SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir19. júní 2023

FÁ AÐ SPILA Á SÍNAR SPÝTUR - Frá Bríeti Bjarnhéðinsdóttur

 
Í dag er 19. júní og því tilvalið að rifja upp punkta úr erindi og fyrstu baráttugrein kvenréttindakonunnar og frumkvöðulsins Bríetar Bjarnhéðinsdóttur.
 
Einkaskjalasafn Bríetar er varðveitt í handritasafni Landsbókasafns og kennir þar ýmissa grasa. T.a.m. eru þar ýmis drög hennar að ræðum og erindum sem hún flutti við ólík tilefni og fjalla um réttindi kvenna.
 
Í erindi frá ca 1937 segir Bríet m.a.:
 
„Þannig er því farið með okkur konurnar. Við höfum á síðustu áratugunum fengið bætta aðstöðu í lífinu og ættum því að nota hana til að gera áhrif okkar gildandi innan þjóðfélagsins til framfara og velferðar fyrir alla þjóðina.  [...] þjóðarbúið þarf húsmæðra með ekki síður en húsbændanna, og að okkar sérþekking og kunnátta er ekki síður ómissandi, en annara sérfræðinga þjóðarinnar, [sem] nauðsynlegir þykja og keyptir eru dýru verði.“
 
Og í fyrstu kvenréttindabaráttugrein sinni mælir Bríet: 
 
„En nú kann stundum að bera svo við, að unglingsstúlkan hafi óbeit og leiðindi á bústörfum, en sterka löngun og góða hæfilegleika til einhvers annars. Ef til vill er óbeit hennar á venjulegum kvennstörfum sprottin af því, að hana vantar menntun og þekkingu til að sjá, hve nauðsynleg þau geta verið, og fengi hún að ganga þann veg, sem hún er hæfust til, mætti heldur vænta að hún mundi síðar með aldri og þekkingu verða hæfari til hússtjórnar, og vinna með ljúfara geði að bústörfum, en ef það er ekki, hvern rjett eiga þá vandamenn hennar til að meina henni að ganga þann veg, sem hún er hæfust til, og liggur þeim þá ekki nær að beina veg hennar, svo að hún geti notað hæfilegleika sína og „spilað á sínar spítur“, enn að leggja stein í veg fyrir hana, og verða þannig orsök í ógæfu og auðnuleysi hennar, sem svo opt hefir orðið hlutskipti bæði karla þeirra og kvenna, sem ekki hafa fylgt hinni upphaflegu löngun sinni og hæfilegleikum?“
 

Njótið dagsins konur!

 

 

Mynd af eiginhandarriti: Landsbókasafn - Hákólabókasafns

 

 

 

 

Tengt efni