SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir 1. nóvember 2023

NÝTT FRÁ JÓNÍNU

Árið 1988 sendi Jónína Leósdóttir frá sér fyrstu bók sína, Guð almáttugur hjálpi þér - æviminningar séra Sigurðar Hauks Guðjónssonar. Hún fagnar því 35 ára rithöfundarafmæli um þessar mundir. Ný bók var að koma frá henni: Þvingun.

Jónína starfaði lengi sem blaðamaður og ritstjóri og þýddi skáldsögur og bækur af öðrum toga. En frá árinu 2006 hefur hún unnið alfarið sem rithöfundur. Árið 2016 kom fyrsta glæpasaga Jónínu út, Konan í blokkinni, og var hún tilnefnd til íslensku glæpasagnaverðlaunanna, Blóðdropans. Þar er það Edda, eldri kona, sem er aðalpersónan og glímir við sakamál í nærumhverfinu. Hún á erfið samskipti við fjölskyldu sína, blöskrar hegðun unga fólksins og leiðist aðgerðaleysi eftirlaunaáranna. 

Þvingun er þriðja bókin um þau Adam  sálfræðing og Soffíu rannsóknarlögreglukonu sem  er barnsmóðir hans og neyðast þau til að vinna saman við að leysa flókin mál.

Söguþráður Þvingunar er á þessa leið: Maður finnst myrtur í sumarbústað við Laugarvatn. Mál fara að flækjast þegar í ljós kemur að einn skjólstæðingur Adams hefur fundið hótunarbréf sem tengist morðinu og fyrr en varir er Adam enn á ný kominn nauðugur í hlutverk aðstoðarmanns sinnar eldhressu, lakkrísbryðjandi fyrrverandi eiginkonu. Í ofanálag ágerist heilabilun móður hans og leyndarmál Adams leitar upp á yfirborðið.

 Jónína fléttar snjallar ráðgátur með skemmtilegu fólki og alls konar úrlausnarefnum.

 

 

Tengt efni