SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir 7. maí 2023

LJÓÐ DAGSINS - Heimsstjórnarfundur eftir Vilborgu Dagbjartsdóttur

Það líður að leiðtogafundi Evrópuráðs og hvarflar þá hugurinn óhjákvæmilega til ljóðs Vilborgar Dagbjartsdóttur um heimsstjórnarfundinn. Ljóðið birtist í ljóðasafni Vilborgar sem kom út árið 2015.

 

Heimsstjórnarfundur
 
Svartgljáandi bens
stansar á breiðstræti
framan við steinhöll
lögregluþjónar
með kylfur
dinglandi við beltið
halda aftur af 
fréttamönnum
sem ryðjast fram
tilbúnir að smella af
auðmjúkur bílstjórinn
opnar buktandi
afturdyrnar
svartklæddur
sköllóttur
skegglaus
hvítflibbaþræll
stígur út
 
Hann setur upp
brosgrettu
fyrir súmlinsuaugun
gengur svo reigingslega
að mósaíkskreyttum þrepum
þar stendur tvífari hans
þeir fallast í faðma
leiðast svo inn 
í ráðstefnusalinn
við langborðið bíða
tugir af öðrum
svartklæddum
sköllóttum
skegglausum
hvítflibbaþrælum
fundur er settur
í alheimsráðinu 
 
(bls. 104)