SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir 2. september 2023

ÓKINDIN OG MYRKA ÍSLAND

Sigrún Elíasdóttir skáldkona, sagnfræðingur og hlaðvarpsstýra heldur úti hlaðvarpinu Myrka Ísland ásamt Önnu Dröfn. Hlaðvarpið hverfist um ,,ýmsar hörmungar Íslandssögunnar á léttan og aðgengilegan hátt", líkt og segir í kynningu þess. Hlaðvarpið nýtur mikilla vinsælda og er víða aðgengilegt, m.a. á Spotify, Storytel og mbl.is. 

Nýjasti þátturinn nefnist Ókindin, er tekinn upp í Snorrastofu í Reykholti í Borgarfirði og styrktur af Menningarsjóði Borgarbyggðar. Þar eru þær stöllur Sigrún og Anna að fjalla um ógeðfelldar íslenskar barnagælur og söngkonan Gunnhildur Vala flytur vel valdar vísur. Meðal þeirra ókinda sem koma við sögu eru krummi, boli, Grýla og Leppalúði.

Á meðal kvæða sem eru til umfjöllunar er Ókindarkvæði eftir Madömu Björgu Pétursdóttir á Kirkjubæ í Tungu í Fljótsdalshéraði, sem er all svakalegt, og flytur Gunnhildur Vala það með eftirminnilegum hætti í þættinum:

Það var barn í dalnum sem datt ofaní gat,
en þar fyrir neðan ókindin sat.
En þar fyrir neðan sat ókindin ljót
náði hún því naumlega neðaní þess fót.
Náði hún því naumlega neðaní barn
hún dróg það útum dyrnar og dustaði við hjarn.
Hún dróg það útum dyrnar og dustaði vð fönn,
ætla ég að úr því hriti ein lítil tönn.
Ætla ég að úr því hriti augað blátt,
hún kallaði með kæti og kvað við svo hátt:
Hún kallaði með kæti: „Kindin mín góð!
þetta hefur þú fyrir þín miklu hljóð.
Þetta hefur þú fyrir þitt brekastát,
maklegast væri ég minnkaði þinn grát."
„Maklegast væri ég minkaði þinn þrótt" —
En ókindin lamdi það allt fram á nótt.
En ókindin lamdi það í þeim stað,
þangað til um síðir þar kom maður að.
Þangað til um síðir þar kom maður einn,
upp tók hann barnið og ekki var hann seinn,
upp tók hann barnið og inní bæinn veik,
en ókindin hafði sig aptur á kreik.
En ókindin hafði sig ofaní fljót,
og barnið aflagði sín brekin mjög ljót.
Ókindarkvæðið endar nú hér —
en Sigríður litla, sjáðu að þér.

 

Hér má svo sjá þær stöllur í mynd, fjalla um morðin á Illugastöðum.