Magnea Þuríður Ingvarsdóttir∙19. september 2023
NÚ ER SÁL ÞÍN RÓS
Eitt af mínum uppáhalds skáldkonum er Ragnhildur Pála Ófeigsdóttir afmælið hennar var þann 17. september s.l. Hún á ljóð dagsins. Úr ljóðabókunum
Andlit í bláum vötnum 1987 er Bergrún gaf út og
Hvísl 1971 útgefin af Almenna bókafélaginu
Grafskrift
Nú er sál þín rós
í rósagarði Guðs
kysst af englum
döggvuð af bænum
þeirra sem þú elskaðir
aldrei framar mun þessi rós
blikna að hausti
Hvísl
Myrkrið blindar mig
og þögnin ærir mig
Gráturinn hlægir mig
og hláturinn grætir mig
Tilvera mín er tilverulaus
og tilveruleysi mitt er tilvera mín
Tilgangur lífs míns er tilgangslaus
og tilgangsleysi lífs míns er tilgangur þess
Nóttin er í nánd
Dökkblá skýin liggja yfir höfðum okkar
reiðubúin að falla yfir okkur
og kremja okkur til bana
Nóttin er í nánd
og við stöndum á ókunnri strönd
og störum út á hafið út í sortann
Nótt er í nánd
og fjaran fyllist ókennilegum sædýrum
gæt að hvar þú stígur niður fæti þínum
því steinninn gæti bitið
Í sandinum við fætur okkar
glóir eitthvað í húminu
eins og sjálflýsandi augu
þú lýtur niður og tekur það upp
og sjá:
Aldan hefur borið að fótum okkar
gullhringa þá er við forðum köstuðuðm á hafið
er hafið hefur máð þá og víkkað út
Við stöndum á ókunnri strönd
með löngu tapað gull í höndunum
og nóttin er í nánd
reiðubúin að falla yfir okkur
og kremja okkur til bana
Aldrei munum við framar
yfirgefa hina ókunnu strönd
því einhver hefir hrundið á flot
litla hvíta bátnum okkar
og hægt og tignarlega
sjáum við hann líða frá landi
og hverfa út í sortann
Nóttin er í nánd
Sjá umfjöllun um Ragnhildi Pálu inni á