SKUGGAR LENGJAST, LÆKKAR SÓL
Þann 15. október árið 1900 fæddist Guðrún Árnadóttir að Oddsstöðum í Lundarreykjadal. Hún á ljóð dagsins. Guðrún naut aðeins barnafræðslu í sínu lífi en þó liggja eftir hana yndislega falleg ljóð bæði vel ort og með fjölbreyttum bragarháttum. Ber það helst að nefna hringhenduna sem mér finnst einn fallegasti hátturinn.
Guðrún hafði áhuga á þjóðmálun og hún starfaði fyrir Alþýðuflokkinn. Þá þótti hún róttæk í skoðunum. Ætli að hún hefði ekki látið í sér heyra nú á dögum þar sem af nægu er að taka þegar kemur að vandamálum er snúa að alþýðunni sem aldrei nær að láta enda ná saman. Illa launuð og smáð. En ljóðin hennar bera vott um einstaka manneskju, ljóð sem hitta mann í hjarta stað. Í einu ljóðabókinni sem hún gaf út á lífsgöngu sinni er hún á sorgarstað. Hún hafði misst fósturson sinn Hlöðver Örn Bjarnason og tileinkar hún bókinni honum.
Guðrún lést í Reykjavík 14. apríl 1968.