ÓSTÝRILÁT MAMMA
Í dag er vert að rifja upp frábæra bók Sæunnar Kjartansdóttur, Óstýriláta mamma mín ... og ég sem út kom 2019 og fæst nú á bókamarkaði á 990 kr. Ásta Bjarnadóttir, móðir Sæunnar, var ein fimmtán systkina. Hún lifði skrautlegu lífi, eignaðist ung sitt fyrsta barn, var í ástandinu í Reykjavík og fór alltaf sínar eigin leiðir. Hún drakk mikið, var bullandi sjálfhverf og buguð af höfnun og minnimáttarkennd. En líka ljóngáfuð, minnug og fróð, fyndin og skemmtileg. Hún tilkynnti dætrum sínum 85 ára að aldri, enn heilsuhraust, að hún hygðist hætta að borða því hún ætlaði sér brátt að deyja. Hún féllst á að það yrði jarðarför en það kom ekkert annað til mála en að útgöngumarsinn væri „My way“.
Bókin hlaut Hljóðbókarverðlaunin 2020. Í umsögn dómnefndar um bókina segir:
Einstaklega hjartnæm og áhrifamikil saga sem hreyfir við hlustandanum og lifir með honum lengi á eftir. Höfundur dregur á ljóslifandi hátt upp myndir úr bæði fortíð og samtíð, fléttar tímasviðin saman af miklu öryggi og varpar ljósi á aðstæður margra íslenskra fjölskyldna nokkrar kynslóðir aftur í tímann. Verkið er skrifað af sterkri þörf höfundar til að reyna að skilja bæði eigið líf og annarra, einkum móður sinnar, og vinna úr flóknum tilfinningum. Það er viðeigandi að Sæunn Kjartansdóttir flytji hinn persónulega og einlæga texta sinn sjálf. Hún gerir það afburðavel, á látlausan en hlýjan hátt þegar upp er staðið, ekki síður en hin litríka, sterka og óstýriláta titilpersóna bókarinnar. Frumleg og eftirminnileg.
Sæunn Kjartansdóttir kom í spjall á rás eitt í þættinum Segðu mér eftir úrkomu bókarinnar og sagði frá móður sinni, tildrögum skrifanna og flóknu sambandi þeirra mægðna.