SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir 3. júlí 2023

PADDAN FRUMFLUTT OG FLEIRI PÖDDUR

Í dag fór fram frumflutningur á leikritinu Paddan eftir Elísabetu Jökulsdóttur. Hún sá sjálf um leiklesturinn ásamt Önnu Jórunni Stefánsdóttur og var það hin besta skemmtun.
 
Tilefnið var opnun Hinnar göfugu pöddusýningar í Bókasafni Hveragerðis en þar sýnir Elísabet fjölda mynda af pöddum sem hún málaði þegar hún upplifði sig sem eina slíka í lélegu ástarsambandi. Þetta reyndist vera sama sjálfsmyndin og hún upplifði á unglingsárum. Þá varð einnig til fyrrnefnt leikrit og reyndist þessi sköpun öll heilun, list og harla góð.
 
Pöddumyndirnar eru rúmlega þrjátíu og allar til sölu. Sýningin mun standa til 12. ágúst.