SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir14. júlí 2023

NÝ SKÁLDKONA, DULARFULLUR DALUR

Margrét Sigrún Höskuldsdóttir bætist nú í hóp skáldkvenna. Hún sendi frá sér sína fyrstu skáldsögu sl. sumar. Sagan heitir Dalurinn og segir frá Sif sem hyggst ljúka við ritgerð í þjóðfræði í sumarbústað foreldra sinna í fáförnum dal. Samhliða er sögð saga af dularfullu pari sem er á göngu á svipuðum slóðum, draugur gengur um ljósum logum og svo dúkkar upp á veröndinni þessi bráðmyndarlegi ferðamaður sem er rennandi blautur og rammvilltur. Og fortíðina er ekki hægt að flýja, sama þótt bústaðurinn sé afskekktur og án netsambands.

Sagan er hörkuspennandi, Melkorka Gunborg Briansdóttir rýndi í hana á vef rúv í fyrra og sagði m.a.:

Eyðidalurinn sem Sif dvelur í er grípandi sögusvið, gerður kunnuglegur og óhugnanlegur í senn. Á daginn er hann fullur af fuglasöng, náttúrufegurð og jafnvel sólskini, en þegar dimmir verða áður vinveitt hljóð dularfull og undarlegir skuggar líða meðfram trjánum. Víðáttan í íslenskri náttúru verður að drungalegu sögusviði, þar sem mosabreiður, lautir og tóftir, steinar, fjöll og ekki síst hrafninn spila öll sitt hlutverk. Aðstæðurnar eru séríslenskar og sveipaðar drunga með ónotalegum lýsingum á borð við hljóðnu í klóm hrafns á gömlu bárujárnsþaki og vindi sem gnauðar í gisnum veggjum yfirgefinnar hlöðu. Veður- og náttúrulýsingar eiga líka sinn þátt í að skapa spennuþrungið andrúmsloft, og það er áhugavert að margar spennusenur bókarinnar gerast um hábjartan dag. Í meðförum Margrétar er dagsbirtan alveg jafn þrungin spennu og óhugnaði og myrkrið, á hátt sem minnir á kvikmyndina Midsommar frá árinu 2019, þar sem hryllingur á sér stað í dagsbirtu.  

 

 

 

Tengt efni