SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir30. júlí 2023

LJÓÐ DAGSINS FJALLAR UM BARBIE OG OPPENHEIMER

Þessa dagana flykkjast Íslendingar á bíómyndirnar Barbie og Oppenheimer sem sýndar eru í nær öllum kvikmyndahúsum landsins og veitir vart af til að anna eftirspurninni.
 
Eygló Jónsdóttir skáldkona gerir sér mat úr þessum kvikmyndum í ljóði sem hún birti fyrir fáeinum dögum á Facebook. Þetta magnaða ljóð blandar saman þessum tveimur ólíku heimum af mikilli hugkvæmni.
 
Skáld.is fékk góðfúslegt leyfi til að birta ljóðið:
 
 
 
Barbie bleik og fögur
tiplar á löngum leggjum
eftir sólbakaðri ströndinni.
Engin hugsun truflar symmetríska fegurðina
og hún andar frá sér guðlegri yfirvegun þess
sem veit að ekkert fær haggað
fullkominn tilvist hennar.
 
Þar til herra Oppenheimer
fór að plana og plotta
og reikna og reikna,
smíða og teikna.
Og loks á endanum tókst það.
Stærsta og mesta og besta
sprengja í heimi leit dagsins ljós.
Nú mun heimurinn standa á öndinni
af aðdáun og lotningu
og fylkja sér bak við góðu stríðsherrana
hugsar Herra Opneheimer
og hlær hryssingslega…
 
…sem hefði fengið blóðið í Barbie til að storkna
ef hún hefði þá eitthvað blóð
og væri ekki bara úr plasti.
 
En stríðsherrar og vopnamangarar
og auðmenn heimsins
fylltust fítons krafti.
Nú skyldi sko planað og plottað
og alls ekki stoppað
fyrr en geysuðu stríð í fjarlægum löndum
þeir góðu og réttsýnu tækju saman höndum
svo fólkið færi að trúa á heilaga þrenningu:
hatur, ofbeldi og alls konar ó-menningu.
 
Við trúum á sprengjuna segja þeir
mátt hennar og megin
til að halda óvinum í skefjum
hinum megin.
 
Og síðasta daginn
setur Barbie lag á fóninn
„Last man standing,“
hún raular síðasta tóninn
og horfir út um gluggann.
Þar sér hún Ken
bráðna ofan í gulan sandinn
og öldurna sjóða í flæðmálinu.
Höggbylgjan skellur á henni
rífur af henni langa leggina
sem stingast sem snöggvast
á kaf inn í stofuveggina
og andlitið ljósa og bjarta
sem glatt hafði margt stúlknanna hjarta
lekur eins og síróp niður á plast hrúgu binginn.
 
Og sameinuð þannig að eilífu amen
í logandi eldhafi Barbieheimer.

Tengt efni