SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Magnea Þuríður Ingvarsdóttir17. október 2023

Á LEIÐ TIL FYRIRHEITNA LANDSINS

Ingibjörg Benediktsdóttir og jafnrétti kvenna

                                                                                                   .

Þann 24. október n.k. verða liðin 48 ár frá Kvennafrídeginum 1975. Dagsins hefur oft verið minnst með því að konur hafa lagt niður launuð störf hluta úr degi. Nú á að ganga lengra og vekja þar með athygli á því að atvinnutekjur kvenna eru enn lægri en karla og að fjórar af hverjum tíu konum verða fyrir ofbeldi á lífsleiðinni. Fulltrúar á fjórða tug samtaka kvenna, launafólks og hinsegin fólks kynnti aðgerðirnar á fréttamannafundi.

 

 

 

Sýnum samstöðu

Tatiana Latinovic formaður Kvennréttindafélags Íslands hvetur konur til að mæta á útifund á Arnarhóli eða í heimabyggð:

 

Við vitum að enn í dag eru hefðbundin kvennastörf ekki metin að verðleikum. Kynbundið ofbeldi er útbreitt og þetta eru svona þemu í ár. Það er svo mikilvægt að sýna samstöðu af því að það snertir okkur öll sama hvar við erum í samfélaginu.

 

Nú er vert að minnast þeirra sem lögð hönd á plóg fyrir jafnréttum, fyrir meira en hundrað árum síðan. Ingibjörg Benediktsdóttir var ein af þessum konum. Hún hvatti konur til þess að huga að sínum málum, krefjast jafnréttis á við karla og hún orti mörg mjög falleg baráttuljóð í þeim tilgangi.

 

Hirðskáld kvennahreyfingarinnar

Ingibjörg Benediktsdóttir var fædd 1885 á Bergstöðum í Hallárdal í Austur Húnavatnssýslu. Hún lauk prófi frá gagnfræðaskólanum á Akureyri árið 1909, og kenndi meðal annars við kvennaskólann á Blönduósi og seinna við barnaskóla Reykjavíkur. Hún giftist Steinþóri Guðmundssyni og áttu þau 4 börn. Ingibjörg gaf út tvær ljóðabækur Frá afdal til Aðalstrætis (1938) og Horft yfir sjónarsviðið (1946).

 

 

Þrjátíu ára minning Kvenréttindafélagas Íslands
 
Frá því eru liðin þrjátíu ár,
að það var kvenna hópur smár,
er tendgum höndum hóf hér för
að heimta frelsi og betri kjör.
 
Að meta okkar eigin rétt
sem æðsta boðorð var þar sett,
með samúð hnýta systraband,
og sjá vort fyrirheitna land.
 
Og fyrirheitna landið lá
svo langt þeim krappa sjónhring frá,
er lukti um okkar líf og starf.
Hve lítið gafst í móðurarf!
Og enginn myndi óska þess,
við ömmu sína að skifta um sess.
Hið eina mark var alla tíð,
sem auðmjúk kona, gæf og blíð,
að vinna hylli voldugs manns,
og verða eiginkona hans. -
 
Og það var engin önnur leið,
sem ungra kvenna forðum beið.
En þessi leð var þyrnum stráð,
og það var aðkast, skens og háð,
sem mætti oss, ef missteigst spor,
svo meðaumkvun varð umbun vor,
En meðaumkvun og misþyrming
er móðureðli svívirðing. 
                      (Frá afdal til Aðalstrætis, bls. 143)
 

 

Heimildir:

Helga Kress. 2001. „Ingibjörg Benediktsdóttir 1885-1953“ Stúlka. Ljóð eftir íslenskar konur.  Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, Reykjavík, bls. 208.

Ingibjörg Benediktsdóttir. 1938. Frá afdal til Aðalstrætis. Reykjavík, bls. 143.