem henni fylgir. Þórunn gamla stritar samviskusamlega í veislusölum hefðarfrúa en snýr síðan heim í kalt og gluggalaust hreysi sitt.  

 

Þórunn gamla
 
Þórunn gamla þvottakona
þrammar áfram köld og sljó
eftir dagsins erfiðleika
á hún von á hvíld og ró.
Vetur yfir veginn breiðir
voð úr mjallahvítum snjó.
 
Þórunn gamla þvottakona
þvær hjá margri hefðarfrú
eftirsótt hún er við störfin,
af því hún er dygg og trú.
Þórunn gamla þvottakona
þrammar yfir Tjarnarbrú.
 
Bólgnar, hnýttar, bláar hendur,
bognar herðar, fótur sár,
þannig útlits Þórunn gamla
þrammað hefur fjölmörg ár.
Undan skýlu lokkur lafir,
langt er síðan hann varð grár.
- - -
Líttu inn í ljósum prýddan
litum skrýddan veizlusal:
Drifhvítt hálslín, hreinir dúkar.
Hér er sveina og meyja val.
Allt er glæst og fagurt fágað,
fagna í kvöld og gleðjast skal.
 
Þórunn gamla þvoði og fægði,
því næst gekk hún heim til sín,
inn í lítið ofnlaust hreysi,
aldrei þangað sólin skín.
Þar er held eg heldur lítið
hreint og strokið drifhvítt lín.
- - -
Var hún eitt sinn ung og blómleg,
efni í glæsta hefðarfrú?
Átti hún bjarta æskudrauma,
ástir, vonir, heita trú?
Átti hún rétt á láni lífisin
líkt og aðrir - eg og þú?
- - -
Vetur breiðir voðir sínar,
vefur jörð í mjallarlín
jafnar yfir allt og sléttar
einnig, Þórunn, sporin þín.
Fram úr skýjum fæðist máni
fölt og kalt á snæinn skín.

 

Hér má hlýða á lag við þennan magnaða texta Margrétar

 

 

 

 

Tengt efni