Jóna Guðbjörg Torfadóttir∙20. desember 2023
LJÓÐ DAGSINS
Árið 2002 kom út ljóðabókin Rauður snjór eftir Sigríði Helgu Sverrisdóttur, sem er jafnframt hennar fyrsta ljóðabók, en hún hefur síðan sent frá sér ljóðabókina Haustið í greinum trjánna (2017) og þýðingu á úrvali ljóða eftir Piu Tafdrup (2019) sem er eitt þekktasta ljóðskáld Dana.
Í ljóðabókinni Rauður snjór sækir höfundurinn yrkisefnin til ástarinnar og náttúrunnar. Nú kyngir niður snjó og álengdar ber gosstrókinn við himinninn. Því kann að fara vel á eftirfarandi ljóðum sem hverfast annars vegar um eldfim kristalskorn og hins vegar löngunina til að leggjast í hýði þegar kuldinn smýgur inn að beini:
Ég vildi ég væri
ég vildi ég væri
snjóflygsan sem
fellur á nef þitt
hægt og
svo hljótt
bráðnar við
snertingu þína
leitar niður
að munni þínum
bíður þar átekta
uns tunga þín
umlykur mig
(bls. 14)
Söknuður
þegar Esjan klæðist hvítum kjól
þögnin hrímþoka
á dimmrauðum vetri
hjartað í ljósum logum
og beinagrindin á borðinu
bíður eftir kraftaverki
að vatnið breytist í vín
(bls. 24)
Vektu mig
Vektu mig
er klaka leysir
og heiðlóan
syngur sinn hugljúfa söng
fyrir vorið í salnum.
Vektu mig
þegar ég get
setið úti á stétt
og drukkið kaffið mitt
án þess að kólna.
Vektu mig
þá
ekki fyrr.
(bls. 39)