SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir29. september 2023

SMÁSAGNAVEISLA

Það er boðið í heljarinnar smásagnaveislu um helgina. Ráðstefnan nefnist Heimur smásögunnar og verður haldin í Auðarsal (stofu 023) í Veröld laugardaginn 30. september og sunnudaginn 1. október. Ráðstefnan stendur frá kl. 10–17 báða dagana en gert er ráð fyrir klukkustunda hádegishléi.

Á þriðja tug fyrirlesara munu fjalla um smásögur úr ýmsum áttum, jafnt innlendar sem erlendar, og velt verður upp ýmsum spurningum um eðli, efni og hlutverk smásögunnar.

Til dæmis spyr Ásta Kristín Benediktsdóttir hvort smásagan sé hinsegin bókmenntagrein, Dagný Kristjánsdóttir fjallar um hryllingshús Ástu Sigurðardóttur, Guðrún Steinþórsdóttir er með nokkra þanka um samspil ímyndunar og veruleika í þremur sögum eftir Kristínu Ómarsdóttur og Gunnþórunn Guðmundsdóttir fjallar um  smásögur höfunda af erlendum uppruna á Íslandi. Þá má nefna að ein af ritstýrum þessa vefjar, Soffía Auður Birgisdóttir, stígur á stokk og flytur erindi um Þórberg Þórðarsón.

Hér eru einungis nefnd fáein dæmi um erindi en dagskrána má nálgast hér og hér má nálgast ágrip erinda.