SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir 6. janúar 2024

ÚTVARPIÐ EITT AF MUSTERUM ÍSLENSKUNNAR

Gerður Kristný flutti ávarp í gær þegar henni hlotnaðist viðurkenning og verðskuldaður heiður frá Rithöfundasjóði Ríkisútvarpsins. Ávarpið birtist hér með góðfúslegu leyfi skáldkonunnar. Innilegar hamingjuóskir frá skáld.is!

Ráðherra, útvarpsstjóri, formaður Rithöfundasambandsins, verðlaunanefnd og gestir í sal og þið sem heima sitjið!

Í dag sýnir Ríkisútvarpið mér mikinn heiður. Ég þakka fyrir hann. Útvarpið er nátengt áhuga mínum á ljóðum. Þaðan barst tónlist sem ekki heyrðist annars staðar, grípandi laglínur samdar við haganlega smíðuð kvæði. Þau varð ég að læra utan að til að geta tekið undir.

Síðar bættust sögurnar við og heimalærdómurinn varð mun bærilegri ef kveikt var á útvarpssögunni á meðan hann var unninn. Vegurinn að brúnni eftir Stefán Jónsson var saga að mínu skapi og auðvitað bækur hinnar bandarísku Pearl S. Buck. Fyrir nokkrum árum sat ég í hópi rithöfunda í Skotlandi þar sem horfnir Nóbelshöfundar bárust í tal. „Hver man eiginlega eftir Pearl Buck?“ spurði einn þeirra og ég svaraði að bragði: „Ég!“ Þrengingar kvennanna í Kína sem saumuðu eðalsteina inn í fóðrið á fötunum til að missa þá ekki í hendur ræningja eru ógleymanlegar.

Útvarpið færði mér líka íslensk skáld alla leið inn í herbergi. Nína Björk Árnadóttir, Vilborg Dagbjartsdóttir og Þorsteinn frá Hamri settust við hlið mér á svefnbekkinn úr Vörumarkaðinum og fluttu mér ljóð. Svo ekki sé talað um djassþætti og útvarpsleikrit sem mölluðu undir bréfa- og dagbókarskrifum. Fannst mér þetta skemmtilegt? Enginn spurði að því en vildi maður fá hvíld frá þjarki sinna innri djöfla var það þetta sem bauðst. Úr útvarpinu bárust margar raddir sem höfðu ólíkar sögur að segja og líf mitt rúmaði þær allar.

Ég var í Menntaskólanum við Hamrahlíð þegar formaður nemendaráðsins sagði mér að hringt hefði verið frá Útvarpinu og óskað eftir skáldi í þátt fyrir ungt fólk. Hvort ég væri ekki einmitt skáld? Og ég hélt það nú. Þá þegar hafði ég birt ljóð í skólablaðinu. Reyndar undir dulnefni. Ég gætti samt ekki að því að í skólanum var einmitt stúlka með sama nafn og ég hafði skrifað undir ljóðin. Henni var ekki skemmt.

Hvernig var hægt að sýna skírar að maður væri skáld heldur en með því að þeytast með lyftunni upp í hæstu hæðir á Skúlagötu 4 og flytja þjóðinni ljóð? Ég hafði skáldskapinn í leðurmöppu með rennilás eins og ég hafði séð Sigurð A. Magnússon halda þétt að sér í þristinum. Ég hef alltaf kunnað að velja mér fyrirmyndir. Á þessum tíma voru samningar Útvarpinu jafnóhagstæðir og þeir voru rithöfundum hagstæðir því eftir hvern lestur í unglingaþættinum góða – og þeir urðu fleiri – var ég helmúruð. Meira máli skipti þó sú staðreynd að þegar Útvarpið var farið að titla mig skáld varð ekki aftur snúið.

Í ár stend ég á tímamótum því nú eru liðnir þrír áratugir síðan fyrsta bókin mín, ljóðabókin Ísfrétt, kom út. Henni var hleypt af stokkunum hér í Efstaleitinu með viðtali hjá Jórunni Sigurðardóttur, þeim fróða og vel máli farna verndara íslenskra bókmennta.

Útvarpið er vitaskuld eitt af mörgum musterum íslenskunnar. Þar rekur engan í vörðurnar. Um árabil skrifaði ég greinar um samfélagsmál í Fréttablaðið og einn daginn kvað við símhringing. Viti menn, ein útvarpsradda æsku minnar var á hinum enda línunnar. Jóhannes Arason sjálfur! Hann spurði hvort hann mætti ræða við mig um íslenskt málfar. Hvort hann mátti! Í raun og veru langar mig aldrei til að ræða neitt annað. Jóhannes hafði komið auga á ljóta málvillu í síðustu grein minni og vildi benda mér á hana. Það þarf enga forsetningu þegar maður nefnir að eitthvað fari fram 17. júní en ég hafði skrifað „á 17. júní“. Þakkaði ég Jóhannesi réttmæta áminningu.

Það er kannski fullmikið að ætlast til jafnpersónulegrar þjónustu af fyrrverandi starfsfólki útvarpsins og Jóhannes innti þarna af hendi en örþjóð eins og Íslendingar er nú samt lánsöm að eiga sér útvarp sem sendir út dagskrá á þjóðtungunni, hvort sem verið er að spila tónlist Unu, Bríetar og Bubba, flytja veðurfréttir eða hvetja okkur til að lyfta okkur upp á jarkana.

Fyrir ættfræðispekúlantana finnst mér rétt að taka fram að Þórður afi minn var bróðir Benedikts, langafa Unu sem hlaut sem hlaut Krókinn rétt í þessu. Litla-Fjarðarhornsfólkið stendur sig í dag.

Mig langar að lokum að fara með kvæði eftir Sigurð Hreiðar. Ég lærði það í sjónvarpinu þegar ég var barn og það á furðuvel við hér í dag þótt samið hafi verið af öðru tilefni en því sem leiðir okkur hér saman:


Í kolli mínum geymi ég gullið

sem gríp ég höndum tveim

svo fæ ég vexti og vaxtavexti

og vexti líka af þeim.

 

Takk fyrir mig!

Ljósm: Rúv

Tengt efni