ILLSKA OG ÓHUGNAÐUR
Fyrsta hefti RITSINS, tímarits Hugvísindastofnunar, 2023 er komið út, stútfullt af spennandi fræðigreinum.
Þema þessa heftis er ILLSKA OG ÓHUGNAÐUR og falla fjórar greinar heftisins undir það þema, hver annarri áhugaverðari.
Í kynningu ritstjóra RITSINS, Guðrúnar Steinþórsdóttur, segir:
Illskan er fylgifiskur ofbeldis af öllu tagi en í sumum tilvikum er hún augljós, eins og þegar um líkamlegt ofbeldi er að ræða, en í öðrum aðstæðum getur hún verið lúmsk og er þá jafnvel erfitt að henda reiður á henni. Hún tengist valdbeitingu sterkum böndum og er gjarnan sögð andstæða samlíðunar ekki síst þegar hún er tengd hryllilegum atburðum eða tilteknum gjörðum einstaklinga. Illska er sívinsælt viðfangsefni listamanna eins og kemur glögglega fram í þessu hefti.
Benda má sérstaklega á að tvær ungar fræðikonur eiga ritrýndar greinar í þessu hefti, en það eru Vera Knútsdóttir og Sunna Dís Jensdóttir.
Vera Knútsdóttir greinir skáldsögurnar Hvítfeld: fjölskyldusaga (2012) eftir Kristínu Eiríksdóttur og Ég man þig (2010) eftir Yrsu Sigurðardóttur og dregur fram hvernig skáldkonurnar beita fagurfræði hins ókennilega til að takast á við atburði fjármálahrunsins árið 2008.
Sunna Dís Jensdóttir skoðar aftur á móti hvernig gotnesk skáldskapareinkenni í skáldsögunni Börnin í Húmdölum (2004) eftir Jökul Valsson eru notuð til að miðla óhugnaði og varpa ljósi á ýmis falin samfélagsmein, ekki síst vanrækslu og ofbeldi á börnum.
RITIÐ er í opnum aðgangi á netinu og má lesa allar greinarnar hér.