SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir30. janúar 2024

BÓKMENNTAVERÐLAUNIN AFHENT Í KVÖLD

Spennan vex, ekki bara út af óveðrinu sem spáð er í dag, heldur vegna þess að nú er komið að því að íslensku bókmenntaverðlaunin 2023 verði afhent á Bessastöðum. Bein útsending í sjónvarpinuí kvöld, strax eftir Kastljós.

Að þessu sinni eru fimm skáldsögur tilnefndar en engin ljóðabók sem vakið hefur umræðu, m.a. um hvort þær ættu framvegis að vera í sérstökum flokki. Einnig hefur vakið athygli að öndvegisverk Gyrðis Elíassonar er ekki tilnefnt, sem er miður.  Ljóst er að aldrei verður algjör sátt um það sem nefnd útí bæ tilnefnir úr tugum bóka og fleiri sitja eftir með sárt enni. En það besta við bókmenntaverðlaunin er einmitt að vekja umræður um bækur og bókmenntir.

Í ár eru þrjár bækur í flokknum Skáldverk af fimm eftir konur. 

 • Ból eftir Steinunni Sigurðardóttur
 • DJ Bambi eftir Auði Övu Ólafsdóttur
 • Dúnstúlkan í þokunni eftir Bjarna M. Bjarnason
 • Land næturinnar eftir Vilborgu Davíðsdóttur
 • Náttúrulögmálin eftir Eirík Örn Norðdahl

Í flokki barna- og ungmennabóka eru þessar tilnefndar:

 • Bannað að drepa eftir Gunnar Helgason og Rán Flygenring myndhöfund
 • Vísindalæsi – Hamfarir eftir Sævar Helga Bragason og Elías Rúna myndhöfund
 • Hrím eftir Hildi Knútsdóttur
 • Mömmuskipti eftir Arndísi Þórarinsdóttur og Huldu Sigrúnu Bjarnadóttur
 • Stelpur stranglega bannaðar! eftir Emblu Bachmann

Ein bók eftir konu er tilnefnd til glæpasagnaverðlaunanna Blóðdropans. Það er Heim fyrir myrkur eftir Evu Björgu Ægisdóttur. 

Tilnefningar í flokki fræðibóka og rita almenns efnis:

 • Alþýðuskáldin á Íslandi – saga um átök eftir Þórð Helgason
 • Ég verð aldrei ungfrú meðfærileg – baráttusaga Guðrúnar Jónsdóttur eftir Ingibjörgu Dögg Kjartansdóttur
 • Með verkum handanna – íslenskur refilsaumur fyrri alda eftir Elsu E. Guðjónsson og Lilju Árnadóttur
 • Samfélag eftir máli – bæjaskipulag á Íslandi og fræðin um hið byggða umhverfi eftir Harald Sigurðsson
 • Séra Friðrik og drengirnir hans – saga æskulýðsleiðtoga eftir Guðmund Magnússon

Ef ætti að nefna hvort einhver „trend“ væru sjáanleg í bókum árins 2023, þá er það helst að sögulegar skáldsögur standa með miklum blóma. Konur skrifa um formæður sínar, s.s. Nanna Rögnvaldardóttir, Kristín Ómarsdóttir, Ólöf Dóra Bartels o.fl., karlar skrifa um merkismenn og sögulega viðburði. s.s. Fisher og Drauma-Jóa og Kambsránið en gaman er að lesa tvær skáldsögur sem fjalla um það með gjörólíkum hætti. 

Fylgjumst með í sjónvarpi allra landsmanna í kvöld.

 

Mynd af vef Miðstöðvar ísl. bókm.

 

Tengt efni