SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir14. júlí 2023

SUMARBÆKUR OG SUMARFRÍ SKÁLD.IS

Um þessar mundir eru líklega flestir í sumarfríi og nota vonandi fríið til lesturs meðfram öðrum yndisverkum. Á vorin senda bókaútgáfurnar gjarnan frá sér kiljur sem fara vel í tösku og henta því vel til ferðalaga. Hér á eftir nefnum við nokkrar nýútkomnar bækur sem henta ágætlega til lesturs í sumarfríi.

 

Fífa Larsen er nýr höfundur, hún sendi í vor frá sér bókina Grátvíðir, sem segir af ungri íslenskri konu, Jóhönnu, sem búsett er á Ítalíu og lendir í hringiðu morðrannsóknar sem reynist tengjast fjölskylduleyndarmálum látins eiginmanns hennar. Af þessum sökum fer hún í langt ferðalag ásamt lögreglumanni sem stýrir rannsókn málsins. Jóhanna, sem hefur verið ekkja í tvö ár, og býr með ungum syni sínum og tengdaföður, gerir upp við ýmislegt í ferðalaginu og hún gerir sér grein fyrir að hún er ef til vill tilbúin fyrir nýtt ástarsamband - og þar spillir ekki fyrir að ferðafélaginn - lögreglumaðurinn - er bráðmyndarlegur...

Í kynningu útgáfunnar á bókinni segir að Fífa Larsen hafi búið lengi á Ítalíu og þekki vel lifróf ítalskrar þjóðarsálar. Lesandi verður því fróðari um ýmislegt ítalskt, allt frá mat til mafíu.

Flétta bókarinnar er alls ekki einföld og stíll Fífu er með ágætum þótt vissulega fljóti með ambögur sem varða íslenskuna sem lesandi furðar sig á að ritstjóri hafi ekki lagað.

Hér er sem sagt um fína afþreyingu að ræða: glæpasögu með ástarsöguívafi.

 

Ása Marin er hafnfirskur höfundur sem hefur meðal annars sent frá sér fjórar skáldsögur sem allar henta vel til sumarlesturs. Fyrstu skáldsögur hennar komu út 2015 og 2016; Vegur vindsins - buen camino hét sú fyrri og síðan Og aftur deyr hún. Í ritdómi í Fréttablaðinu skrifaði Brynhildur Björnsdóttir:

 

Og aftur deyr hún er stutt saga sem skiptist í stutta kafla þar sem þriðju persónu sögumenn miðla sögunni. Sjónarhornið flakkar á milli persóna sem hver þekkti í raun aðeins sinn hluta af hinni látnu og með því að leggja saman þeirra sjónarhorn fáum við lesendur mynd af manneskju sem er þó fjarri því að vera heil því enn er mörgum spurningum ósvarað um hver við erum, hver þekkir okkur, hvern þekkjum við og hvernig er okkar upplifun af okkur sjálfum og öðru fólki í samhengi við raunveruleikann, ef hann er þá til sem eitthvað áþreifanlegt og óumbreytanlegt.

 

2021 kom síðan skáldsagan Yfir hálfan hnöttinn þar sem segir af ferð Júlíu til Víetnam. Sagan vakti þó nokkra athygli og var meðal annars lýst sem "fullkomnum sumarsmelli" á vefsíðunni Lestrarklefanum. Og núna í vor sendi Ása Marin síðan frá sér söguna Elsku sólir sem segir af ferð tveggja systra, og einnar konu í viðbót, til Andalúsíu á Spáni þar sem þær vænta uppgjörs við óstýriláta móður sína. Í kynningu forlagsins segir:

 

Þegar Sunna og Ársól fá bréf frá móður sinni sem segist vera við dauðans dyr á Spáni bregðast þær ólíkt við; Ársól vill drífa sig út en Sunna fyllist tortryggni. Ekkert í sambandi mæðgnanna er einfalt og fortíðin lituð vonbrigðum og sársauka. Þó verður úr að systurnar og Barbara, gömul vinkona móðurinnar, drífa sig til Andalúsíu. Það sem þar tekur við kemur öllum jafnmikið á óvart og smám saman átta þær sig á að nýir vinir skipta mun meira máli en gamlar syndir.

Ása Marin hefur áður skrifað skáldsögurnar Yfir hálfan hnöttinn og Vegur vindsins sem báðar segja frá óvæntum ævintýrum á framandi slóðum. Í Elsku sólir er þremur ólíkum konum fylgt um heillandi náttúru og líflegar borgir svo lesanda finnst hann sjálfur vera þar í glampandi sól með sangríu í glasi.

 

 

Allar skáldsögur Ásu Marínar eru í bland ferðasögur og í því atriði má tengja þær við bók Fífu Larsen sem getið var hér fremst. Lesandinn lærir margt um þau lönd og héruð sem sögupersónurnar ferðast um og matarlýsingar og uppskriftir eru hluti frásagnarinnar. Þessi 'formúla' er ágætlega þekkt í evrópskum og amerískum bókmenntum og höfðar til margra lesenda. Enda ágætt að taka með sér skáldsögu í stað ferðabókar í ferðalög erlendis!

 

Fyrir þá lesendur sem kjósa aðeins meira kjöt á beinin í skáldskap (og hér er ekki átt við mataruppskriftir!) bendum við á frábærar nýútkomnar þýðingar á norrænum skáldsögum sem bókaútgáfan Benedikt gefur út og óhætt er að mæla með:

 

Smáatriðin eftir Ia Genberg hlaut hin virtu sænsku August-verðlaunin í fyrra og hefur reyndar hlotið fleiri verðlaun. Bókina þýddi Þórdís Gísladóttir og er sögunni, sem fengið hefur mjög góða dóma, lýst þannig:

 

Smáatriðin er skáldsaga í fjórum þáttum sem lýsir fáeinum manneskjum og óteljandi smáatriðum. Áhugaverð saga um afhjúpandi  samskipti og forvitnilegt fólk.

 

 

Skáldsöguna Fullorðið fólk eftir Marie Aubert þýddi Kari Ósk Grétarsdóttir úr norsku en kynning á henni er eftirfarandi:

 

Fullorðið fók er saga um afbrýðisemi og skömm þannig að lesandinn fyllist sælublöndnum hryllingi. Ida er arkitekt á fertugsaldri, einstæð og barnslaus sem þráir að eignast fjölskyldu og persóna Idu lýsir blátt áfram skelfilegu sálarangri þess öfundsama. Saga um útslitin fjölskyldubönd, eigingirni, og skömmina sem fylgir ástlausri tilvist. Ida er á leið í sumarparadís æsku sinnar, þar sem til stendur að fagna 65 ára afmæli móður hennar. Í sumarbústaðnum bíður litla systir hennar, Marta, ásamt kærasta sínum og bónusbarni. Þetta hefði geta orðið gott frí ef ekki hefði verið fyrir gleðifréttirnar sem Marta færir.

 

Að lokum skal nefna þýðingu Steinunnar Stefánsdóttur á skáldverkinu sem hlaut Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs í fyrra, Rúmmálsreikningur eftir hina dönsku Solvej Balle:

 

Þessi verðlaunasaga er um ástina og hverfulleika heimsins. Það er 18. nóvember. Á hverju kvöldi þegar Tara Selter fer að sofa er 18. nóvember og áhverjum morgni þegar hún vaknar er 18. nóvember. Hún á ekki lengur von á að það sé kominn 19. nóvember þegar hún vaknar og hún man ekki lengur eftir 17. nóvember eins og hann hafi verið í gær.

 

 

Skáld.is óskar lesendum sínum góðrar lestrarstunda í sumar en vefurinn fer nú í sumarfrí fram í miðjan ágúst - þótt ein og ein færsla geti dottið inn öðru hverju, þegar ástæða er til.