Margrét Sigrún Höskuldsdóttir
Margrét Sigrún Höskuldsdóttir er fædd 29. nóvember árið 1972 á Þingeyri í Dýrafirði en flutti til höfuðborgarinnar á unglingsárum. Hún lauk B.ed. gráðu frá Kennaraháskóla Íslands og hefur lengst af starfað sem grunnskólakennari. Margrét er einnig með meistaragráðu í listfræði frá Háskólanum í Edinborg.
Margrét hefur verið umkringd bókum frá barnæsku og hefur mikinn áhuga á bókmenntum og ljóðum. Það að skrifa skáldsögu spratt svo fram á síðustu árum og fyrsta skáldsagan, Dalurinn, leit dagsins ljós sumarið 2022. Dalurinn er spennusaga sem sett er í vestfirskri náttúru og snertir á sögum og hjátrú sem eru samofnar sögusviðinu. Þar kynnumst við ungri konu sem fer í afskekktan dal fyrir vestan til þess að ljúka meistaraprófsritgerð í Þjóðfræði og hyggst nýta einveruna til þess.
Margrét býr í Vogahverfi Reykjavíkur með eiginmanni og tveimur sonum.
Ritaskrá
2024 Í djúpinu
2022 Dalurinn