SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir19. febrúar 2024

ÁSTAND Í BOÐI FEÐRAVELDISINS

Nýlega var tilkynnt hver hlutu tilnefningar til Viðurkenningar Hagþenkis og er þar á meðal umfjöllun Báru Baldursdóttur um njósnir hins opinbera um konur sem áttu í samskiptum við hermenn. Rit Báru nefnist Kynlegt stríð – Ástandið í nýju ljósi en það var einnig tilnefnt til Fjöruverðlauna á dögunum.

Í ,,ástandinu" svonefnda brugðu yfirvöld á það ráð að fylgjast grannt með hegðun ungra kvenna sem taldar voru ógn við íslenska menningu og siðferði. Þá voru einnig sett bráðabirgðalög sem heimiluðu að fylgst væri með konum allt fram að tvítugu en á þessum tíma var sjálfræðisaldurinn 16 ár og máttu konur gifta sig 18 ára. Í kjölfarið var sett á laggirnar ungmennaeftirlit lögreglunnar í Reykjavík og ungmennadómur. Þær konur sem urðu uppvísar af því að vera í samvistum við hermennina voru dæmdar til vistar á sveitaheimilum og á Kleppjárnsreykjum. Allt í boði feðraveldisins.

Jóhanna Knudsen, fyrsta íslenska lögreglukonan, veitti þessu ungmennaeftirliti forstöðu. Fyrir ekki margt löngu var einkaskjalasafn hennar opnað eftir að hafa verið lokað í hálfa öld og hafði það að geyma nöfn rúmlega 800 kvenna sem fylgst var með. Alma Ómarsdóttir fréttakona og fjölmiðlafræðingur gerði Jóhönnu prýðileg skil í heimildarmyndinni Stúlkurnar á Kleppjárnsrekjum sem frumsýnd var haustið 2015 og hlaut metaðsókn.

Nú bíður þingsályktunartillaga Alþingis í þriðja sinn um að það fari fram opinber rannsókn á að minnsta kosti hluta þessara ofsókna. Vonandi verður ráðist í þessa rannsókn fyrr en seinna og þessi skammarlegu mannréttindabrot gerð upp. 

 

 

Tengt efni