SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir23. febrúar 2024

SKÁLDKVENNATAL KANÍNUHOLUNNAR

Á morgun er boðið til fagnaðar í Kanínuholunni af tilefni útgáfu skáldkvennatals. 
 
Skáldkvennadagatalið er ólíkt hinu hefðbundna dagatali, sem geymir daga mánaðarins, hátíðis- og merkisdaga, því hver einasti dagur er afmælisdagur skáldkonu, kvenhetju og kvenheimspekings. Þá er dagatalið einnig óhefðbundið að því leyti að það er ekki bundið við árið 2024. 
 
Dagatalið er gefið út í 100 númeruðum eintökum og er þrítyngt – á íslensku, ensku og frönsku. Dagatalið er unnið af skáldkonunni og fornbókasala Kanínuholunnar Móheiði Hlíf Geirlaugsdóttir sem sótti heimildir m.a. á skáld.is, Íslendingabók og önnur öngstræti internetsins. 
 
Þetta er afar þarft framtak og mjög til fyrirmyndar, líkt og segir í auglýsingu á viðburðinum:
 
Staðreyndin er sú að jafnvel þó að konur skrifi til jafns við karlmenn og þó að þær lesi meira en karlmenn og noti bókasöfnin mikið meira þá þekkjum við nöfn karlhöfunda mun betur. Þeir eru þekktari, verk þeirra eru þykkari, leðurbundnari og mikilvægari. Þeir eru frekari á bókmenntasöguna og hugmyndasöguna og gleiðfættir sitja þeir í hásætinu á meðan við bara erum konur, dræsur, prinsessur og aðdáendur, krjúpandi afsakandi við fætur þeirra með eitthvað „smáræði“ sem við týndum til.
Megi þetta dagatal lyfta skáldkonum og hetjum á sinn réttilega stall!
 
Dagatalið fæst á hóflegu verði í fyrrnefndri Kanínuholu en hún er staðsett að Stangarholti 10. 
 
Gleðin yfir útgáfunni stendur frá 14-17 á morgun, sunnudag, og eru öll velkomin.