SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir 1. júlí 2023

ÚTGÁFUHÓF: EIGINKONA BIPOLAR 2 og BABÚSKA

Næstkomandi mánudag ætti engum að leiðast því í boði verða tvö útgáfuhóf og er tímasetningin slík að vel má sækja bæði.
 
Elín Kona Eddudóttir fagnar útkomu ljóðasögunnar Eiginkona Bipolar 2 í Pennanum, Eymundsson í Hafnarfirði og stendur hófið frá kl. 16-18. Elín Kona mun segja frá tilurð bókarinnar, lesa upp úr henni og svara spurningum um hvaðeina sem gestum liggur á hjarta. Í boði verða léttar, heimagerðar veitingar, kröftugt kaffi, tindrandi te og breitt bros. 
 
Þá fagnar Hallveig Thorlacius útkomu bókar sinnar Babúsku í Gunnarshúsi og hefst teitið klukkan 17:30. Hallveig mun segja frá tildrögum að þessari fyrstu skáldsögu sem hún skrifar fyrir fullorðna lesendur en hún hefur áður skrifað bækur ætlaðar yngra fólki, Sigrún Valbergsdóttir leikstjóri og leiðsögumaður les valda kafla úr bókinni og Sigríður Thorlacius syngur sól í hjörtu viðstaddra. 
 
 
 
 
Efni bóka er kynnt svo:
 
Eiginkona Bipolar 2:
 
Ljóðasagan Eiginkona Bipolar 2 inniheldur fimmtíu ljóða sögu sem höfundur skrifaði á árunum 2016–2018 þegar eiginmaður hennar til 25 ára veiktist af geðsjúkdómi og líf þeirra fór á hvolf. Hún skrifaði þau eins og dagbók, til að ná utan um líðan sína á þessu tímabili og þessa hröðu atburðarás og koma henni í orð. Ljóðin skrifaði hún flest jafnóðum en eftir að hún ákvað að gefa þau út hefur hún bætt aðeins við hér og þar til að gefa lesendum ljóðanna ráðrúm til að vera með í þessu ferðalagi. Í ljóðunum lýsir hún líðan hans með Bipolar 2 og sinni sem aðstandanda og áhrifum sjúkdómsins á líf þeirra og tilveru. Hún segir sögu þeirra af mörgu sem þau þurftu að díla við frá því hann veiktist og þar til þau skildu. Inn í líf þeirra fléttuðust allskyns atvik og uppákomur eins og gerist og gengur í hversdagsleikanum, sem höfðu áhrif á sálarlíf þeirra og rútínu. Ljóðin gætu haft pínu Bipolar-áhrif og valdið upp- og niðursveiflum við lestur þeirra.
 
Babúska:
 
Ung stúlka í Reykjavík verður fyrir bíl og lætur lífið. Rússnesk stúlka, sem vinnur við skúringar, er eina vitnið að atburðinum.
 
Norður í Urriðavík stendur öll sveitin á öndinni vegna dularfullra morða og reimleika.
 
Tengjast þessir atburðir?
 
Hallveig Thorlacius leysir gátuna í grípandi og spennandi frásögn sem er ekki laus við gráglettni.
~
 
Vitnið er Svetlana, rússneskur bókmenntafræðingur sem skúrar gólfin í Arnarhvoli. Þegar hún verður sjónarvottur að atburðinum fyrir framan Þjóðleikhúsið fyllist hún óhug og hjólar burt grunlaus um þær skelfingar sem af þessu hljótast.

Birta, fjórtán ára niðursetningur norður í Urriðavík, hengdi sig úti í fjósi fyrir hundrað árum. Hún gengur nú aftur og er kennt um hryllileg voðaverk sem eiga sér stað í sveitinni.

Hvernig tengjast þessi mál?

 

 

Tengt efni